18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg geri ráð fyrir, að þessum löngu umr. fari nú bráðum að verða lokið. Mjer sýnast stólarnir hjerna bera því vitni, að hv. þdm. sjeu búnir að fá nóg af þessum umr. Jeg skal geta þess, að með því flestir af andmælendunum munu vera dauðir, þá mun jeg haga orðum mínum þannig, að jeg skal að minsta kosti ekki bera sakir á þá, og vænti þá, að þeir geti geymt sjer til 3. umr. að svara. Það virðist svo, sem hv. þm. sumum þyki undarlegt, að jeg skyldi minnast á það í gær, að þeir töluðu nokkuð alment um málið við þessa. umræðu. En það er misskilningur hjá þessum hv. þm., að jeg væri að átelja það, að þeir töluðu alment um málið við 2. umr. Það geri jeg oft sjálfur. En jeg fann að því, að menn komi með sömu almennu ræðurnar við 2. umr. sem þeir hafa borið fram við 1. umr. Það er oft, að hv. þm. segja það sama tvisvar til þrisvar sinnum, og það verður þreytandi þegar til lengdar lætur.

Þá skal jeg snúa mjer að einstökum hv. þm. og þá byrja á hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ). Hann hjelt því fram, eins og reyndar fleiri, að ef þetta frv. yrði samþykt og ekkert yrði úr framkvæmdum, þá væri járnbrautarmálinu með því slegið á frest um óákveðinn tíma. En nú vil jeg spyrja hv. þm., hvort hann telji nokkrar líkur til þess, að járnbraut verði lögð hjer á kostnað ríkisins á næstu 3–4 árum. Við vitum, hvernig fjárhagsástandið er, svo það er alveg óhugsandi, að ríkissjóður geti á næstu árum lagt fram þessar 7–8 miljónir, sem þarf til þess að leggja járnbraut. Það er því óhætt að fullyrða, að ríkið mundi ekki geta ráðist í slíkt fyrirtæki, þó Alþingi samþykti það. Það hefir verið tekið fram, að það væri engin vissa fyrir því, hvernig þessi hv. deild hefði snúist í járnbrautarmálinu í fyrra, en jeg held þó, að óhætt sje að fullyrða, að meiri hluti hefði ekki fengist með því eins og það var flutt í fyrra. Þessi mótbára hv. þm. hefir því ekki við nein rök að styðjast.

Þá var eins og þessum hv. þm. kæmi það á óvart, að ekki yrði byrjað með því að virkja allan fossinn. En jeg tók það fram, að byrjað mundi vera með því að virkja svo sem hluta hans. Jeg hjelt, að það mundi vera öllum ljóst, að það getur ekki komið til mála að byrja með því að virkja allan fossinn. Jeg held jeg geti fullyrt, að þó að Titan hefði þessar 40 miljónir handbærar, þá mundi fjelaginu ekki detta í hug að virkja allan fossinn í einu. Þetta hefi jeg altaf vitað og búist við því, að það mundi einnig vera öllum ljóst. Jeg hefi hjer í höndunum brjef, sem staðfestir þetta, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp kafla úr því; það er frá advokat Aall:

„Vi gaa ut fra, at den industrielle utnyttelse vil komme til at foregaa skridtvis. Det vil saaledes i förste række neppe bli tale om at utbygge mere end 40000 á 50000 hestekræfter overensstemmende med Sætersmoens utbygningsplan I.“

Þetta er gefinn hlutur, og á þessu byggi jeg það, sem jeg sagði. Þá sagði þessi hv. þm., að það væri undarlegt af fjelaginu að vera að seilast hingað til Íslands, þar sem staðhættir væru betri í Noregi og fallvötn óvirkjuð þar. Jeg skal nú láta mjer nægja að vísa til þess, sem hæstv. atvrh. svaraði þessu. Jeg hefi engu þar við að bæta.

Aðalatriðið hjá þessum hv. þm. var það, að ekki mætti blanda járnbrautinni saman við þetta mál. En jeg verð að segja það, að frá því fyrst kom til mála að veita sjerleyfi til virkjunar fyrir 20 árum — það var 1907 sem fyrsta málaleitunin kom —, þá var það einróma álit þeirra, sem í stjórn sátu, að ekki bæri að veita leyfi til virkjunar fyrir austan, hvort sem það nú væri í Þjórsá, Soginu eða Gullfossi, nema virkjunin væri sett í samband við járnbraut. Þetta var skoðun Hannesar Hafsteins, sem þá var ráðherra, og þetta var skoðun Björns Jónssonar, sem ráðherra varð á eftir honum, og þetta hefir verið skoðun allra ráðherra fram til 1917. En síðan veit jeg, að menn hafa setið í ráðherrasessi, sem hafa haft þessa skoðun, meðal annara núverandi hæstv. atvrh. Jeg hefi altaf verið þessum mönnum sammála og átt nokkurn þátt í ákvörðunum, sem teknar hafa verið um þetta mál.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að ef það væri fullkomlega trygt, að sjerleyfishafi gæti byrjað á framkvæmdum virkjunar, þá ætti landið sjálft að leggja járnbrautina, því að þá væri kominn nauðsynlegur viðskiftavinur, sem gæti borið járnbrautina. Af hálfu Titans er það að segja, að fjelaginu ef ekkert kappsmál að leggja fram 7 miljónir ókeypis til járnbrautarlagningar. Ef hv. þm. gæti komið því til leiðar, að fjelagið losnaði við að leggja járnbraut, þá get jeg fullvissað hann um, að það mundi kunna honum þakkir fyrir. En jeg hefi nú enga von um, að svo verði. Þá mun það ekki vera fleira, sem jeg hefi að svara hv. þm. N.-M., en vísa að öðru leyti til svars hæstv. atvrh.

Þá er það hv. 1. þm. Reykv. (JakM). Hann talaði fyrst um það, að nauðsynlegt væri að breyta orðalagi 9. gr. frv. og vildi ekki fallast á skilning hæstv. atvrh., sem allir hljóta þó að vera sammála um. En ef hv. þm. er samt óánægður, þá getur hann komið fram með brtt. við 3. umr., og jeg get lofað því fyrirfram að vera henni samþykkur, því að jeg álít, að það sama felist í greininni sjálfri.

Jeg hafði spurt hv. 1. þm. Reykv., hvað hann þekti til fjelagsins Titans. Hv. þm. sneri nú spurningunni við og spurði mig, hvað jeg þekti til þess. Jeg hefi verið í stjórn fjelagsins síðan 1918, í 9 ár, og verið á fundum á hverju ári, nema einu sinni, með útlendum stjórnendum, svo það er auðvitað, að jeg gerþekki fjelagið og fyrirætlanir þess. Jeg skal nú óhræddur leggja það undir dóm allra óhlutdrægra manna, hvor okkar muni þekkja fjelagið betur, jeg, sem setið hefi í stjórn þess í 9 ár og oftlega talað við hina útlendu meðstjórnendur og skifst á brjefum við þá, eða hv. 1. þm. Reykv., sem ekki þekkir hina útlendu stjórnendur í sjón, hvað þá meira. Jeg þarf ekki að rökræða þetta; jeg hygg, að það sje öllum ljóst. Að fjelaginu sje alvara með að halda áfram, sjest best á því, að það hefir altaf haft vakandi auga með öllu, er að þessum málum lýtur, sendi mann hingað upp í fyrra, þegar til tals kom á Alþingi að veita sjerleyfi til virkjunar, til að fylgja með málinu, og hefir nú sótt um sjerleyfi.

Þá vildi hv. þm. sýna, að hann þekti töluvert til fjelagsins, og gat þess, að legið hefði við, að gert hefði verið lögtak í jörð fjelagsins á Skeiðaáveitusvæðinu fyrir ógreiddum tillögum til áveitunnar. Mjer er alveg ókunnugt um þetta. Jeg hefi engar fjárreiður haft fyrir hönd Titans. Það hefir annar maður gert, mjög áreiðanlegur maður, sem jeg býst við, að hv. þm. þekki, og jeg veit ekki betur en hann hafi altaf staðið í skilum með allar greiðslur. Jeg veit, að hann hefir haldið skrá yfir, hvað hann hefir átt að borga og hve mikið, og látið sjer mjög ant um að passa þetta sem best. Jeg hefi að vísu ekki haft spurnir af þessu síðustu 2–3 árin, en býst við, að alt sje í lagi með það, því að jeg veit ekki betur en nægilegt fje sje til þess og maður þessi hefir að nokkru leyti getað tekið það undir sjálfum sjer. Annars geta ýmsar ástæður hafa legið til þess, að það hafi átt að fara að gera lögtakið. Jeg veit, að það var nýlega að því komið, að gert yrði lögtak fyrir tekjuskatti hjá stórauðugum útlendum manni, sem á jörð hjer, og kom það þá af því, að umboðsmaður hans hafði gleymt þessu. Þess vegna er þessi saga hv. þm. engin sönnun fyrir því, að fjelagið eigi ekki nægu fje yfir að ráða. Annars verð jeg að segja, að ræða hv. 1. þm. Reykv. gladdi mig að sumu leyti. Hann fór nú mýkri höndum um málið en hann hefir gert að undanförnu. Hann kvaðst einungis hafa lýst efa um það, að fjelagið gæti int skyldur sínar af hendi. Jeg skil það vel, að menn geti efast. Jeg ímynda mjer, að allir geti tekið undir það, að efamál geti verið, að einu fjelagi takist að útvega það mikið fje, að hægt sje að byrja á fyrirtæki. Slíkt getur altaf verið efamál. En að fullyrða það, að fjelagið geti ekkert gert, nær ekki neinni átt og er aðeins kastað fram af þeim, sem ekkert vita nje þekkja til þessa máls.

Jeg veit ekki, hvernig sá misskilningur hefir komist inn hjá hv. 1. þm. Reykv., og jafnvel mátti líka lesa það út úr orðum hv. 2. þm. N.-M., að núverandi hluthafar Titans muni leggja fram alt hlutafjeð. Jeg hefi aldrei búist við því og aldrei haldið slíku fram. Hv. 1. þm. Reykv. sagði líka, að sumir hluthafarnir hefðu lagt nú þegar fram um miljón og mundu láta þar staðar nema og leggja ekki meira af mörkum. En þetta er vitanlega ekkert annað en fullyrðing, eins og fleira hjá þessum sama hv. þm. Jeg þekki menn, sem líka hafa lagt stórupphæðir í fjelagið, bæði upphaflega, er það var stofnað, og síðar, og jeg veit með vissu, að þeir munu halda því áfram.

Nei, stjórn Titans mun ekki leggja árar í bát, heldur leita fyrir sjer um fje, ekki aðeins hjá hluthöfum, heldur líka, eins og hæstv. atvrh. (MG) drap á í gær, leita nýrrar hlutafjársöfnunar og hefir fulla von um að geta fengið fje í Svíþjóð og víðar. Jeg get bætt því við til frekari skýringar, að mjer er kunnugt um, að fjefjelagið hefir góð sambönd við ýmsa mikla fjármálamenn í Þýskalandi, t. d. í Hamborg, og þaðan vænta menn fjárins. Jeg get um þetta efni vitnað í brjef frá Aall hæstarjettarmálafærslumanni, þar sem hann segir, að miklar líkur sjeu fyrir því, að nægilegt fje fáist til virkjunarinnar, ef ekki verði mjög breytt frá því um sjerleyfið, eins og það er fram borið í frv. þessu. Alt er í þessu efni komið undir sjerleyfiskjörunum.

Frekara þykist jeg ekki þurfa að svara hv. 1. þm. Reykv. Og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) þarf jeg litlu einu að svara. Hann sagði, að það væri ekki nema von, þó að fjelagið fengi ekki nægilegt fje til að leggja fram í fyrirtækið, því að afgjaldið væri of hátt, fyrst 3 kr. af hverri nýttri hestorku, sem hækkaði eftir 10 ár upp í 5 kr. Jeg skal játa, að mjer þykir þetta afgjald fullhátt og hefði talið það heldur tefja fyrir því, að byrjað væri á virkjuninni. En úr því þetta hefir orðið að samkomulagi milli hæstv. stjórnar og þeirra, sem við hana sömdu fyrir fjelagsins hönd, þá þeir um það. Annars hefir hæstv. atvrh. pínt þá eins og hann hefir getað, og með því sýnt, að hann hefir verið fullkomlega fær að semja um þetta fyrir landsins hönd og farið í því efni eins langt og hægt var.

Þá sagði hv. þm. V.-Húnv., að fjelagið mundi ekki byrja að leggja járnbraut fyr en það hefði nægilegt fje til virkjunar. En það hefir verið bent á, bæði af mjer og hæstv. atvrh., að það væri ekki bundið við að byggja út allan Urriðafoss í einu. Ef fjelagið byrjaði að byggja járnbraut fyrir 7 miljónir og virkja t. d. 1/3 af fossinum, sem kosta mundi um 13 miljónir, þá þyrfti það um 20 miljónir króna til þess að byrja með, en ef það hefði þessa upphæð, mundi það vafalaust leggja út í virkjun, og meina jeg þar með ekki einungis byggingar orkuvers, heldur líka iðjuvers.

Fleira var það ekki í ræðu hv. þm. V.-Húnv., er jeg sje ástæðu til að orðlengja um.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) talaði aðallega um það atriði, sem margbúið var að ítreka áður, nefnilega um tryggingu fjelagsins fyrir sjerleyfinu. Mjer skildist orð hans hníga í þá átt, að hann þyrfti frekari tryggingar af fjelagsins hálfu, ætti hann að geta greitt atkv. með frv. Jeg geri ekki ráð fyrir, að nefndin komi með brtt. í þá átt. En honum er innan handar sjálfum að bera fram slíka brtt. við 3. umr. málsins, og kemur þá í ljós, hvort nefndin getur þar átt samleið með honum. En jeg skal taka fram, að með brtt. nefndarinnar er komið svo mikið aðhald hvað fjelagið snertir, að ekki er sanngjarnt að heimta meiri tryggingu, sjerstaklega þó með tilliti til þess sjerleyfis, sem veitt var hjer í fyrra. Það virðist engin ástæða til, að þetta fjelag verði harðara úti eða af því heimtaðar meiri tryggingar en Dynjandafjelaginu.

Þá er jeg kominn að háttv. 2. þm. Reykv. (MJ) og verð þá að byrja með því að færa honum þakkir mínar fyrir það, hvernig hann tók í málið. Hann fór inn á aðalkjarna málsins og beindi ýmsum athugasemdum til nefndarinnar, sem jeg lofa honum, að verði teknar til frekari athugunar fyrir 3. umr.

Í fljótu bragði virðist mjer jeg geta verið honum sammála um 5. gr. Það getur verið rjett að borga eitthvað dálítið af þeim ársarði, sem verða kann á rekstri brautarinnar á meðan ekki er byrjað á virkjun.

Þá spurði hann um viðvíkjandi 6. gr., við hvað væri miðað um sölu á raforku til almennings, hvort það væri gegnum orkuverið eða mæli. Mjer er náttúrlega ekki um það kunnugt, en tel hinsvegar víst, að það muni vera í gegnum mæli.

Hann taldi sanngjarnt, að Hafnarfjörður og Gullbringusýsla bæru einhvern hlut af kostnaði við brautarlagninguna, og má það vel vera. En jeg tel þó, að Reykjavík ætti fremur að borga þetta en sýslan, því hún hefir miklu meiri hagnað af brautinni.

Að sýslufjelögin, sem gott hafa af virkjuninni, greiði meira en ætlast er til í 8. gr., held jeg að varla megi vænta.

Sem sagt, þessar athugasemdir hv. 2. þm. Reykv. voru góðar, og það eina, sem hafst hefir upp úr þessum löngu umr. Þær voru allar um efni frv. og skulu athugaðar nánar af nefndinni fyrir 3. umr.

Að svo mæltu get jeg látið lokið máli mínu. Jeg held jeg hafi tekið fram það, sem svara þurfti frá sjónarmiði nefndarinnar, og mun ekki taka aftur til máls, nema jeg sje til neyddur, enda vænti jeg, að nú fari að líða að því, að gengið verði til atkvæða um frv.