18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Mjer finst þetta mál svo stórvægilegt, að það sje ekki óviðeigandi að fara eins langt í athugasemdum og umr. um það eins og þingsköp frekast leyfa.

Mjer finst líka, að margt hafi komið fram í ræðum hv. stuðningsmanna frv. síðan jeg talaði seinast, sem vert sje að undirstrika.

Hv. frsm. fann að því og sagði, að óviðeigandi væri og þreytandi að hlusta á þm. endurtaka ræður sínar. Hafi einhverjir hv. þm. neyðst til þessa, þá stafar það af því, hvernig aðrir hafa hagað máli sínu, og verður þá endurtekningin aðeins árjetting þess, sem þeir hafa sagt áður. En nú er því svo farið, að bæði hv. frsm. og aðrir dáendur frv. þessa hafa fundið það átakanlega, að jeg hefi ekki endurtekið ræðu mína við 1. umr. Það hefir stórum hneykslað þá, að jeg talaði um, hvernig mundi úr rætast, ef fyrirtækið kæmist á fót, og kölluðu þeir, að röksemdir stönguðust hjá mjer. Þeir eru býsna skilningssljóir, og þó vorkenni jeg sjerstaklega hv. 2. þm. Reykv. (MJ), sem tók þessa speki upp eftir hinum. Þetta er svo mikill barnaskapur, að hverjum þingmanni er ósæmandi. Röksemdir stangast ekki, þótt maður ræði mál frá tveim hliðum og leggi niður fyrir sjer, hvernig muni úr rætast, ef svona og svona fari. En þessi ummæli sýna það best, hvað þessir hv. þingmenn eru veilir, að þeir skuli þurfa að koma fram með slíkar endemis firrur og vitleysur í stað raka.

Mjer hefir þó tekist að koma þeim til að játa það, að ef úr framkvæmdum verður hjá Titan, þá muni það verða til þess að draga vinnuafl úr sveitunum. En þeir segja að vísu nú, að það sje gott og blessað, og hv. 1. þm. Árn. tók þeirri hugsun fegins hendi, að fólki fækkaði í sveitunum. Hv. 2. þm. Reykv. tók í líkan streng, og tók þó enn dýpra í árinni, því að hann sagði, að það væri aðallega fólksmergð, sem við þyrftum að óttast.

Í sambandi við önnur mál hefi jeg heyrt þessa og aðra hv. þdm. óttast mest flótta fólks úr sveitunum. En það er fyrirfram víst, að ef þessar framkvæmdir, sem hjer er gert ráð fyrir, komast á, þá verða þær til þess að auka stórkostlega burtstreymi frá sveitunum, og afleiðingin verður sú, að þangað fæst enginn vinnukraftur, og er þó nú þegar orðið svo lítið um hann, að sáran kvarta bændur.

Hæstv. atvrh. var með þetta sama og aðrir, að jeg hlyti að hafa trú á fyrirtækinu og framkvæmdum, úr því að jeg fór að minnast á, hvernig þær mundu ganga. Jæja, segjum það, að jeg trúi því, að úr framkvæmdum verði, en þá trúi jeg því líka, að þær verði þjóðinni ekki til góðs. Frá mínu sjónarmiði er það vitleysa að hleypa þessu inn, og ef sú vitleysa kemst á, þá verði ekki hindraðar aðrar og meiri vitleysur, sem sigla í kjölfar hennar. Jeg lít svo á, að stemma þurfi á að ósi, hindra vitleysuna í byrjun, svo að hún margfaldist ekki og uppfylli jörðina. Og það er skylda okkar, ef við álítum, að gera eigi einhverja vitleysu, að sporna við því. Hjer er nú verið að stofna til þess glapræðis, sem lagt getur landbúnaðinn í auðn og breytt þjóðinni úr landbúnaðarþjóð í verksmiðjulýð.

Hæstv. atvrh. sagði, að hjer væri ekkert að óttast; stærri og meiri væru virkjanir í öðrum löndum. En þá kemur líka annað til greina, og það er fólksmergðin í löndunum. Við verðum að gæta að því, að þótt ekki verði hjer virkjað meira en þessi 160 þús. hestöfl, þá er það, miðað við fólksfjölda, sama sem að virkjaðar væru 4 miljónir hestafla í Noregi. Og ef virkjað verður alt vatnsafl Þjórsár, eins og tilætlunin mun vera, þá samsvarar það því, að virkjaðar væru 25 miljónir hestafla í Noregi.

Nú vil jeg spyrja hæstv. atvrh.: Hafa svo stórar virkjanir verið gerðar í Noregi? Hann verður að athuga það, áður en hann kemur með svona staðhæfingar, að bera saman það, sem saman þarf að bera. Það hefði t. d. enga þýðingu í Bandaríkjunum, þótt virkjuð væru 160 þús. hestöfl, en það hefir stórkostlega þýðingu hjer, að jeg ekki tali um það, ef virkjuð verða þessi 1 miljón hestöfl, sem Þjórsá hefir. En við því má búast, að svo verði, ef þetta fyrirtæki gengur vel.

Það breytir engu hjer um, þótt ekki eigi að virkja nema nokkurn hluta af Urriðafossi fyrst í stað.

Hv. 2. þm. Reykv. hjelt hjer mjög fræðilegan fyrirlestur um það, hvort þetta fyrirtæki gæti komist á. Og hann sagði, að ef svo færi, þá gæti ríkissjóður náð aftur öllu framlagi sínu og meira með töxtum hjá járnbrautinni. Jeg býst nú ekki við því, að járnbrautin verði látin jeta upp allan gróðann af vatnavirkjuninni, enda þyrfti þá að kveða ríkara að orði um það efni heldur en gert er hjer í frv.

Sami hv. þm. sagði, að fyrir nokkrum árum hefði einn mætur maður skrifað grein um það, hvað fólki fjölgaði ískyggilega mikið og hvað það væri alvarlegt mál. En það er ekki reynsla landbúnaðarins, að fólki fjölgi of mikið. Hitt er aftur á móti reynslan, að í hvert skifti, sem eitthvað glæðist við sjávarsíðuna, þá flykkist fólkið úr sveitunum þangað. Og hvað mun verða, ef þessi stóriðja kemur?

Háttv. þm. óttaðist það þó ekki, að útlendingar flyttust hingað. Hann virtist þá ekki gera sjer grein fyrir því, að með því móti fjölgaði fólki í landinu. Hann talaði þar aðeins um það, að íslensku þjóðerni stafaði engin hætta af slíkum innflutningi, vegna þess, að þessir útlendingar mundu fljótt verða Íslendingar. En ef við lítum nú til annara landa, þar sem sterk fjárfjelög hafa smeygt inn litla fingrinum hjá smáþjóðum — já, hver verður reynslan þá? Hafa hinir útlendu innflytjendur orðið innlendir menn? Nei, víðast hvar hefir farið svo, að þessir útlendingar hafa myndað heild fyrir sig, og sú heild hefir dregið undir sig öll yfirráð í landinu. Þetta er sú reynsla, sem heimurinn hefir að sýna.

Þá viðurkendi þó hv. þm., að erlent fjármagn væri hættulegt, en þetta væri svo sem ekkert nýtt, engin ný hætta. Hættan væri yfir okkur hvort sem væri. Eftir þessu er rökrjett að draga þá ályktun af orðum hans, að úr því hættan sje yfir okkur, þá sje ekkert athugavert við það, þótt við steypum okkur í hvaða nýja hættu sem er.

Það, sem hneykslaði hv. þm. mest í minni ræðu, var, að jeg sagði, að þetta fyrirtæki gæti orðið til þess, að Suðurlandsundirlendið kæmist í auðn. Nei, það sagði hann, að ekki gæti komið til mála; þetta yrði til þess að lyfta hag þess. En það er nú leiðinleg staðreynd, að ekki fer alt eins og ætlað er. Og hitt getur líka fyrir komið, að þó maður ætli að gera einhverjum greiða, þá verði það Bjarnargreiði — afleiðingin þveröfug við það, sem til var ætlast.

Þá sagði sami hv. þm., að ef fyrirtækið reyndist ekki arðberandi og fjelagið yrði að hætta við það, þá væri svo sem ekki hundrað í hættunni. Við fengjum þá allar verklegar framkvæmdir þess fyrir sama sem ekki neitt. En er það svo mikið keppikefli að fá t. d. járnbrautina fyrir ekki neitt, ef. hún getur alls ekki borið sig? Jeg fæ ekki sjeð, að það sje neitt sjerstakt happ fyrir okkur. Og verði fyrirtækið gjaldþrota, þá hafa allir þeir, sem við það vinna og dregnir hafa verið frá landbúnaðinum, eigi við neitt að styðjast.

Hv. þm. sagði, að það væri gott að fá prófstein á það, hvort fjelaginu væri alvara með að hefja framkvæmdir, og meinti þar með, að hann væri ekki á móti því, að fjelagið setti einhverja tryggingu fyrir því, að úr framkvæmdum yrði. Jeg skal þá hjer með lofa því að koma fram með brtt. um þetta efni við 3. umr., og hún skal verða prófsteinn á það, hvað hv. þm. er mikil alvara. Við fáum þá að sjá, hvernig hann tekur í það.

Ef útlendingar hætta að starfrækja járnbrautina hjer, myndu eignir þeirra verða seldar við opinbert uppboð, og er þá engin trygging fyrir því, að ríkið geti eignast þær fyrir lítið. Jeg veit ekki betur en að útlendingar geti yfirleitt fengið fult verð fyrir eignir sínar hjer.