23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Það hefir verið talað svo mikið um þetta mál frá almennu sjónarmiði við 1. og 2. umr., að jeg tel ekki þörf á endurtekningum í því efni og mun ekki fara frekar út í það á þeim grundvelli, nema sjerstakar ástæður gefist til. Jeg mun láta mjer nægja að tala um þær brtt., sem fram eru komnar.

Það er þá fyrst brtt. frá samgmn. á þskj. 227. Jeg gat þess við 2. umr., að það væri meining nefndarinnar að leyfa alt, öll mannvirki, miðlun, uppistöður, í stuttu máli allar framkvæmdir nær og fjær, sem nauðsynlegt yrði að telja til þess að hægt væri að virkja Urriðafoss, en ekki meira. Jeg vona, að þetta komi nægilega skýrt fram í brtt., og þannig á hún að skiljast, og leyfi mjer að leggja til fyrir hönd nefndarinnar, að hún verði samþykt.

Þá skal jeg minnast á brtt. á þskj. 221, frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM). Þær hafa legið fyrir nefndinni og jeg sje ekki ástæðu til að bíða með að tala um þær þar til hv. flm. hefir gert grein fyrir þeim, enda er hann búinn að því áður að nokkru leyti.

Jeg skal geta þess strax í upphafi, að svo framarlega sem nefndin hefði getað gengið út frá því, að hv. 1. þm. Reykv. vildi leggja áherslu á að gera frv. sem best úr garði og samþykki? það svo á eftir, hefði sennilega tekist samvinna með nefndinni og honum. En ummæli hans benda á, að hann sje málinu ekki velviljaður og muni ekki greiða atkvæði með því, þó að brtt. hans yrðu samþyktar.

1. brtt. fer fram á, að 3. gr. frv. falli niður. Jeg tók fram við 2. umr., að þetta væri ekki hægt. Það er engin ástæða til að banna framsal hjer, fremur en við sjerleyfi Dynjandi.

Þá er brtt. við 7. gr., um að járnbrautin skuli bygð úr nýju, völdu efni. Þetta er að sjálfsögðu tilætlunin og mundi hafa verið tekið fram í sjerleyfinu. Nefndin er því sammála um, að þessa brtt. skuli samþykkja. Alveg sama máli er að gegna um 3. brtt. 1. lið, að ráðherra skuli ákveða flutningsgjöldin o. s. frv. Þetta hefir auðvitað altaf verið meiningin og öðruvísi verður þetta ákvæði í 7. gr. ekki skilið. En nefndinni fanst ekkert á móti því, að það sje svo greinilega tekið fram í lögunum, að enginn ágreiningur geti orðið um skilning þessara orða. Gagnvart 2. lið 3. brtt. hefir nefndin ekki tekið endanlega afstöðu og hefir þar óbundnar hendur. Jeg held jeg megi samt fullyrða, að meiri hluti hennar eða jafnvel öll nefndin muni samþykkja þessa brtt. Það mun vera heppilegra að ýmsu leyti að miða við matsverð. Ef miðað er við krónutölu þegar framlagið er greitt og krónan hækkar í verði síðar, getur svo vel farið, að ríkissjóður verði að borga talsvert hærri upphæð en ella. Nefndinni þykir því fult eins rjett að miða við matsverð.

Þá er 3. liður 3. brtt. Þar er svo til stofnað, að ef ráðherra er andvígur fyrirtækinu, þarf hann ekki annað en vekja einhvern ágreining milli sín og fjelagsins, til þess að járnbrautin falli endurgjaldslaust til ríkisins. Það kemur auðvitað ekki til nokkurra mála að fá öðrum aðilja svo mikið vald í hendur. Nei, allur ágreiningur verður að útkljást af sjerleyfisdómi. Það hlýtur hv. þm. (JakM) að sjá við nánari athugun. Fjelagið yrði alveg rjettlaust gagnvart ráðherra, ef hann vildi beita sjer gegn fyrirtækinu.

Þá er 4. brtt. Hún er algerlega óþörf, þar sem nefndin hefir áður sett fjelaginu svo mikið aðhald, að ekki var ástæða til að bæta við. En samkv. brtt. falla ekki aðeins unnin mannvirki í eigu ríkisins, ef sjerleyfið fellur úr gildi, heldur allar fasteignir fjelagsins og vatnsrjettindi. Hjer er farið fram á svo mikið ranglæti, að ekki kemur til mála að samþykkja það. Jeg skal aðeins benda á, að fjelagið átti einu sinni húsið Hjeðinshöfða og ætlaði að nota það fyrir bústað handa norsku forstjórunum á sumrin. Þetta hús ætti þá líka að falla endurgjaldslaust til ríkissjóðs. Að mínu áliti er farið hjer fram á svo mikla ósanngirni, að óþarft er að eyða orðum um slíkt, enda mun þetta varla vera borið fram í alvarlegum tilgangi.

Þá er brtt. á þskj. 222, frá hv. þm. Str. (TrÞ), um að bæta við nýrri grein, þar sem sjerleyfishafi sje skyldaður til að láta af hendi vist „kvantum“ af köfnunarefnisáburði. Nefndin hefir ekkert við þetta að athuga, og því síður er ástæða til að amast við þessu ákvæði, þar sem fjelagið í umsókn sinni hefir tjáð sig reiðubúið til að láta af hendi til ríkisstjórnarinnar vist magn af áburði, að því tilskildu, að ekki sje krafist svo mikils í einu, að ilt sje að sinna henni, nje varan seld í hendur kaupmönnum eða notuð sem hráefni. Þetta ber að taka fram í sjerleyfinu. En að því er verðið snertir er jeg ekki viss um, að rjett sje að miða við stórsölu frá Noregi. Jeg áliti rjettara að miða verðið við framleiðslukostnað hjer, að viðbættri einhverri álagningu, 5–10% eða svo. Jeg hygg, að það mundi ekki mæta mótspyrnu. Jeg vildi óska, ef umr. um málið verður ekki lokið í dag, að hv. flm. (TrÞ) íhugaði, hvort hann gæti ekki tekið þessa aths. mína til greina.

Loks hefir komið brtt. á þskj. 232 frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Henni var útbýtt hjer í dag, og hefir nefndin ekki getað tekið afstöðu til hennar. Um aðalbrtt., að fasteignir og mannvirki falli endurgjaldslaust til ríkissjóðs, ef sjerleyfið fellur úr gildi, er hið sama að segja og um brtt. hv. 1. þm. Reykv., að þetta er mjög ósanngjörn krafa. Um varatillöguna get jeg ekkert sagt að svo stöddu. En jeg geri ráð fyrir, að hæstv. atvrh. geti gefið upplýsingar um, hvort fjelagið muni ganga að þessum kostum, því að hann hefir rætt málið við stjórnendur fjelagsins og komist í ýmsum atriðum lengra en jeg hafði búist við.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Málið er stórt og merkilegt, enda hafa fá mál verið meira rædd hjer en þetta.