25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Mjer finst brtt. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) óþörf, ef mín brtt. er samþ. um viðurlög við þvi, ef ekki sje byrjað á virkjun Urriðafoss og járnbrautinni fyrir ákveðinn tíma, að þá falli sjerleyfið niður. Það getur þó að vísu verið, að ekki sje hægt að gera eignarnám hjá fjelaginu fyr en 1934. Þó finst mjer, að ef fjelagið stendur ekki við skuldbindingar sínar um framkvæmdir, þá skifti þetta ekki svo miklu máli.

Hæstv. atvrh. vildi ekki fallast á 1. brtt. mína, um að fella niður 3. gr. frv. En hann fór ekkert inn á það að mótmæla þeim rökum, sem jeg færði fram fyrir þeirri brtt. Samkvæmt sjerleyfislögum á að setja frekari takmarkanir, þegar um svona stór fyrirtæki er að ræða, heldur en t. d. um Dynjanda. Það er þó ekki rjett, að jeg hafi verið með sjerleyfi Dynjanda. Jeg vil yfirleitt, að ströng ákvæði sjeu sett fyrir slíkum sjerleyfum, og þar sem mjer þóttu ákvæðin um virkjun Dynjanda ekki nógu ströng, þá greiddi jeg líka atkv. á móti því, að það fjelag fengi framsalsrjett án samþykkis Alþingis. Jeg hefi ekki athugað, hvort þetta sjest í þingtíðindum við nafnakall. (KIJ: Jú). Jæja, hv. frsm. segir, að svo sje, og vona jeg, áð hæstv. atvrh. taki það gilt.

Hæstv. atvrh. sagði, að það væri ekki nema eðlilegt, að sjerleyfi væru framseld. Sjerleyfislögin ætlast þó til þess, að til þess þurfi sjerstakt samþykki þings, þegar um stórvirkjanir er að ræða. Það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að Alþingi hafi ráð á því, í hvaða hendur sjerleyfi komast, og yfir því á þingið að hafa fult vald.

Í sambandi við þetta sagði háttv. frsm., að hjer væri ekki um að ræða virkjun í stærri stíl en virkjun Dynjanda. Svo! Hjer er þó að ræða um helmingi meiri vatnsorku í byrjun, og samkvæmt sjerleyfislögunum er gerður munur á slíkum virkjunum. En þótt ekki væri um að ræða í byrjun meira en virkjun á 1/3 af afli Urriðafoss, þá verða menn að gæta þess, að ef sjerleyfið er framselt, þá verða framseld öll rjettindi fjelagsins til vatnsafls í Þjórsá. Þá mundi viðtakandi ganga inn í allan rjett Titan-fjelagsins yfir vatnsafli í Þjórsá og þeim ám, sem í hana renna. Verður Alþingi því að gera stóran mun á framsali vatnsvirkjunarsjerleyfis í Þjórsá og Dynjanda.

Viðvíkjandi 3. brtt. minni, við tölulið III, þá verð jeg að segja, að veigalitlar mótbárur hafa komið fram gegn henni. Hæstv. atvrh. heldur, að sá ágreiningur, sem þar getur um, geti fallið undir sjerleyfisdóm. Hjer væri um svo þarfar samgöngubætur að ræða fyrir alla þjóðina, að ekki mætti fæla sjerleyfisumsækjanda frá með óbilgirni. En það vita nú allir, að járnbrautin er aukaatriði í þessu máli. Fjelagið sækir ekki um sjerleyfið til þess að fá að leggja hana, heldur felst það á að leggja járnbraut til þess að geta fengið virkjunarsjerleyfið. Og það á lítið í hættunni að þessu leyti, því að ef virkjunin kemst á, þá verður járnbrautin minstur hluti alls rekstrarins. Hinsvegar hygg jeg, að ágreiningur út af rekstri járnbrautarinnar geti ekki fallið undir sjerleyfisdóm samkvæmt lögunum um sjerleyfi til vatnsvirkjunar, nema þá, að um það sje sett sjerstakt ákvæði í sjerleyfið.

Jeg býst ekki við því, þótt brtt. mín yrði samþykt, að gera þurfi ráð fyrir ósanngirni af stjórnarinnar hálfu í viðskiftum við sjerleyfishafa, því að mjer þykir ólíklegt, að við fáum nokkurn tíma þá stjórn, sem virðir eignarrjettinn einskis, enda mundi hún þá finna aðrar leiðir til þess að fjefletta sjerleyfishafa. En í einu atriði á að ofurselja sjerleyfishafa, þar sem svo er fyrir mælt, að ráðherra skuli ákveða öll flutningsgjöld með járnbrautinni. Ef stjórnin vill gera fjelaginu ókleift að reka brautina, þá getur hún það með því að ákveða flutningsgjöldin svo lág. Meiri „óbilgirni“ þyrfti sjerleyfishafi ekki að óttast, þó að þessi breyting yrði samþykt. Og jeg skil ekki annað en að sjerleyfishafi geti gengið að því, ef honum er alvara á annað borð, enda byrjar hann aldrei á járnbrautinni, nema hann þykist hafa vissu um það, að aðalfyrirtækið borgi sig. Og mjer skilst, að háttv. frsm. sje mjer alveg sammála um þetta.

Hæstv. ráðherra (MG) var hissa á því, að jeg skyldi halda því fram, að sanngjarnt væri, að landið hefði öll ráð um járnbrautina, en sjerleyfishafi sviftur þeim. Mjer þykir leitt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera svona kröfuharður fyrir landsins hönd. Samgöngurnar eru vitanlega fyrst og fremst fyrir landsmenn sjálfa, en ekki útlenda sjerleyfishafa.

Þótt hæstv. ráðh. vilji, að því er virðist, halda því fram, að það hafi verið skylda sín við samningana að gæta hagsmuna umsækjanda ekki síður en landsins (Atvrh. MG: Það sagði jeg ekki.), þá finst mjer skylda hans hafa verið að líta einhliða á hagsmuni landsins. Ja — eitthvað í þá átt sagði hæstv. ráðh., taka fult tillit til þeirra.

Hæstv. ráðherra spurði, hvernig það mundi verða skilið í brtt. á þskj. 221 III,3, ef sjerleyfishafi hætti að reka fyrirtækið án samþykkis ráðherra. Það er hugsanlegt, að hætt verði við fyrirtækið og ríkið taki reksturinn í sínar hendur, en ráðherra sje því mótfallinn. Jeg býst við, að hæstv. ráðh. geti játað með glöðu geði, að „júristinn“ hafi komist nokkuð ofarlega í honum í þessu tilfelli. En vitanlega er hitt óhugsandi, að ríkið taki að sjer járnbraut án vilja ráðherra, því að þingræðisráðherra skulum við gera ráð fyrir hann verði og ekki á móti því, sem meiri hluti þings samþykkir.

Hæstv. ráðherra taldi það ósamkvæmni hjá mjer, að bæði nefndi jeg þetta skaðræðismál og vildi þó tryggja framkvæmdir. Jeg hefi oft lýst því yfir, að jeg geri ekki síður ráð fyrir, að ekkert verði úr þessu. Þá er augljóst, að nota ber tækifærið til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu framvegis.

Það er viðurkent, að ástæða sje til og sanngjarnt að heimta trygging af umsækjanda. Veð í öllum eignum fyrirtækisins hjer á landi er tryggara en bein fjárupphæð, og eins hentugra fyrir umsækjanda sjálfan. Jeg skal fúslega játa, að jeg fer ekki fram á þetta veð eða tryggingu af því að mjer sje svo sjerstaklega ant um, að virkjun Urriðafoss komist í framkvæmd í höndum útlendinga, heldur þvert á móti. Jeg get þar fyrir lagt til, að gerðar sjeu ráðstafanir til þess að sjá borgið hagsmunum landsins, sem rjett er, ef málið nær fram að ganga.

Hv. 1. þm. S.-M., hv. frsm. og hv. 1. þm. Árn. hafa talað um skyldu sjerleyfishafa til að vinna tilbúinn áburð. Ekki er sú skylda til samkvæmt frv. Mjer er óskiljanlegt, hvernig þeir fara að leggja þá merking inn í 5. lið 1. gr., sem hljóðar svo með tilheyrandi formála: „Atvinnumálaráðherra skal vera heimilt að veita hlutafjelaginu Titan sjerleyfi til að reisa iðjuver til saltpjetursvinslu og annarar iðju til hagnýtingar raforkunni“. — Þetta er ekkert annað en heimild fyrir ráðherra til að veita fjelaginu rjett til reisa iðjuver í þessu skyni. Þar er líka fleira tekið fram: „— og annarar iðju“. Þannig getur það tekið fyrir hvað sem það vill annað en saltpjetursvinslu, án þess það verði átalið. (MT: En sjerleyfið?). Það er hægt að setja skuldbindingar í sjerleyfið, e ; það er á engan hátt trygt með þessu frv. Hvaða líkur eru þá fyrir því, að sjerleyfishafi leggi þennan iðnað fyrir sig? Litlar. Það er ólíklegt, og enginn háttv. þm. hefir leitt rök að því, að það borgi sig að framleiða áburð og flytja svo langan veg á markað. Fjelög erlendis hljóta að standa mun betur að vígi í samkepninni, bæði sökum nálægðar við markað og eins hins, að þau hafa bygt ódýrari stöðvar en hjer. Stofnkostnaður hjer úti á Íslandi hlýtur altaf að verða miklu meiri vegna vegalengdarinnar.

Jeg get ekki fullyrt, að það sje óhugsandi, að finnist verkefni til þess að hagnýta raforku Þjórsár. En jeg þori nærri að fullyrða, að þessi leið er ekki fær. Bollaleggingar hv. 1. þm. Árn. um landbúnaðinn og áburðinn falla um sjálfar sig, er maður sleppir þessum möguleika. Enda er það óhætt. Til þess að uppfylla hann er engin skylda og litlar líkur. (MT: Atvrh. er skyldur til að taka fram í sjerleyfinu skyldur leyfishafa). Ekki úr því hv. deild hefir ekki sett í frv., að það sje skylt. Var það þó hægt, ef gert hefði verið.

Jeg tel mjer ekki skylt að svara þeirri fjarstæðu hjá hv. 1. þm. Árn., að andmælum gegn frv. sje hjer haldið uppi af forsprökkum stórútgerðarmanna. Jeg hefi ekki orðið var við neina mótstöðu af hálfu þeirra. Jeg býst ekki við, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) verði talinn til þeirra, eða hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), er borið hefir fram einna ákveðnust andmæli.

En hinsvegar vill svo til, að einn af fulltrúum stórútgerðarmanna, hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), er í nefnd þeirri, sem leggur svo eindregið til, að frv. þetta verði samþykt.

Það var því í meira lagi óheppilegt hjá hv. þm. að fara að blanda útgerðarmönnum inn í þetta.

Þá var háttv. 1. þm. Árn. á hálum brautum, er hann fór að tala um till., sem kom fram fyrir 10 árum, um að kaupa fossa landsins fyrir 2 miljónir króna. (JörB: Tuttugu). Sagði hann það? Jæja; það má nú einu gilda. Þessi tillaga var borin fram af einum ákveðnasta sjálfstæðismanni á þingi þá. En jeg get fullvissað hvern sem er um það, að sá maður gerði það ekki í því skyni, að fá ætti fossana í hendur útlendingum, heldur til þess að ná þeim úr höndum útlendinga. Ekki til þess að láta fossana halda áfram að renna óbeislaða til sjávar, heldur til þess að tryggja fyrst og fremst landsmönnum sjálfum not þeirra, er til kæmi. Hjer er verið að ráðgera að tryggja útlendingum rjett og not af fossum landsins.

Háttv. frsm. vildi halda því fram, að tryggingartill. væri óþörf, ef till. hæstv. atvrh. væri samþ. Jeg er sammála hv. 1. þm. S.-M., að sú till. er síst til bóta. Það er fjarri lagi, að mínar till. sjeu óþarfar fyrir því, Þær fara fram á alt annað og ganga mun lengra. Í till. hæstv. atvrh. felst ekki annað en það, að sjerleyfið falli úr gildi 1. maí 1929, ef ekki verði byrjað á járnbrautinni þá. Þá er að sjálfsögðu óþarft að taka það fram, að öll mannvirki verði ríkiseign. Því að þau verða ekki reist nema skriður komist á málið og járnbrautin bygð fyrst.

Hjer við bætist, að ekki er upplýst, að þær tryggingarkröfur, er við hv. 4. þm. Reykv. förum fram á í till. okkar, geri það að verkum, að fjelagið sjái sjer ekki fært að leggja út í fyrirtækið. — Hv. frsm. kvaðst hafa reynt að kynna sjer, hvernig stjórn fjelagsins mundi taka í þær. Eftir fregnum að dæma, fyndist stjórninni óeðlilegt, að þessar kröfur væru gerðar nú frekar en í fyrra um Dynjandisjerleyfið. Af þessu verður ekki annað ráðið en það, að þótt þessar kröfur verði settar í frv. og það gert að lögum með þeim, muni fjelagið ganga að þeim. Jeg skil ekki annað en manni sje heimilt að álíta svo, ef hv. frsm. hefir ekki fengið aðrar upplýsingar en þessar.

Jeg sje ekki betur en að slík meðferð máls sem hjer er um að ræða bendi til þess, að alt of langt sje gengið og að því stefnt fyrst og fremst að sjá hagsmunum sjerleyfishafa borgið, en ekki lands og þjóðar.