25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg fæ ekki sjeð, að það sje rjett hjá hv. 1. þm. Reykv., að till. hans sje viðurlög við því, að járnbrautin verði ekki bygð. í brtt. við 10. gr. er hvergi tekið fram, að járnbrautin heyri undir þau mannvirki, er lúta að virkjun Urriðafoss. Það, sem talað er um járnbraut annarsstaðar í brtt. hv. þm., er það, að ráðherra úrskurði um rekstur hennar, ef ágreiningur verður, og eins, ef hætt er að reka hana, en ekkert stendur þar, hvað gera skuli í því tilfelli, að ekki verði byrjað á járnbrautinni. Hinsvegar taka mínar brtt. líka tillit til járnbrautarinnar. Þó að virkjunin sje miklu umfangsmeiri en járnbrautin, þá er það víst, að meiri hluti fylgismanna frv. gengur inn á málið einmitt vegna járnbrautarinnar.

Hæstv. atvrh. sagði lengra gengið með brtt. sínum en annara. Þótt jeg viðurkenni, að sjerleyfið geti fallið niður fyr en ráð er fyrir gert, eða eftir till. hæstv. ráðh. milli 1929 og '31, ]já eru það engin viðurlög við því, að ekki verði byrjað áður á verkinu. Brottfall sjerleyfisins er ekkert tap fyrir fjelagið, af því að sjerleyfið hefir ekki kostað það neitt. Eini sporinn, sem dugir, er það, að fjelagið eigi eitthvað á hættu, ef það byrjar ekki á verkinu fyrir 1. maí 1929. Veðið fjelli þá til ríkissjóðs sem skaðabætur fyrir landið vegna biðarinnar. Það er sanngjarnt, því að landið gæti reynt að koma upp járnbraut á annan hátt á þessu biðtímabili.

Það er ekki rjett, að jeg líti á málið einhliða frá sjónarmiði Reykjavíkur. Verður þó að taka mikið tillit til Reykjavíkur, þar sem hún verður endastöð og þar býr helmingur þess mannfjölda, er kemur til með að hafa brautarinnar not. Það er því enginn landshluti, sem þetta varðar eins og Reykjavík. Jeg álít það nokkurs um vert fyrir Reykjavík, ef járnbrautin fæst með þessum kjörum, en ódýrara rafmagn, sem hún á í vændum, tel jeg lítils virði, ef ekki á að hefja virkjunina fyr en 1934 og hún stendur síðan yfir ótakmarkaðan tíma, minst 3 ár. Þá er rafmagnið komið hingað eftir 10 ár í fyrsta lagi. En Reykjavík getur ekki undir neinum kringumstæðum beðið eftir rafmagni þangað til 1937.

Um virkjun Sogsins skal jeg geta þess, að enda þótt jeg álíti, að Reykjavík gæti ráðist í hana, finst mjer eðlilegra, að ríkið og hjeruðin í kring, Gullbringu- og Kjósarsýsla og Árnessýsla, yrðu með um virkjunina og ábyrgð ríkissjóðs stæði á bak við, ef ríkið ætti ekki sinn hluta í þessu fyrirtæki.

Að ekki sje sagt út í loftið, að það fyrirtæki muni renta sig, vil jeg benda á því til árjettingar, að rafmagnsveitan hjer í Reykjavík skilar 800000 kr. tekjum árlega. Og til þess að renta fyrirtækið þarf 500000 kr. að auki. Eftir varlegri áætlun, sem bygð er á norskri reynslu, kæmu þær tekjur inn, er 30000 íbúar væru á notasvæðinu. En innan skamms munu Reykjavík og Hafnarfjörður til samans hafa náð þeirri íbúatölu, og íslensk reynsla sýnir meiri tekjur af rafveitum en norsk.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði vinsamlega um brtt. mínar, en kvaðst ekki geta greitt atkvæði með þeim, því að þær væru óframkvæmanlegar. En eftir þeim upplýsingum, sem hv. 1. þm. Rang. (KIJ) kom með, eru þær vel framkvæmanlegar. Hann kvað ekki þau veð í eignum fjelagsins, að ekki væri hægt að losa þau fyrir öðrum. Svör Titans við fyrirspurn um þetta væru á þá leið, að því þætti óviðkunnanlegt að vera að heimta trygging nú, þar sem það var ekki gert um samskonar fyrirtæki í fyrra. Þótt jeg afsaki ekki þá tillátssemi, var þó nokkru öðru máli að gegna þá. Þar vestra þurfti ekki að búast við, að annað fossafjelag kæmi. En hjer á Suðurlandi má búast við fleirum, og er því varhugaverðara að láta einkaleyfi af hendi hjer syðra.

Mjer finst það einkennilegt af hv. frsm. og hæstv. ráðh., að þegar komið er með einhver skilyrði til þess að tryggja betur hag þjóðarinnar, þá eru þeir altaf reiðubúnir til þess að taka málstað fjelagsins. Jeg verð að álíta það benda í þá átt, að fjelagið hafi litla möguleika til þess að koma verkinu í framkvæmd, því ef það væri visst um að koma því í framkvæmd, gæti ekki komið til mála, að það misti fje eða eignir vegna slíkra skilyrða. En einstakt tákn í öllu þessu máli er, að maður úr stjórn Titans er látinn vera framsögumaður háttv. fjárhagsnefndar um málið.