26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2663 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla ekki að halda hjer langa ræðu, heldur vildi jeg aðeins beina fyrirspurn til hæstv. ráðh. (MG), viðvíkjandi láni því, sem heimilað er að taka samkvæmt 8. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram alt að tveim milj. til járnbrautarlagningar og stjórninni heimilað að taka lán til þess að nokkru eða öllu leyti. Nú hefi jeg gert ráð fyrir því, að þessi heimild væri bundin því skilyrði, að víst væri, að verkið kæmist til fullra framkvæmda, svo að fjelagið fengi ekki þetta tillag úr ríkissjóði greitt fyr en verkið væri komið nokkuð áleiðis. Hjer í landi eimir enn furðumikið eftir af oftrú á járnbrautir. Mætti því fara svo, ef atvinnuleysi yrði um skeið á næstu árum, að hart yrði gengið að stjórnarvöldum að bæta úr því á þann hátt að byrja á járnbrautarlagning og verja til þess því fje, er ráð væri fyrir gert að leggja fram af hálfu ríkissjóðs, án þess fengin væri nokkur vissa um framkvæmdir Titans, og landið þannig bundið við framhald verksins á eigin spýtur. Um þessi atriði vildi jeg heyra skýr svör frá hæstv. atvrh., hvenær hann telur, að lántökuheimildin megi koma til framkvæmdar og ríkissjóður greiða fje til járnbrautarlagningar.