26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Það lítur út fyrir, að þær löngu umræður, sem orðið hafa um þetta mál, ætli nú loks að taka enda. Jeg get tekið undir það með hv. þm. Dal. (JG), að það sje eðlilegt, að umr. hafi orðið langar, þar sem um svo þýðingarmikið mál er að ræða, en jeg geri nú samt ráð fyrir, að það megi fullyrða, að þýðingarlaust sje að halda þeim áfram úr þessu. Jeg býst við, að allir sjeu ráðnir í, hvernig þeir ætla að greiða atkvæði.

Jeg ætla ekki að fara út í einstök atriði, sem komið hafa fram síðan jeg talaði síðast. Aðeins vildi jeg óska þess, að málið fái nú framgang í dag og að allir, sem vilja fá prófstein fyrir því, hvort hægt sje að virkja fossana okkar, greiði atkvæði með frv. Hinir, sem komið hafa fram með brtt., ekki af umhyggju fyrir málinu, heldur setja fram harðar kröfur til að eyðileggja það, þeir greiða auðvitað atkvæði á móti því.

Þó ætla jeg með örfáum orðum að minnast á brtt. hv. þm. Str. (TrÞ). Hann álítur, að ekki sje hægt að sanna, hver framleiðslukostnaðurinn yrði. Því er hæstv. atvrh. búinn að svara.

Hv. þm. sagði, að útlendingarnir kæmu hingað í þeim tilgangi einum að græða fje. Svo er um alla, sem stofna hlutafjelag eða leggja út í eitthvert fyrirtæki. Þeir byrja ekki á því til þess að ausa út fje sínu, heldur af því að þeir vilja hafa eitthvað upp úr því. Það á líka við um þessa menn. Auðvitað koma þeir ekki með neinar gjafir.

Jeg verð að segja, að sá mæti maður, sem nú er kominn undir græna torfu og hv. þm. Str. vitnaði í, hafði engan sóma af því máli. Hann var þá ekki þingmaður, heldur kom hann fram fyrir hönd stjórnarinnar. Jeg veit, að allir viðurkenna nú, 26 árum síðar, að það var ekki þakkarvert, sem hann var þá að vinna, að reyna af öllum mætti að eyðileggja stofnun nýs banka, þegar Landsbankinn stóð galtómur og gat engum rjett hjálparhönd.

Annars stappar það nærri, að hv. þm. Str. mæltist til þess að fá gjafir, þar sem hann fer fram á mjög mikinn afslátt á áburðarefni.

Jeg hefi ekki ástæðu til þess að vera að lengja umræðurnar. Það verður hver að ráða það við sjálfan sig, hvernig hann greiðir atkvæði. En jeg vil taka það fram, að það er mín spá, að það verði happaspor fyrir okkar þjóð, sem stigið verður í dag, ef þetta frv. verður samþykt.

Jeg vil benda hæstv. forseta á, að í nál. á þskj. 138 er engin brtt.brtt. var tekin aftur, en liggur nú fyrir á þskj. 227.