26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2669 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, sjerstaklega út af síðustu ummælum hv. frsm. Úr því jeg stóð upp, ætla jeg þá um leið að víkja að einstökum atriðum, sem komið hafa fram af annara hálfu.

Hæstv. atvrh. sagði, að það mætti búast við, að lengi mætti bíða eftir virkjun fossanna, ef farið yrði eftir minni tillögu. Jeg vil benda hæstv. atvrh. á það, að jeg álít ekki aðalatriðið að virkja fossana. Aðalatriðið er að virkja þá þannig, að þeir verði okkur til gagns, en ekki til ógagns. Jeg vil því heldur bíða en ana út í þá óvissu, sem jeg tel, að hjer sje um að ræða.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að fólkið heimtaði aukin þægindi. Þetta er hárrjett, og ef jeg væri viss um, að virkjunin hefði í för með sjer aukin þægindi og betra líf, mundi jeg greiða atkvæði með henni. En þegar eins má gera ráð fyrir, að hún leggi okkar þjóð í læðing útlends auðmagns, þá hika jeg ekki við að greiða atkvæði á móti henni.

Hv. þm. sagði, að útlend fyrirtæki, sem rekin hefðu verið hjer á landi, hefðu öll orðið innlend. Þau hafa sum orðið það. En áður voru þau búin að rista breiðar lengjur úr hrygg okkar Íslendinga. Auk þess hefir það aldrei verið gert áður að hleypa inn í landið eins miklu fjármagni og þessu. Það getur farið fyrir okkur gagnvart þessum útlendingum eins og Einar þambarskelfir sagði forðum við Noregs konung um Svein Úlfsson, að þeir verði okkur ofjarlar.

Það, sem aðallega kom mjer til þess að gera þessa athugasemd, voru þau ummæli hv. frsm. og hv. 1. þm. S.-M., að jeg væri líkur beiningamanni, sem vildi fá gjafir af þessum útlendingum með brtt. minni um áburðinn. Jeg verð að segja, að jeg lít öðruvísi á það mál. Eins og nú standa sakir, er það útlenda fjelagið, sem er beiningamaðurinn. Það kemur hingað og biður okkur um stórkostleg fríðindi. Við getum enn sett því stólinn fyrir dyrnar, en ef við ekki gerum það, getur svo farið, að við verðum beiningamennirnir, — og hamingjan hjálpi okkur þá.

Hv. frsm. sagði, að Magnús Stephensen hefði engan sóma haft af aðstöðu sinni í bankamálinu forðum. Þessu vil jeg eindregið mótmæla. Jeg er viss um, að sá góði maður, Magnús Stephensen, hefir aldrei gert okkar landi eins mikið gagn og hann gerði þá. Þá var um að ræða þessa óheyrilegu ásælni útlendinga og þeir gerðu sig svo digra að heimta, að Landsbankinn yrði lagður niður. Þeir heimtuðu ekki einungis seðlaútgáfurjettinn, heldur vildu þeir taka öll okkar bankamál í sínar hendur. Jeg álít, að Magnús Stephensen hafi haft af þessu máli hinn mesta sóma, og því á mynd hans að standa hjer í deildarsalnum, til þess að minna okkur á það góða fordæmi, sem hann gaf okkur þá.