30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) hefir lýst yfir því, að hann telji þetta mál merkilegt framfaramál, sem hann sje í rauninni mjög hlyntur, nefnilega járnbrautarmálið. Mjer þykir náttúrlega vænt um að heyra þetta, en jeg verð því miður að viðurkenna það, að sú ræða, sem hv. þm. hjelt, er ekki alveg í sama anda; mjer fanst andinn í ræðu hv. þm. vera sá, að hann vildi ekki mikið í sölurnar leggja fyrir málið. Skal jeg koma að því síðar, en að öðru leyti taka þau atriði úr hans ræðu, sem jeg vil svara, í þeirri röð, sem hv. þm. sagði þau.

Hv. þm. mintist á það frv., sem hjer lá fyrir þinginu í fyrra, og kvaðst vilja það helst, að ríkið væri sá, sem legði járnbrautina og hefði að öllu leyti járnbrautarfyrirtækið á hendi. Það vissi jeg áður, því að það er í samræmi við stefnu hv. þm., og ekki í rauninni í neinu ósamræmi við stefnu Íhaldsflokksins, en jeg vil benda á það, sem hv. þm. hlýtur að hafa vitað, að þetta frv. hafði ekki nægilegt fylgi til þess að komast í gegn í fyrra, Það er að sönnu svo, að það fór aldrei fram úrslitaatkvæðagreiðsla um það, svo að hægt sje að sanna það opinberlega, en allir, sem hjer voru á þingi, vita, að þetta er rjett, og hv. 5. landsk. veit, að það var þess vegna ekki til neins að fitja upp á sömu fit, það gat fyrst komið til mála eftir nýjar kosningar. Þetta er háttv. 5. landsk. vel kunnugt um, og þykist jeg viss um, að hann muni viðurkenna það. Það er þess vegna ekki rjett af hv. þm. að ámæla stjórninni fyrir það, þótt hún ekki herti meira á frv. í fyrra heldur en hún gerði, því að hún gat ekkert unnið á við það, og þessu máli var ekkert betur borgið fyrir það. Hv. þm. sagði, að í fyrra hefði verið álitið, að ríkissjóður hefði getað lagt svo mikið fje fram, að lítið eða ekkert lán hefði þurft að taka. Þetta er bygt á misskilningi, og það hefir sýnt sig, að þó að vel væri um fje í ríkissjóði í fyrra, og sem reyndar er enn, þá er það þó ekkert svipað því, að hægt sje að leggja fram það stórfje, sem þarf til járnbrautarinnar austur að Ölfusá.

Hv. þm. kvaðst ekki að svo stöddu vilja taka afstöðu til þessa máls, og veit jeg ekki hvaða atriði það eru, sem valda því, að hann ekki vill það, en jeg skal gera mig fyllilega ánægðan með það að vona, að hv. þm. neyti atkvæðis síns til þess að þetta frv. fái athugun í nefnd.

Þá mintist hv. þm. á sjerleyfi þau, sem hjer hafa verið gefin, alllangt aftur í tímann, og sagði, að ekkert gagn hefði orðið að þeim, þau hefðu aðeins verið notuð í „svindilbrask“, eins og hv. þm. komst að orði, og að það væri ilt fyrir okkur. Jeg veit nú ekki til þess, að sjerleyfisheimildir hafi verið misbrúkaðar, og jeg þekki alls ekki til, að svindlað hafi verið með þær úti um lönd, og það hafa ekki verið gefin út sjerleyfi samkvæmt neinum þessara laga, og að því er snertir sjerleyfislögin um Dynjanda frá í fyrra, þá veit jeg ekki betur en að það fyrirtæki sje í fullum undirbúningi. En það er eins og sumir hv. þm. haldi, að ef aðeins er búið að samþykkja sjerleyfislög hjer á þingi, þá hljóti það að standa svo opið fyrir að fá peningana; en það er alls ekki. Það er erfiðara en menn halda að ná fjenu, og þó að þeir, sem sjerleyfið hafa, geti sýnt fram á, að fjenu sje vel borgið, þá tekur það altaf dálítinn tíma að ná saman fjenu, og það er ekki liðið ár síðan þessi sjerleyfislög um Dynjanda komu í gildi, og mjer finst ekki ástæða til þess að halda, að ekkert verði úr fyrirtækinu, því að eftir þeim fregnum, sem jeg hefi nú fengið nýlega og frá fyrstu hendi, þá lítur vel út fyrir, að fjeð fáist.

Eitt atriði í ræðu hv. þm. get jeg viðurkent; það er, að sjerleyfin geti fest í höndum fjelaga framfarafyrirtæki, sem menn vilja og þurfa að fá sem fyrst, en geta dregist af því að sjerleyfi hafa verið gefin. En hjer getur það ekki komið til mála, vegna þess að sjerleyfið fellur úr gildi 1. maí 1929, ef ekki er byrjað á framkvæmdum fyrir þann tíma, og það eru því ekki nema 2 ár, sem ætluð eru til undirbúnings, því að fyr en 1. maí getur maður ekki ætlast til, að þetta frv. verði að fullu afgreitt, og fyr getur það ekki orðið að lögum. Eftir því sem nú lítur út, eru ekki nokkrar minstu líkur til þess, að við getum lagt fram fje til þessa fyrirtækis, og vona jeg, að hv. 5. landsk. viðurkenni það, að með þessu sjerleyfi er málinu ekki stofnað í neina hættu af drætti, sem við annars ekki vitum, að áreiðanlega myndi verða, og ástæðan til þess, að mjer er þetta mál kappsmál meira heldur en nokkurt annað mál, sem liggur fyrir þessu þingi, er sú, að það er mín fasta og óbifanlega sannfæring, að við þurfum að fá járnbraut, það sje mesta samgöngubót, sem við getum fengið, og í öðru lagi, að við fáum aldrei betra tækifæri heldur en ef við tökum þessu tilboði, sem hjer liggur fyrir.

Hv. 5. landsk. sagði, að ef alt væri hreint hjá sjerleyfisbeiðanda, þá gerði það honum ekkert til, þó að hann setti tryggingu fyrir framkvæmdum, ef hann gæti. En þar sagði hv. þm. sjálfur ástæðuna fyrir því, að það getur skift fjelagið mjög miklu, nefnilega að það er búið að eyða til rannsókna og undirbúnings því hlutafje, sem það hafði, og þess vegna hefir það ekki fje til þess að leggja fram til tryggingar; en aftur á móti, ef það hefir sjerleyfið í höndunum, þá er það þegar búið að sýna mikil skilríki fyrir því, að því muni hepnast að fá fje, svo framarlega sem þeir peningamenn, sem jeg áður gat um, brigða ekki sín loforð. En það getur háttv. 5. landsk. sagt sjer sjálfur, að jeg get ekki frammi fyrir þinginu tekið ábyrgð á því, að þessir sterku fjármálastuðningsmenn fjelagsins geti ekki brigðað sín loforð, og það væri algerlega rangt af mjer, ef jeg gæfi yfirlýsingu um það í deildinni. En jeg veit það, og það veit líka hv. 5. landsk., að að þessu fjelagi standa svo góðir og merkir og sterkir menn, að það eru mjög miklar líkur fyrir því, að þeim gangi betur en öðrum að útvega fjeð.

Háttv. þm. hjelt, að fje þetta mundi ekki fást á Norðurlöndum. Jeg hygg þó, að nokkuð af því muni fást þar. En það eru líka fleiri lönd til, og vil jeg t. d. benda á Þýskaland. Það getur vel verið, að ef fjelagið væri nægilega fjesterkt sjálft, þá liti málið öðruvísi út. Jeg skal ekki neita því, en það verður að tjalda því, sem til er. Annars get jeg ekki sjeð annað en okkur ætti að vera sama, hvaðan fjelagið fær fjeð, ef það á annað borð fær það. Jeg vil vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt, að jeg hefi sjeð það á skjölum, er fyrir mig hafa verið lögð, að loforð eru fengin frá erlendum peningafirmum um framlag til fyrirtækisins. En auðvitað get jeg ekki tekið ábyrgð á því, að fjelögin uppfylli þau loforð. Jeg get heldur ekki ábyrgst, að skjölin sjeu ekki fölsuð, en jeg álít þó þann möguleika svo fjarri, að ekki þurfi að ræða hann.

Jeg held, að það hafi ekki verið fleira í ræðu hv. þm., sem jeg þurfti að svara. En jeg vona, eftir orðum hans áðan, að hann athugi mál þetta hleypidómalaust og útfrá þeirri grundvallarhugsun, að járnbrautin sje hið mesta nauðsynjamál vort.