30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Jónsson:

Jeg get ekki sagt, að jeg geti verið allskostar ánægður með svar hæstv. atvrh. við spurningum þeim, er jeg beindi til hans. Að vísu skilst mjer, að hann ætli að gefa nefndinni einhverjar frekari upplýsingar, og getur það eflaust verið gott fyrir hana, en jeg á ekki sæti í þeirri nefnd, svo að þessar upplýsingar fara þá fyrir ofan garð og neðan hjá mjer. Nú vildi jeg mega skjóta því til hæstv. ráðh., hvort það sje meiningin, að nefndin fái eitthvað frekara að vita um fjárhag fjelagsins, hvort hann mundi þá ekki til með að láta háttv. deild verða þeirrar fræðslu aðnjótandi.

Mjer er kunnugt um, að þetta fossafjelag, sem um skeið ljet allmikið til sín taka, hefir nú ekkert látið á sjer kræla lengi, og er það skoðun margra, að fjárhagur þess muni ekki vera upp á marga fiska, og því ekki að vænta, að það muni hafa minstu getu til þess að ráðast í önnur eins stórfyrirtæki og hjer er um að ræða. Það kom líka fram undir umr. í hv. Nd., að hlutabrjef fjelagsins hefðu nýlega gengið kaupum og sölum hjer í bænum og það fyrir afarlítið verð. Þetta og ýmislegt fleira virðist því benda í þá átt, að fjelagið muni ekki vera eins vel statt og af er látið af sumum þeim, sem harðast fylgja frv. Þá óska jeg að fá að vita hjá hæstv. stjórn, hvort það sje rjett, að Titan-fjelagið sje nú að selja hlutabrjef sín í stórum stíl til útlanda, eins og þetta blað, „Nationen“, segir.

Hæstv. atvrh. getur ekki tekið það illa upp, þótt hann sje spurður um ástæður og efnahag fjelagsins, vegna þess, að undir efnahag þess er það komið, hvort þetta eiga að verða pappírslög eða ekki. En á svörum hæstv. atvrh. um þetta efni hefir ekkert verið að græða. Og jeg mótmæli því, sem hann sagði, að það sje að gera fjelagið tortryggilegt, þótt leitað sje fyrst almennra frjetta um hag þess. Það er heimskra manna háttur að ráða stórmálum til lykta rannsóknarlaust. Það hefir því líklega orðið óvart hjá hæstv. atvrh., er hann sagði það, að rannsókn um efnahag fjelagsins gæti gert það tortryggilegt. (Atvrh. MG: Jeg sagði það aldrei). Jeg álít, að fjelaginu sje skylt í þessu máli að láta alt uppi um sinn hag við Alþingi.

Hæstv. stjórn hefir að vísu játað, að fjelagið hafi nú enga peninga, en hún afsakar það með því, að sá maður, sem er líklega ráðunautur eða starfsmaður fjelagsins, Stuevold Hansen, hafi trú á fyrirtækinu. Það, að hæstv. atvrh. spurði hann um þetta, minnir mig á sögu um ungan íslenskan kaupsýslumann, sem fór til Kaupmannahafnar til þess að kaupa vörur og spurði einn kaupmanninn, hvort hann hjeldi ekki, að þessar vörur væru góðar fyrir sig. Mjer finst hæstv. atvrh. hafa sýnt það þarna, að hann er jafngrunnfær og þessi maður var.

Jeg held, að jeg geri ekki þeim duglega manni Karli Sæmundsen rangt til, þótt jeg segi það, að hann hafi í fyrra sagt hverjum manni það hjer í þinginu, að Dynjandi hefði á hverjum tíma fullar hendur fjár. Og upp á þessa trú hans fjekst svo sjerleyfið þá. En nú vil jeg spyrja: Er það ekki minkun fyrir Alþingi að samþykkja lög, sem svo verður ekkert úr eða ekkert kemur út af? Það álít jeg.

Jeg játa það, að okkur er nauðsynlegt að fá járnbraut, og vegna hennar líta margir svo á, að tala verði um virkjunarleiðina.

Hæstv. atvrh. var að tala um, að það væri sama sem aflátssala, ef Alþingi vildi hafa tryggingu, ef það veitti þetta sjerleyfi. Er þá hæstv. atvrh. ekki svo mikill fjármálamaður, að hann viti, að í stórum samningum eru ætíð sett stór viðurlög, ef til brigðmælgi kemur? Og veit hann ekki, að betra væri fyrir landið að fá skaðabætur fyrir brugðin heit við landið, t. d. frá Volcanic Sand og Dynjanda, heldur en aðeins að fá minkunina eina saman?

Jeg ætla að nota hjer tækifærið til að þakka hæstv. bráðabirgðaforsætisráðherra JÞ) fyrir það, að hann hefir í einu máli gert mjer mikið að skapi, þar sem hann hefir ekki notað happdrættisheimildina, sem sett var hjer á þingi í fyrra, því að það var eitt af þessum viðsjárverðu málum.

Það gladdi mig að heyra, að hæstv. atvrh. hefir það á tilfinningunni, að þetta mál er ekki í samræmi við fyrri samgöngumálapólitík hans, eins og t. d. þá, er hann drap strandferðaskipið í fyrra. En ef hann spyrði nú fólk á Austfjörðum, Norðlendinga eða Vestfirðinga, hvort málið, strandferðaskip eða járnbraut, þeim litist betra, þá býst jeg við, að hann fengi það svar hjá flestum, að þeir teldu strandferðaskipið mikla nauðsyn. Þess vegna vona jeg, að ef járnbrautin verður samþ., þá verði hæstv. atvrh. víðsýnni í samgöngumálum framvegis heldur en hann hefir verið.

Hæstv. atvrh. sagði, að þetta mál mætti ekki gjalda þess, þótt einhver bæri kala til sín. Jeg veit ekki, hvort nokkur ber persónulegan kala til hans í þessari háttv. deild. En það er von, að hann minnist á þetta, því að það leikur sterkur grunur á því um íhaldsmenn, að þeir láti málefnin gjalda þess, ef þau eru borin fram af öðrum en þeirra mönnum.