30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 5. landsk. sagði, að jeg hefði sagt, að jeg ætlaði ekki að veita sjerleyfið, nema nægir peningar væru fengnir til járnbrautarinnar. Þetta sagði jeg ekki. Jeg sagði, að jeg teldi það forsvaranlegt að veita sjerleyfið, þótt fjelagið hefði ekki fjeð handbært til þess að leggja járnbrautina. (JBald: Hvað þýðir það á lögfræðingamáli að hafa ekki meira fje handbært en til þess að leggja járnbrautina?). Hv. þm. (JBald) ætti heldur að fara í aðra lögfræðinga en mig til þess að fá upplýsingar um það, því að það mun hæpið fyrir hann að leggja trúnað á það, sem jeg segi um lögskýringar á orðum sjálfs mín.

Hv. 1. landsk. (JJ) þóttu upplýsingar mínar um fjelagið lítils virði. Þótt jeg kunni að þekkja eitthvað til hags fjelagsins, þá hefði jeg ekki leyfi til að skýra frá því hjer opinberlega. En jeg veit ekki, hvernig hagur þess er nú. Hv. þm. upplýsti það og hafði það eftir norsku blaði, „Nationen“, að fjelagið væri nú sem óðast að selja hlutabrjef sín erlendis. Þetta er mjer ekki kunnugt um, en mjer þykir vænt um að heyra þetta, því að það getur einmitt staðið í sambandi við þetta mál, og það sýnir ekki annað en það, að fjelagið er þegar farið að safna fje. Hinu hefi jeg aldrei haldið fram, að fjelagið væri fjársterkt eins og stendur.

Dynjandamálið er hjer ekki til umræðu, en jeg vil benda hv. 1. landsk. á, að það er ekki lítill munur á þeim kjörum, sem Dynjandi fjekk, og þeim kjörum, sem Titan eru ætluð. Þar skakkar hvorki meira nje minna en mörgum miljónum. Það er áætlað, að járnbrautin muni kosta 8–9 miljónir króna. Þar af eigum við að leggja fram 2 milj. kr., og mismunurinn á þeim upphæðum verður mismunurinn á sjerleyfi Dynjanda og Titans, og auk þess kemur svo mismunurinn á virkjunargjaldinu, sem þessum tveimur fjelögum er ætlað að greiða fyrstu 10 árin.

Hv. þm. vill gera það að tekjustofni fyrir ríkissjóð að selja sjerleyfi, og mjer finst það nokkuð svipað og með aflátsbrjefasölu. Hann álítur, að við getum látið sjerleyfi fyrir svona 100 þús. kr. En ekki þættum við betri í útlöndum heldur en hann lýsti frá sínu sjónarmiði, ef við gerðum það. (JJ: Það mætti þó fá brú á Hjeraðsvötnin fyrir 100 þús. kr.). Það er nú þegar búið að brúa þau á ósunum og ein brú kemur bráðum. (GÓ: Þær eru komnar nokkrar!). Með þessari nýju brú eru þær komnar þrjár, og sýnir það dugnað þingmanns þess kjördæmis.

Hv. 1. landsk. lýsti nú yfir því, að hann ætlaði að gera sjer þá minkun að samþ. frv. Jeg veit ekki, hvort jeg á að kaupa atkvæði hans svo dýrt að láta hann verða sjer til minkunar — hann má varla við því fremur en orðið er.

Að lokum get jeg sagt hv. bráðabirgða 1. landsk. (JJ), að þegar strandferðaskipið kemur til umr., þá mun jeg segja um það, það sem mjer þykir rjett, en nú er það ekki á dagskrá.