11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Jónsson:

Jeg hefi nokkrar brtt. við þetta frv. og vil nota tækifærið til þess að skýra nánar efni þeirra. En áður en jeg byrja, ætla jeg að minnast á þau atriði, sem jeg hefi áður tekið fram og gert fyrirspurnir um án þess að fá nokkurt svar.

Þegar við 1. umr. vildi jeg fá að vita, hverjar fjárhagsástæður fjelagsins Titans væru og hvaða líkindi væru til þess, að orðið gæti úr þeim framkvæmdum, sem ráðgerðar eru. Jeg fjekk enga vitneskju í jákvæða átt. Hæstv. atvrh. var ekki kunnugt um þetta, og heldur ekki nefndinni, en jeg get ekki ímyndað mjer annað en að allir sjeu mjer sammála um, að það skifti miklu máli, hvort sá aðili, sem semja á við, sje samningshæfur eða ekki.

Önnur brtt. mín er við 3. grein og lýtur að því að slá föstu, að ekki sje samið nema við þetta eina fjelag, nema samþykki Alþingis komi til. Það er ákaflega þýðingarmikið atriði fyrir landið, að þegar það gerir samning, sje ákveðinn mótaðili. Mörgum mönnum hjer er það mikið geðfeldara, að þær framkvæmdir, sem hjer er um að ræða, sjeu gerðar af frændþjóðum okkar, en ekki einhverri fjarskyldri, ef til vill voldugri þjóð, sem gæti notað áhrif sín hjer á þann hátt, sem ekki væri hollur fyrir okkur. Jeg þarf ekki að benda á, hvernig farið hefir fyrir fátækum þjóðum, sem veitt hafa slík sjerleyfi útlendingum. England á meira að segja nú í blóðugri styrjöld við land, sem þegnar þess eiga miklar eignir í, og styrjöldin er út af þeim.

Þessi hlið málsins — sjálfstæðishliðin — er sú athugaverðasta. Mjer mundi standa stuggur af því, ef veitt yrðu og notuð mörg slík sjerleyfi. En ástæðan til þess, að þessi leyfisbeiðni hefir þó fengið þær viðtökur, sem raun er á orðin, er eingöngu þörf hjeraðanna austanfjalls til þess að fá samgöngubætur, en eins og jeg tók fram við 1. umr., er þeim enginn greiði gerður með því, að við sjeum að leika okkur við aðilja, sem eru ef til vill ekki færir til að framkvæma það, sem beiðnin fer fram á. Jeg tel það koma úr hörðustu átt, að sjálf landsstjórnin skuli engar tryggingar vilja hafa fyrir því, hvers eðlis þessi fjelagsskapur sje, og jeg verð að segja, að jeg geri mikinn mun á því, hvort Alþingi framselur sjerleyfið eða stjórnin, ef það á annað borð á að vera framseljanlegt. Jeg segi þetta ekki af sjerstöku vantrausti til núverandi stjórnar. Það nær jafnt til allra stjórna. En svona mikilsverðan samning getur þjóðin ekki gert nema við aðilja, sem eru fullkomlega þektir. Jeg vona, að þjóðin sjái, að þetta er sjálfsögð krafa.

Þá hefi jeg skýrt frá annari brtt. minni, en um þá fyrstu er það að segja, að hún lýtur að því að tryggja, að ekki sje verið á hneykslanlegan hátt að leika sjer að sæmd þjóðarinnar og nafni landsins. Jeg lít svo á, að sómi þings og þjóðar leyfi ekki, að gengið sje lengra eftir þeirri braut, að hinum og öðrum óþektum mönnum eða fjelögum sjeu veitt sjerleyfi. Síðan er farið með þau út um öll lönd til þess að pranga með þau. Stundum hafa fengið hjer sjerleyfi menn, sem ekki hafa notið þess trausts í sínu eigin landi, að nokkur maður þar vildi eiga skifti við þá. Alþingi hefir og veitt sjerleyfi til stórkostlegs fyrirtækis manni, sem ekki stóð í skilum með opinber gjöld til síns lands. Hjer var veitt sjerleyfi til þess að vinna járnsand við Hjeraðsflóa. Hvað varð úr því? Næst var veitt sjerleyfi til saltvinslu úr sjó. Með bæði þessi sjerleyfi var braskað erlendis. Þá skal jeg nefna tvö bankasjerleyfi, sem meiri hluti stuðningsmanna hæstv. stjórnar var fylgjandi, sem sje norska bankann og bankann, er mest var talað um í fyrra. Hvað hefir hafst upp úr þessum sjerleyfum? Misjafnlega hátt settir fjármálamenn hafa braskað með þau erlendis og þau hafa orðið til eintómrar vansæmdar fyrir landið. Jeg er ekki að segja, að ekki geti komið til mála að stofna hjer hlutabanka. Alt öðru máli var að gegna, þegar t. d. Íslandsbanki var stofnaður. Þá var samið við ákveðinn aðilja.

En ef þetta mál er í eðli sínu eins og járnsandurinn eða saltvinslan, þá vona jeg, að það verði það síðasta af þeirri tegund einkaleyfa.

Nokkra bót mætti gera, ef þingið fylgdi þeirri varasemi að láta sjerleyfið ekki koma til greina, nema það hefði fengið fulla tryggingu. Að því lýtur mín fyrsta brtt. Jeg vona, að hæstv. atvrh. sjái, að hjer er farið mjög varlega að fjelaginu. En þar sem alt bendir á, að hæstv. stjórn ímyndi sjer, að Titan eigi í raun og veru ekkert annað en veðsett vatnsrjettindi, hefi jeg ekki viljað tiltaka ákveðna fjárhæð, sem fjelagið gæti svo ekki staðið við. Mjer er kunnugt um það frá Dynjandamálinu í fyrra, að það fjelag kveinkaði sjer við mjög lágri tryggingu.

Jeg vil gera ráð fyrir, að ekki sjeu allar eignir fjelagsins veðsettar, og ætlast til, að það minsta, sem Titan geti gert fyrir það, að landið hefir sýnt því þann sóma að telja það samningsbæran aðilja, sje að láta þetta af hendi.

Jeg treysti þess vegna, að hæstv. atvrh. styðji þessa till. mína. Hún er í alla staði sanngjörn og gengur aðeins í þá átt að krefja af fjelaginu það, sem því hlýtur að vera útlátalaust að láta af hendi, nema því aðeins, að það ætli sjer ekki að efna loforðið; en ef það gerir það ekki, þá er ekkert gagn gert þeim, sem þurfa að fá járnbrautina, með því að vera að veita fjelaginu sjerleyfi.

Þá er 3. liður; hann er viðbót við 9. gr., nokkuð svipaðs eðlis eins og brtt. frá hv. minni hl. samgmn., en sem ekki hefir verið talað fyrir ennþá. Jeg mundi vel geta sætt mig við þá brtt., ef hv. deild feldi sig frekar við þá tryggingu en mína, og gæti jeg þá tekið mína brtt. aftur til 3. umr. og komið þá með síðari hluta hennar, sem er alveg sjerstaks eðlis.

Það eru tvö atriði, sem eru í þessari 3. brtt. minni. Það fyrra er, að landið leggur ekki í járnbrautina fyr en það er virkilega sjeð, að þessi aðili hafi fjármagn til að gera meira af henni. Þess vegna tók jeg það fram, að þegar brautin væri komin austur fyrir Lágaskarð og farið að halla niður af heiðinni, þá fyrst skyldi ríkissjóður leggja fram fje til járnbrautarinnar, svo að þá væri ekki til ónýtis barist, og mætti hæstv. atvrh. þá vera mjer þakklátur fyrir að hafa komið fram með þetta, jafnvel þótt landið yrði þá að taka alveg við, ef fjelagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Aftur á móti teldi jeg ekkert gagn að því, þótt fjelagið gæti lagt einhvern járnbrautarstúf hjerna inn fyrir bæinn, sem svo stæði lengi ónotaður, en ríkið hefði kannske ekki ráð á að halda verkinu áfram, en þá komið töluvert fje úr ríkissjóði í fyrirtækið.

Síðari hlutinn er töluvert mikilsverður sem varnagli. Jeg vil benda á, að það hafa komið fyrir atvik í Noregi, sem gera það að verkum, að hyggilegt er að samþykkja þennan part till. minnar. Það kom sem sje fyrir í Noregi á stríðsárunum og rjett á eftir, meðan verið var að vinna að ýmsum stórum útbyggingum, að ýms sveitarfjelög lögðu í virkjunina, þó að meiri hluti stofnfjárins væri útlent fje. En það fór svo fyrir ýmsum þessum fjelögum, að þau urðu aldrei nema „svindilbrask“, nokkuð af hlutabrjefunum seldist, en alt, sem inn kom, fór til þeirra, sem stóðu fyrir fjelögunum. En þá gerðu ýmsir þegnar annara ríkja, einkum Englands og Bandaríkjanna, sem töldu sig svikna í viðskiftunum við fjelögin, kröfur til Noregs, sem staðið hefði að þessu útboði, og töldu, að ríkið bæri ábyrgð á þeim mönnum, sem hefðu selt hlutabrjefin.

Nú er miklu meiri ástæða fyrir okkur til þess að fara varlega, þar sem um ríkið er að ræða og okkur ber vandlega að athuga það, að þessi fjelagsskapur, sem verið er að binda landið í, hefir ekki þau einkenni öruggleika, að ekki sje full ástæða til, að við tökum það fram, að ríkið sje á engan hátt riðið við fjármál fjelagsins, nema að því leyti, sem það leggur þetta fje til járnbrautarinnar, þegar hún er komin hæfilega mikið áleiðis.

Þá vil jeg að síðustu víkja að því gagni, sem jeg ætlast til, að verði að þessu máli. Ef rætast draumar forgöngumanna málsins og hv. 4. landsk. (MK), sem mælt hefir fyrir því af mikilli trú í dag, ef þessir aðiljar, sem hjer eiga hlut að máli, geta komið járnbrautinni á og rekið þá starfsemi á þann hátt, að það geti orðið landinu til gagns, þá verður ekki um það deilt, að gagn hefir orðið að tilraun þessari. En það eru fjöldamargir menn, sem þykjast þess fullvissir, að ekkert muni úr þessu verða, Titan hafi enga peninga og muni ekki fá neitt fjármagn annarsstaðar frá, og þar af leiðandi höfum við ekkert annað en fyrirhöfnina af þessu frv. og kannske dálítið vafasaman heiður af því að hafa gengið í þennan óþekta fjelagsskap. En þrátt fyrir þessa annmarka held jeg, að rjett sje að samþykkja þetta frv., því að sjerleyfasóttin hefir gengið yfir öll takmörk hjer og náði sínu hámarki, þegar sjerleyfið um Dynjanda var samþ. í fyrra, þar sem maður, sem ekki er ástæða til að halda, að hafi mikil fjárráð, fjekk leyfi til að gera hjer miljónafyrirtæki, og þar sem hv. Ed. tók út tryggingarskilyrði, sem hv. Nd. var búin að samþykkja, og sem gekk út á, að hann setti 50 þús. kr. tryggingu fyrir því, að sjerleyfið yrði notað, og nú hefir ekki heyrst hósti nje stuna frá Dynjanda. Það síðasta, sem spurst hefir af fjelaginu, er það, að hátt settur maður við fjelagið segir, að það standi nú á því hjá forkólfunum, hvernig forgöngumenn fjelagsins eigi að skifta með sjer „prósentunum“. En ef það skyldi nú fara svo, að Titan reyndist ekki meira nje merkilegra en þessi banki, sem hjer átti að stofna, þá vona jeg, að sjerleyfatrúin verði sjer til varanlegrar minkunar, svo að augu þings og þjóðar opnist fyrir því, að þessa leið er ófært að halda. Það eru margir menn á landi hjer, sem halda, að ekki sje hægt að koma upp járnbrautinni á annan hátt en með útlendu fje; en jeg er ekki einn af þeim mönnum, því að jeg álít það ólíklegt, að málið verði þannig leyst, og miklu betra, að við leysum það sjálfir, því að þá vita menn, að hverju þeir ganga. En það hefir verið svo mikil trú á útlendum fjelögum hjer á landi, að sú oftrú hefir hreint og beint hindrað járnbrautarmálið.

Nú veit jeg ekki til, að neitt annað fjelag en Titan hafi boðist til að leysa járnbrautarmálið fyrir þjóðina, og ef svo reynist, að Titan sje nú ómáttugt til þeirra hluta, þá vonast jeg til, að sá hávaði, sem verður af hruni Titans, verði til þess, að þjóðin minnist, að búið er 5–6 sinnum að leika á hana með sviplíkum sjerleyfum, og að slíks eru ekki dæmi um aðrar þjóðir. Jeg vona, að sú erfiða reynsla lækni þjóðina af sjerleyfasýkinni.

Jeg hugsa mjer, að af þessu máli megi nokkurt gagn verða, á hvorn veginn, sem það fellur. Leiðin til framkvæmda í járnbrautarmálinu er ekki alveg lokuð, og með því að svo er nú ástatt með fjármál ríkisins, sem kunnugt er, þá sje jeg ekki, að hægt verði á næstu missirum að byrja á ríkisjárnbraut, og því ekki rjett að loka þessum möguleika, ef nokkur er. En ef þessi tilraun gengur illa, þá verður það þó vonandi til þess, að við treystum ekki oftar óþektum fjelögum.

Þá hefi jeg mælt fyrir þessum brtt. mínum, og vona jeg, að hæstv. atvrh., sem hefir borið fram þetta frv., viðurkenni, að þær miða til þess að bæta frv. Ef þær verða feldar, þá getur það ekki orðið til annars en að minka þá veiku von, sem menn hafa um, að fjelagið muni gera nokkuð, því ef það álítur það máli skifta fyrir sig að framselja leyfið án samþykkis Alþingis, og ef það er svo á vegi statt, að það geti ekki komið járnbrautinni austur yfir heiði án þess að ríkið leggi fram fje, þá er það svo á vegi statt, að ekkert er við það eigandi. En jeg sje nokkuð af undirtektum hæstv. stjórnar, hvers vænta megi í þessu efni.