12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2764 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Ingibjörg H. Bjarnason:

Að jeg bað um orðið í gærkveldi, var í þeirri von, að þá yrði umr. lokið. Mál mitt skal ekki verða langt, en mjer þykir þó rjett að gera grein fyrir afstöðu minni til frumvarps þess, sem hjer liggur fyrir.

Jeg álít, að þetta mál sje ekkert hjegómamál og heldur ekkert flaustursmál. Málið verður að athugast frá ýmsum hliðum, og þess vegna hallast jeg á sveif með þeim mönnum, sem álíta það ekki fært að afgreiða það á þeim grundvelli, sem það er nú. Hins vegar geng jeg út frá því sem gefnu, að allir, sem eitthvað leggja til þessa máls, bæði hjer á þingi og annarsstaðar, geri sjer far um að gagnrýna það sem best frá ýmsum hliðum og láti hvorki flokksfylgi nje hreppapólitík ráða afstöðu sinni til þess.

Jeg tók eftir því við 1. umr. þessa máls, þegar hæstv. atvrh. lagði það fyrir þessa hv. deild, að þá spunnust strax miklar umr. um það, sem sýndu, að ekki hafa allir verið á eitt sáttir. Jeg man því miður fátt af því, sem sagt var, bæði með og móti, en duldist ekki, að hjer var um stórmál að ræða, sem þarf að íhuga rækilega, og jeg var þess vegna fyllilega sammála hv. 1. þm. G.-K. (BK), þegar hann sagði í gærkvöldi, að þetta mál ætti að ræðast á tveimur þingum, það myndi síst af veita.

Hinsvegar finst mjer, að umr. um málið hafi verið svo einhliða, að það er líkast því, sem engar samgöngubætur sjeu hugsanlegar hjá oss aðrar en járnbraut. Jeg skal játa það, að jeg er í tölu þeirra manna, sem álíta, að samgöngumálum okkar væri langtum betur komið, ef vegir væru bættir og bygðir nýir vegir, sem bifreiðar gætu farið um allan ársins hring. Reynsla nágrannaþjóðanna, sem höfðu bygt járnbrautir löngu áður en bifreiðar komu til sögunnar, virðist benda til þess, að bifreiðar sjeu betri, ódýrari og hagkvæmari í rekstri en járnbrautir. Þetta vita sjálfsagt allir hv. deildarmenn, og þetta er sannað af mönnum, sem hafa farið víða um lönd og geta því dæmt um þetta af nokkurri reynslu. Víðast eru járnbrautir reknar með miklum halla, og einkajárnbrautir eru að fara á höfuðið unnvörpum; þess vegna ætti síst að hrapa að því að koma hjer upp járnbraut. Frá Reykjavík að Þjórsá er talsvert löng leið, en járnbraut nægir þó ekki án frekari vegabóta, því menn verða líka að flytja afurðir sínar að og frá járnbrautarstöðinni, og jeg veit ekki, hvort allir hafa gert sjer það ljóst, að þeir bændur, sem ekki búa fast við járnbrautina, þurfa að útvega sjer flutningatæki, sem þeir geti flutt á vörur sínar. Auk þess hefir því verið haldið fram, að viðhaldskostnaður væri svo gífurlegur á slíku fyrirtæki sem þessu, að það af þeirri ástæðu einni væri mjög varhugavert að ráðast í það. í Noregi og Sviss og víðar, þar sem líkt hagar til og hjer, verður víða að byggja yfir járnbrautarkafla vegna snjóþyngsla, og kostar það ærna fje. Jeg er ekki að segja með þessu, að kostnaður og fyrning bifreiðavega og bifreiða geti ekki verið nokkuð mikill líka, en það, sem jeg tel mest um vert, er það, að járnbrautin verður að halda uppi ferðum, hvað lítið sem hún hefir að flytja, en bifreiðarnar venjulega því aðeins, að þær hafi nægilegan flutning. Máli mínu til stuðnings gæti jeg vísað til ýmsra skýrslna um rekstur járnbrauta, en sleppi því hjer, vegna þess, að hverjum þingmanni, sem vill afla sjer rjettra upplýsinga um málið, ætti að vera það hægðarleikur.

Landar okkar vestanhafs vöruðu okkur við því, þegar þetta mál var fyrst fyrir Alþingi, og gerðu hið sama, er járnbrautarmálið lá fyrir á síðasta þingi, að leggja í að byggja járnbraut, af því að það væri ekki samgöngutæki framtíðarinnar, en bifreiðarnar hinsvegar ryddu sjer jafnt og þjett til rúms alstaðar, og jeg get þess vegna tekið undir það, sem hv. 1. þm. G.-K. sagði, að heppilegra myndi reynast að veita h/f Titan sjerleyfi til fossavirkjunar gegn því skilyrði, að það beitti sjer fyrir að byggja bílveg austur, og að horfið væri frá járnbrautarlagningunni, og gæti jeg betur sætt mig við framlag úr ríkissjóði til fjelagsins, væri sú leið tekin. Tel jeg vafalaust, að jeg myndi þá hafa samþykt sjerleyfisfrumvarp þetta, þótt jeg sje annars ekkert ginkeypt fyrir þeim, því jeg tel, að komið sje nóg af svo góðu.

Á árunum frá 1913–’26 hafa að minsta kosti 9 sjerleyfi verið veitt, og vil jeg nú telja upp þau sjerleyfi, sem jeg í fljótu bragði gat tínt saman:

Lög nr. 57, 10. nóv. 1913, um heimild til að veita einkarjett til þess að vinna salt o. fl. úr sjó. Lög nr. 70, 3. nóv. 1915, um heimild til að veita einkarjett til þess að hagnýta járnsand (Volcanic sand). Lög nr. 25, 27. júní 1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks. Lög nr. 47, 20. júní 1923, um heimild fyrir landsstjórnina til að veita ýms hlunnindi fyrirhuguðum nýjum banka í Reykjavík. Lög nr. 51, 27. júní 1925, um sjerleyfi til þess að reka útvarp (broadcasting) á Íslandi. Lög nr. 48, 15. júní 1926, um heimild handa atvinnumálaráðherra til að veita sjerleyfi til virkjunar Dynjandisár og annara fallvatna í Arnarfirði o. fl. Lög nr. 52, 15. júní 1926, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að veita ýms hlunnindi fyrirhuguðum nýjum banka í Reykjavík. Lög nr. 49, 15. júní 1926, um stofnun happdrættis fyrir Ísland. Lög nr. 51, 15. júní 1926, um sölu á síld o. fl.

Það kann vel að vera, að þau sjeu fleiri, en jeg rakst ekki á önnur á umræddu tímabili í fljótri yfirferð.

Undir umr. í þessari hv. deild hefi jeg reynt að leggja hlustirnar rækilega við, til þess að komast að því, hvort þetta sjerleyfi, sem hjer er um að ræða, væri betur í pottinn búið heldur en sum hin sjerleyfin, sem Alþingi hefir afgreitt á undanförnum árum, og mjer til mikillar raunar hefi jeg komist að raun um, að svo er ekki. Þar sem það hefir svo greinilega komið fram undir umr. í þessu máli, að fjelag það, sem sjerleyfið er bundið við, sje ef til vill fjárvana, og alt stendur og fellur þó með því, hvernig fjársöfnunin gengur, þá finst mjer, að ekki horfi neitt vænlega við um framgang málsins og að sjerleyfi það, sem hjer er talað um, gæti orðið til tafar öllum þeim samgöngubótum, sem um gæti verið að ræða á þessu svæði. Þess vegna finst mjer, að menn ættu að hafa allan hug á því að tryggja sem best framkvæmdir þær, sem sjerleyfið er bundið við.

Við höfum því miður fremur sorglega reynslu á sjerleyfasviðinu, þótt ekki sje rakið lengra en aftur til 1913 —’26. Mjer vitanlega hafa nú aðeins tvö af þessum sjerleyfum verið notuð. Það er sjerleyfi háskóla Íslands til þess að gefa út almanak og sjerleyfið um útvarp á Íslandi. Kann að vera, að jeg viti ekki allskostar rjett í þessu, en jeg hefi ekki komið auga á, að framkvæmdir hafi orðið á fleiri sjerleyfum.

Jeg ætla ekki að fara að ræða neitt um þessi tvenn sjerleyfislög, sem hjer hafa verið notuð. Það mætti auðvitað ýmislegt um þau segja, en það liggur ekki hjer fyrir. En kosturinn við þessi sjerleyfi er þó sá, að þau snerta okkur Íslendinga mest inn á við; aftur horfa hin sjerleyfin nokkuð öðruvísi við, þar sem í sambandi við flest þeirra er að ræða um mikil fjárframlög, sem gert er ráð fyrir að afla með erlendu hlutafje, ef eitthvað á að verða úr framkvæmdum. En hvar á þá að taka alt það fje? Reynslan virðist benda til þess, að útlent fje hafi ekki verið auðfengið, því að annars hefðu væntanlega einhverjar framkvæmdir orðið í þeim málum, sem sjerleyfin hafa fjallað um. Það sannast svo oft, að framboðin hlunnindi eru ekki eins mikils metin og vænta mætti. Jeg get ekki sjeð annað en að hin ýmsu sjerleyfi, sem jeg hefi gert hjer að umtalsefni, hafi hvorki orðið til þess að afla landi voru eða þjóð frægðar eða fjár, nema síður sje. Jeg drap á það áðan, að mjer hafi fundist það koma í ljós hjá hæstv. atvrh. og öðrum, sem um málið hafa rætt, að ekki væri neitt handbært fje til hjá Titan, svo teljandi sje. Mjer finst þess vegna, að fullsnemt sje að veita þetta sjerleyfi nú þegar. Það væri síst vanþörf á að tryggja betur, að fjelagið sje megnugt að fullnægja þeim skuldbindingum, sem sjerleyfið leggur því á herðar.

Jeg tel brtt. þær, sem eru á þskj. 330 og 354, vera til mikilla bóta í þá átt að tryggja landsmönnum það, að hjer verði ekki um tóm loforð eða hillingar að ræða.

Það mun vera venja erlendra ríkja, sem ant er um álit sitt og efnalegt sjálfstæði, að veita þá fyrst sjerleyfi, svipuð því, sem hjer um ræðir, þegar fje það, sem þarf til framkvæmda sjerleyfisins, er trygt. Finst þá ekki fleirum en mjer, að fullsnemt sje að veita fjelagi þessu sjerleyfið, þar sem það er sannanlegt, að það ræður ekki enn yfir fje til framkvæmda í málinu? Þess vegna sje jeg ekki, að fjelaginu sje nein tortrygni sýnd, þó að reynt sje að tryggja framlög þess á móts við framlag ríkissjóðs. Jeg mun því, þegar brtt. þessar koma til atkvgr., greiða þeim atkv. mitt. Mjer nægir ekki fyrir mitt leyti, að efni brtt. verði tekið upp í sjerleyfissamninginn, og jeg skoða það ekki sem neinn vansa af hálfu stjórnarinnar fyrir landsins hönd eða sem neina tortryggni í garð þeirra manna, sem um sjerleyfið sækja, þó að reynt sje að tryggja, að ending verði á samningunum. Þótt jeg treysti núverandi stjórn til þess að sjá um, að vel verði gengið frá samningum öllum og haft vakandi auga með því, að þeim sje fullnægt, þá er engin trygging fyrir því, að sú stjórn, sem væntanlega tekur við af þessari, láti sjer eins ant um það. Þess vegna, þrátt fyrir öll þau gæði, sem af frv. geta leitt, ef það verður samþ., og þrátt fyrir hina miklu von, sem þeir menn kunna að ala í brjósti, er búa á svæði því, er ráðgert er, að járnbrautin liggi um, ætla jeg ekki að vera eins brjóstgóð og hv. 1. landsk., sem ekki vildi, þrátt fyrir öll þau rök, er hann var búinn að tefla fram móti frv., drepa þann „vonarneista“, er lifði í brjósti íbúa hjeraðanna, er járnbrautarinnar eiga að njóta. Nei, jeg stíg sporið til fulls. Jeg er á móti járnbrautinni, vegna þess að jeg tel, að önnur samgöngutæki muni hjer betur henta. Hvort jeg greiði atkv. móti frv. strax eða við 3. umr., skiftir engu máli. Það kann að vera, að eitthvað það verði upplýst í málinu enn, áður en það fer út úr þinginu, sem gæti breytt aðstöðu minni. En eins og nú er, tel jeg litla von um það. Jeg álít sjerleyfin yfir höfuð, eins og jeg sagði áðan, vera afar viðsjárverð og að athuga verði þetta sjerstaka leyfi miklu betur frá öllum hliðum áður en það er afgreitt. Af öllum þessum ástæðum mun jeg því ekki geta verið stuðningsmaður þessa máls.