12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg stend hjer upp til þess að bera af mjer — að vísu ekki sakir, en því sem næst.

Hæstv. forsrh. (JÞ) benti mjer á það, að jeg blandaði saman tveimur óskyldum lögum, sjerleyfislögunum og vatnalögunum frá 1923. Jeg skal játa, að það mun rjett hjá hæstv. ráðh. En það er ekki von á því, að leikmenn í þessum efnum, eins og jeg er, sjeu búnir að kynna sjer mismuninn á þessum tveim lögum. En það var þó aðeins eitt af þeim sjerleyfum, er jeg taldi, er snertir vatnalögin, sem sje sjerleyfið til Dynjanda, lög nr. 48, 15. júní 1926. Af þeim nýju lögum, sem jeg taldi upp, hefi jeg því syndgað á móti einu þeirra, með því að telja, að sjerleyfið til Dynjanda heyrði ekki undir vatnalögin. Og þessa yfirsjón mína kannast jeg við. Sjerleyfislögin eru ekki eldri en frá 1925. Hæstv. ráðh. kvaðst skoða þetta mál sem samgöngumál. Jeg tók það skýrt fram í ræðu minni í dag, að jeg væri þess fullviss, að hver sá, sem jeti sig mál þetta skifta, reyndi að tala um það af skilningi og sanngirni. Jeg ætlast ekki til, að hæstv. ráðh. verði mjer samferða í þeirri skoðun minni, að bifreiðir sjeu, eins og hjer hagar til, betri samgöngutæki en járnbraut. En þá vænti jeg þess á móti, að hann ætlist ekki til þess af mjer, að jeg samþykki þá skoðun hans, að járnbrautir sjeu betri. Þegar járnbrautarmálið var á ferðinni hjer í fyrra, þá var jeg því frekar hlynt. En að veita þetta sjerleyfi nú, tel jeg óráð, vegna þess að allar líkur eru til þess, að það verði samgöngunum til engra bóta.

Hæstv. ráðh. taldi frv. þetta spor í rjetta átt. Jeg er gagnstæðrar skoðunar; en um það þýðir ekki að deila, því að þar kemur aðeins fullyrðing í móti fullyrðing.

Þá fann hæstv. ráðh. okkur 1., 2. og 5. landsk. það til foráttu, að við hefðum lagt áherslu á það, að það væri landinu til minkunar að veita slíkt sjerleyfi sem þetta. Jeg hefi aldrei sagt það, en hinsvegar álít jeg, að landið fái aldrei af því neinn sóma og lítið fje.

Hæstv. ráðh. taldi það sannanlegt, að járnbrautin mundi geta borið sig. Jeg hygg, að honum muni verða allerfitt að sanna það, einkum áður en hann veit, hvort járnbrautin kemur til framkvæmda og áður en hann veit, hversu mikinn flutning hún muni fá og hversu mikill rekstrarkostnaður hennar muni verða. Enda þótt kostnaðaráætlun sje til, þá hafa slíkar áætlanir alloft reynst lítt ábyggilegar, og er því að minni hyggju of snemt fyrir hæstv. ráðh., enda þótt hann sje bæði verkfræðingur og forsrh., að trúa á fyrirtækið.

Því var beint að mjer, að það þyrfti meira en fullyrðingu 2. landsk. til þess að sanna það, að járnbrautir væru að leggjast niður erlendis. En ef hæstv. ráðh. les erlend blöð, þá mun hann sannfærast um, að mikil brögð eru að þessu.

Það átti að vera hægt að láta járnbrautina bera sig með því að hafa flutningsgjöldin nógu há. Það er svo sem auðvitað. En það er vafasamt, hvort það verður til hagnaðar fyrir fólkið, sem býr á þessu svæði. Þá er betra að hafa gamla lestaganginn eða taka upp aðra ódýrari aðferð til flutninga.

Hæstv. ráðh. tók útgerð skipa til samanburðar við járnbrautina og sagði, að gjöldin yrðu að miðast við það, hvernig útgerðin bæri sig. En hvað er unnið með samgöngubótum, ef þær verða til þess að íþyngja þeim, sem eiga við þær að búa? Að framlag ríkissjóðs til járnbrautarinnar er ekki nema 2 milj. kr., í stað 3 milj., ef um bílveg væri að ræða, þá munar það ekki nema 1 milj. kr., og er það ekki mikill munur, þegar farið er að hugsa í miljónum á annað borð. Á jeg, þegar jeg tala um bílveg austur, ekki við vegakák eins og það, sem við höfum orðið að búa við hingað til, heldur verulega endingargóða og vel gerða vegi. Segi jeg þetta ekki til þess að lasta þá, sem að vegagerðum standa hjer á landi, en reynslan hefir sýnt það, að það er því nær ómögulegt að fara um veginn austur nema í þurkum. Vegagerðir hjer verða dýrar og endingarlitlar, vegna þess að fje því, sem árlega er varið til vegabóta, er dreift of víða, í stað þess að taka fyrir færri vegi í einu og gera þá þeim mun betri til frambúðar. Með því móti mundu vegirnir með tímanum verða góðir bílvegir.

Þar sem dreginn hefir verið í efa tilgangur minn með mótstöðu gegn þessu máli, þá skal jeg enn þá einu sinni taka það fram, að jeg er þeirrar skoðunar, að þessi bið, sem af sjerleyfinu leiðir, geti orðið til tafar öðrum samgöngubótum. Þessa skoðun hefi jeg haft áður, og jeg hefi hana enn. Jeg býst við því, að Titan reyni sem lengst að halda í sjerleyfið og nota sjer það. Jeg geri ekki ráð fyrir, að hjer sje um neitt góðgerðafjelag að ræða. Jeg tók það fram í upphafi fyrri ræðu minnar, að jeg myndi ekki koma fram með neitt nýtt í máli þessu, en líta á það, eins og eðlilegast er, frá almennu sjónarmiði.

Þá vildi jeg svara hæstv. atvrh. nokkrum orðum. Hann beindi því til mín, að jeg hefði sjerstaklega viljað halda fram bifreiðunum sem samgöngutækjum, en talið járnbrautirnar lakari. Þetta er rjett. En jeg hefi svarað þessu í svari mínu til hæstv. forsrh., og ætla jeg að láta það nægja. 100 þús. kr. árlega til viðhalds vegunum hjer á landi er ekki mikil upphæð, og er ekki von, að hægt sje að fá góða vegi fyrir það. En hv. 1. þm. G.-K. (BK) hefir sýnt það með rökum, að viðhaldskostnaður járnbrauta er einnig mjög mikill, og benti hann í því efni sjerstaklega á fyrningarkostnaðinn. Tek jeg þá sönnun hans mjer til inntekta.

Þá benti hæstv. atvrh. mjer á mörg sjerleyfi eldri en þau, sem jeg hafði talið upp. En jeg get bent hæstv. ráðh. á það, að jeg taldi aðeins frá 1913–1926. Hæstv. ráðh. taldi upp sjerleyfið til Stóra norræna ritsímafjelagsins og til Íslandsbanka. Jeg geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. mundu vera samþykkir sjerleyfi til Stóra norræna ritsímafjelagsins nú, ef eins stæði á og þegar fjelaginu var veitt leyfið. Að járnbrautarmálinu svipi til ritsímamálsins, fæ jeg ekki sjeð, nema að því leyti sem hæstv. ráðh. benti á, að þá voru uppi tvær skoðanir á málinu, önnur, sem vildi loftskeyti, en hin, sem vildi ritsíma. Og hið síðara var tekið. En jeg er ekki sannfærð um, að árin 1927–1929 verði sama reyndin um járnbrautina eins og verið hefir um ritsímann síðan 1905. í sambandi við það, að hæstv. ráðh. sagði, að óttinn við útlenda verkamenn, er mundu koma til landsins á vegum Stóra norræna, hefði verið notaður sem grýla á menn og sagt, að það mundi gera okkur að þrælum, þá skal jeg geta þess, að jeg er ekki hjartveik fyrir því, þó að jeg hinsvegar trúi ekki á óskeikulleik manna til þess að velja og hafna í þessum efnum.

Því, að ekki sje hægt að útvega fjeð fyr en sjerleyfið er fyrir hendi, verð jeg að trúa, þar eð vanir stjórnmálamenn halda því fram. En skynsemi mín mælir í móti þessu. Jeg tel þá fyrst rjett að veita sjerleyfið, er trygging er fengin fyrir því, að skilyrðin til framkvæmda á sjerleyfinu sjeu fyrir hendi.

Að járnbrautin, eins og ráð er gert fyrir í frv., verði oss ódýrust, um það skal jeg ekkert segja, en það væri vitanlega gott. Jeg er ekki viss um, að jeg lifi að fá að sjá það, en jeg gleðst vitanlega yfir þeim horfum.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um þetta mál að svo stöddu, en vil aðeins taka það fram aftur, sem jeg sagði, er jeg tók fyrst til máls, að jeg stóð upp aðallega til þess að gera grein fyrir skoðun minni á járnbrautarmálinu og hvers vegna jeg hefi álitið og álít sjerleyfið ekki eftirsóknarvert fyrir oss.