22.03.1927
Neðri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er komið frá hv. Ed., en var lagt þar fram af hæstv. stjórn samkvæmt þál., sem samþykt var í þessari deild í fyrra, þar sem lagt var til, að stjórnin undirbyggi frv., er miðaði að því að takmarka rjett erlendra manna, bæði einstakra manna og fjelaga, til þess að flytja inn í landið erlendan vinnulýð, þó með þeirri undantekningu, sem sett er í 3. gr. frv. Ennfremur er atvrh. veitt heimild til að vísa burt mönnum, sem hingað koma frá útlöndum í atvinnuleit. Það kom fram í umr. í fyrra, að lagaákvæði vantaði um þetta. Nú er frv. komið fram, og hefir enginn ágreiningur orðið um það í Ed. Sama niðurstaða varð í sjútvn., að hún ræður hv. deild til að samþykkja frv. En nefndin klofnaði um brtt., sem einstakir nefndarmenn komu með. Annars þarf jeg ekki að fjölyrða um frv. sjálft. Aðalefni þess er í 2. og 3. gr. Jeg læt staðar numið um það. Nefndin er á einu máli um það að leggja til, að frv. verði samþ., og við munum allir greiða því atkv., hvernig sem fer um brtt.

Jeg vil þá leyfa mjer að víkja að brtt., er nefndin ber fram á þskj. 167. Meiri hluti nefndarinnar ætlast til, að skotið verði inn í 2. gr., eftir 3. lið, heimild fyrir bændur til að flytja inn erlend vinnuhjú. Nefndinni þykir ekki rjett að banna þeim þetta. Það er oft erfitt að fá þann vinnukraft, sem landbúnaðurinn þarfnast, og það ástand gæti orðið verra, ef hafin yrði stóriðja ofan á þá vinnufólkseklu, sem fyrir er. Því viljum við, að bændurnir fái þessa heimild. Við teljum enga hættu geta stafað af þessu, þar sem hin erlendu hjú myndu dreifast eitt og eitt á hin íslensku sveitaheimili, enda yrði þessi innflutningur aldrei svo mikill, að á honum bæri neitt verulega. En nú hafa komið fram mótmæli opinberlega gegn þessari till. sem varhugaverðri. En enginn nefndarmanna áleit hættu geta stafað frá þessari hlið, að gin- og klaufaveikin gæti borist með þessu vinnufólki til landsins. Jeg held nú, að engin ástæða sje til þess að leggjast á móti þessari till. vegna þess, enda er fullkomin heimild fyrir stjórnina, samkv. lögum frá 1920, til þess að setja innflutningsskilyrði gagnvart þessu fólki.

Það er augljóst mál, að þessi veiki er voðalegur vágestur, en við getum ekki lokað landinu fyrir henni. En það verður hinsvegar að setja fullkomnar varúðarreglur. Þótt menn komi ekki frá útlöndum til þess að dvelja hjer á landi sem hjú, þá getum við ekki varnað erlendum ferðamönnum að fara um landið.

Jeg skal ekki minnast á aðrar brtt., sem fram hafa komið. Skal aðeins taka það fram, að meiri hl. nefndarinnar er á móti þeim, þegar af þeim eðlilegu ástæðum, að t. d. brtt. á þskj. 170 gengur í öfuga átt við brtt. meiri hluta nefndarinnar.