12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi í raun og veru litlu að svara, því að það yrði of langt mál og leiðinlegt, ef jeg færi að eltast við allar þær fjarstæður, sem haldið hefir verið fram til þess að varna framgangi þessa máls.

Skal jeg þá fyrst víkja að ræðu hv. 1. þm. G.-K. (BK). Hann vitnaði í skýrslu um tekjur Jaðarsbrautarinnar. Jeg skal fúslega játa, að í slíkum skýrslum getur oft verið töluverður fróðleikur, ef þær eru ábyggilegar, en svo er ekki altaf. Jeg man t. d. eftir því, að háttv. 1. þm. G.-K. og hæstv. fjrh. deildu um sama mál og komust að gagnstæðri niðurstöðu hvor um sig. Annar var sjerfræðingur á þessu sviði, en hinn vitsmunamaður, sem margt hafði athugað. Þegar svona stendur á, veit jeg ekki, hverjum á að trúa. Skýrsla sú, sem háttv. þm. vitnaði í, getur á engan hátt hnekt því, sem jeg hefi haldið fram í þessu máli.

Mjer þykir undarlegt, ef hægt er að fá bílferð austur að Þjórsá fyrir 8 kr. á mann. Jeg hefi reynt það sjálfur, að það hefir verið ómögulegt. En ef svo stæði á, að 6–8 menn þyrftu að fá ferð þangað austur, þá gæti ef til vill komið til mála, að þeir gætu fengið bíl fyrir 60–80 krónur. En þegar svo er ástatt, að hrúga þurfi 6–8 manns í litla og ljelega bíla, þá er slíkt alls ekki siðuðu fólki bjóðandi. Það geta beinlínis hlotist slys af því að hrúga svo miklu í bifreiðarnar, sem þar getur mögulega rúmast. Nei, þessi flutningstæki eru alls ekki fullnægjandi. En eitt er það atriði, sem hv. þm. (BK) mintist á, hve mikill kostur það er að fá vörurnar fluttar frá þeim stað, þar sem þær eru látnar úti, og alla leið heim. En svo hagar óvíða til, að það sje hægt, því að bílvegirnir liggja ekki heim að hverjum bæ. Þetta atriði er því svipað, hvort heldur er um járnbraut eða bílvegi að ræða.

Hv. þm. óskaði þess, að hægt yrði að snúa málinu á þá braut, að fá Titan til þess að leggja akveg austur, í staðinn fyrir járnbraut. Þetta álít jeg, að hafi ekki verið af alvöru talað, og þarf því ekki að fjölyrða um það.

Jeg má nú til að fara fljótt yfir sögu, þótt margir hafi bent til mín smáskeytum. Jeg ætla þá að minnast á þær mótbárur, sem hv. 2. landsk. (IHB) kom fram með viðvíkjandi þessu máli. Jeg vil segja það, að mig furðar talsvert á því, að þessi hv. þm. skyldi viðhafa stór orð um það, að þetta mál væri hjegómamál. Jeg tel þetta ofmælt og eins hitt, að það sje flaustursmál.

Aðalsannanir þessa hv. þm. fyrir ágæti bílflutninganna og bílveganna, en til hnekkis járnbrautunum, voru þær, að bílarnir væru ódýrari í rekstri og viðhaldi. Jeg veit ekki, á hverju hv. þm. byggir þetta. En jeg hefi rannsakað þetta og ekki getað komist að annari niðurstöðu en þeirri, að þegar athugað er alt það fje, sem lagt er í bílakaup og viðhald þeirra, svo og viðhald veganna, þá sje það svo geysilegt, að það slagi hátt upp í járnbrautarverð, þótt ekki sjeu teknir aðrir bílar en þeir, sem fara um þetta járnbrautarsvæði. Svo ber á það að líta, hversu mikinn vinnukraft þarf til allra þessara bíla, þar sem heil stjett manna hefir myndast, er skiftir hundruðum manna og þessa atvinnu stundar. Og þetta er kjarni ungu kynslóðarinnar, því að til þessa starfa veljast efnilegir menn. Þegar þetta alt er athugað, þá held jeg, að bílar sjeu þau allra dýrustu flutningatæki, sem til eru hjer á landi. Jeg skal ekki neita því, að það er ánægjulegt að ferðast með bíl á góðum vegum. En nú er svo ástatt, að allur almenningur getur ekki veitt sjer þá ánægju. Því skal ekki neitað, að bílar geti talist viðeigandi flutningatæki í kaupstöðum og nágrenni þeirra, en alls ekki sem frambúðarfarartæki á löngum leiðum, og allra síst yfir fjallvegi að vetrarlagi. Það kom fram sama óskin hjá þessum háttv. þm. og hjá hv. 1. þm. G.-K., um það, að Titan legði fram fje í bílveg austur. Jeg hefi enga von um slíkt, eins og jeg tók fram áðan. Svo komst hv. þm. (IHB) að þeirri niðurstöðu, að væri sjerleyfi veitt og árangur yrði af því, mundi leiða af því tjón og töf fyrir störf þingsins. Jeg lít nú svo á, að þetta sje frekar tilfinningamál fyrir þessum hv. þm., og sumir líta svo á, að vel geti farið á því, að tilfinningarnar í sumum tilfellum beri skynsemina ofurliði. En það fer aldrei vel á því í stjórnmálum.

Þá ætla jeg að víkja að háttv. 5. landsk. (JBald), því að hann gerði tilraun til þess að snúa í villu því, sem jeg hjelt fram, en tókst það ekki.

Honum fanst jeg hafa farið lítilsvirðingarorðum um till. hans, sem hjer liggja fyrir. Það hefi jeg alls ekki gert. En það er rjett, sem hann sagði, að jeg hefði haldið því fram, að stefna mín væri, að við ættum að forðast óviðeigandi till., sem ekkert gera annað en spilla málinu, og þess vegna lagðist jeg á móti till. hv. þm. Jeg hafði gert grein fyrir því áður, að æskilegt væri, að deildin gerði enga breytingu á frv., til þess að stofna því ekki í hættu með því að láta það fara aftur til Nd. Skoðun mín hefir ekkert breyst á þessu máli. Því betur sem jeg athuga það, því betur sannfærist jeg um ágæti þess.

Þá sagði þessi hv. þm., að sjer virtist það bera vott um heldur ljelegt siðferðisástand að lýsa því. hver niðurstaðan hefði orðið af rekstri þeirra útlendu fyrirtækja, sem hjer hefðu starfað, og hver hefðu orðið afdrif þeirra. Jeg skil ekki, hvað þm. meinti með þessu, því ekki gaf jeg neitt tilefni til slíkra ályktana. Hann sagði, að jeg hlakkaði yfir óförum þessara fyrirtækja, en þessi ummæli hljóta að vera sprottin af einhverri meinloku í hans eigin höfði. Jeg sagði, að það útlent fje, er hjer yrði lagt fram til atvinnurekstrar eða samgöngubóta, hlyti að auka þjóðarauðinn, ef vel væri um alt búið, og verða þjóðinni að miklum notum. Því hefi jeg altaf haldið fram, og það verður erfitt að fá mig til að víkja frá þeirri skoðun.

Þessi hv. þm. lýsti yfir því, að hann mundi greiða atkvæði með þessu máli, ef hann hefði vissu fyrir því, að fjelagið gæti lagt fram 4–5 milj. kr. Jeg skil ekki, að það gæti fullnægt hans kröfum, þótt það sje rjett, að 4–5 milj. kr. í viðbót við landssjóðstillagið nægðu nokkurnveginn fyrir brautinni. En fyrir honum virðist ekki járnbrautin aðalatriði, heldur virkjunin. En jeg legg áherslu á það, og hefi von um það, að ef þetta fyrirtæki kemst fram, þá fari að rofa fyrir því, að hægt sje að nota þá orku, sem landið hefir að geyma, en sem vegna fátæktar og úrræðaleysis okkar hefir legið ónotuð. Þess vegna hjelt jeg, að þessi hv. þm. væri svo víðsýnn, að hann vildi ekki leggja stein í götu þessa máls, ef hann álítur, að fossavirkjun væri eitt stærsta framfaraskilyrðið fyrir okkar þjóð. Annars kom fram mótsögn hjá hv. þm., er hann hjelt því fram, að það væri ávinningur fyrir fjelagið að fá sjerleyfið, jafnhliða því, sem hann sló því föstu, að fjelagið gæti ekki hagnýtt sjer orkuna. Ef þetta er ekki mótsögn, þá veit jeg ekki, hvað á að nefna því nafni. Það er allerfitt að greiða úr þessari hugsanaflækju hv. þm. Mig furðar á því, að jafnskýr maður og hv. þm. skuli bera fram röksemdir, þar sem kennir beinna mótsagna. Svo endaði hv. þm. mál sitt með því að segja, að allar áætlanir vantaði um starfstilhögun fjelagsins og um það, hvernig það ætlaði að hagnýta sjer orkuna. Hann sagði, að fyrst hefði fjelagið þurft að byggja fullkomna grind, þannig að alt væri fyrirfram ákveðið. En mjer finst hv. þm. vera kominn inn í einhverja grind sjálfur; að hann bindi sig um of við úreltar fræðikenningar, sem hann hefir tekið að erfðum frá þeim mönnum, sem í upphafi vega hafa lagt grundvöllinn að þeirri stefnu, sem hann fylgir. Þótt kenningarnar kunni að hafa verið viðeigandi í fyrstu, verður nú samt að sveigja til á ýmsar hliðar, ef alt á ekki að verða aðeins hringhlaup á of þröngu svæði.

Svo sagði hv. þm. í niðurlagi ræðu sinnar, að þetta mál gæti ekki annað en orðið þinginu til vansæmdar. Jeg álít, að það yrði þinginu frekar til vansæmdar, ef málið yrði felt aðeins fyrir tilhneigingu sumra hv. þdm. til þess að hártoga alt út í ystu æsar, án þess að þeir hugsi sjer nokkurn árangur af því. Jeg býst nú við, að jeg megi til að hverfa frá þessum hv. þm. í bráð, en mjer leikur grunur á því, að hann þurfi að opna hjarta sitt enn á ný, og þá vonast jeg til að fá að gera aths.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) þarf jeg litlu að svara. Hann var hógvær sem hans er vani. Honum þótti verst, hvað nál. samgmn. hefði verið stutt og ekki nógu ítarlegt. En sje svo, þá bæta umr. það upp. Svo höfum við fengið skýrslu, sem setja hefði mátt í nál., ef hún hefði þá verið komin fram.

Ef aðeins er um það að gera að eyða pappír, þá hefði mátt semja fyrirferðarmikið nál. En þetta má víst skoða sem ástæðulaust gaspur, því að ekki hefir mjer fundist öll nál. allshn. vera sjerlega fyrirferðarmikil eða innihaldsrík. Samt hefi jeg aldrei haft orð á því. Þetta er jeg þá sanngjarnari en þessi hv. þm. Þá hjelt hv. þm., að jeg hefði komist í mótsögn við sjálfan mig, er jeg lýsti till. til bóta, en vildi þó ekki, að hún yrði samþykt. Þetta er ekki rjett. Jeg sagði, að þeir, sem fyrir þeim hefðu talað, hefðu álitið þær til bóta, svo að þetta er engin mótsögn.

Jeg ætla ekki að eltast við smámuni, en vil að endingu taka það sem skýrast fram, að fyrir mjer vakir það, að jeg álít það ekki áhorfsmál, að nauðsynlegt sje að gera þessa tilraun, því að við höfum alt að vinna, en engu að tapa, því að fjelaginu er gefinn 2 ára frestur til þess að útvega sjer fje. Fyrirtækinu á að vera lokið innan 6 ára og á 7. ári á virkjunin að byrja. Jeg sje ekki annað, ef þetta alt gengur fram, en að hjer sje um stóran sparnað að ræða, mikil útgjöld spöruð fyrir ríkissjóðinn. Í frv. er sett trygging fyrir því, að fjelagið starfræki járnbrautina, og stjórnin getur haft það eftirlit með fyrirtækinu, að það komi að sömu notum eins og þótt það væri rekið á kostnað ríkisins.

Menn geta ekki sjeð það fyr en eftir vissan árafjölda, hvort járnbrautin ber sig. En þá er það í lófa lagið fyrir ríkið að taka að sjer reksturinn, ef álitið verður, að það sje því hagkvæmt. Það þýðir ekki neitt að vera í marga daga með vafninga um málið. Andstæðingar þess geta vonandi ekki felt það, því þeir verða varla nógu margir til þess.

Jeg vil að endingu ráðleggja hv. 5. landsk. (JBald) að gera nú ekki fleiri tilraunir til þess að fella málið, því jeg held, að hann sje svo vel innrættur maður, að hann mundi iðra þess, þó síðar verði.