12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2827 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. (JBald) gerir of mikið úr okkur báðum, er hann staðhæfir, að það sje vonlaust, að fossafjelagið Titan geti haft nokkuð upp úr raforku þeirri, er það kann að framleiða, vegna þess að jeg hefi ekki getað gefið honum skýrslu hjer um það, hvernig fjelagið hefir hugsað sjer að nota orkuna. Jeg get ekki annað en verið ánægður með hin loflegu ummæli í minn garð, sem felast í þessari fullyrðingu hv. þm.

Það eru nú 7 ár síðan jeg kynti mjer þetta mál, til hverrar iðju hægt væri að nota sem best raforku frá svo stórri stöð sem hjer er um að ræða. Gerði jeg grein fyrir niðurstöðu minni í því efni í ritgerð, sem finna má í nefndaráliti meiri hluta fossanefndarinnar. En það er svo um þessa efnavinslu, að erfitt er að halda um hana fyrirlestur, er auðskilinn sje mönnum, sem ekki hafa þekkingu í efnafræði og þar að lútandi greinum. Jeg held því, að það sje alger óþarfi fyrir hv. þm. að vera svo vonlaus fyrir hönd Titans, þó að jeg sjái mjer ekki fært að halda slíkan fyrirlestur hjer í þingdeildinni.

Það er rjett, sem hæstv. atvrh. tók fram um rafmagnsverðið í Reykjavík, að það samsvarar 600 kr. á ári á hestafl. Það kostar 65 aura kwst. til ljósa, og það er algengast að reikna 1500 ljósstundir yfir árið, en það verða 975 kr. árskw. til ljósa, er samsvarar 600 kr. fyrir hestaflið yfir árið.