20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf að segja fáein orð út af brtt. frá hv. 2. þm. Rang. (EJ) og hv. 1. landsk. (JJ). Um brtt. hv. 2. þm. Rang. hefi jeg það að segja, að jeg mun láta afskiftalaust, hvort hún verður samþykt, þar sem frv. þarf hvort sem er til Nd. aftur. Jeg sje ekki, að brtt. skifti miklu máli. Jeg geng út frá, að skaðabætur verði metnar með tilliti til þeirrar verðhækkunar á þessum stöðum, sem af mannvirkjunum leiðir. En sem sagt, jeg skifti mjer ekki af, hvort tillagan verður samþykt.

Brtt. hv. 1. landsk. fer í svipaða átt og brtt., sem hann flutti við 2. umr., en tók þá aftur þann hluta, sem hjer kemur fram. Jeg get svarað líku nú og þá, að ekki kemur til mála, að ríkissjóður gerist ábyrgur fyrir neinni skuldbindingu sjerleyfishafa. Ef jeg gef út sjerleyfið, er jeg fús á að taka þetta upp, en jeg tel ekki rjett að samþ. till. eins og hv. flm. orðar hana. Mjer finst felast í þessari till., að fjelagið kunni að geta gert einhverjar skuldbindingar viðvíkjandi þessum 2 miljónum. í till. stendur: „— ríkissjóður er á engan hátt, beint eða óbeint, ábyrgur fyrir skuldbindingum sjerleyfishafa, nema að því er snertir ofannefndar 2 milj. kr. í járnbrautarlagninguna“ — o. s. frv. Það getur ekki verið meining hv. þm., að sjerleyfishafi geti skuldbundið okkur á nokkurn hátt, heldur hefir hann víst orðað tillöguna svona af athugaleysi. En jeg get ekki mælt með því, að hún sje samþykt svona orðuð. Að öðru leyti hefi jeg ekki mikið um ræðu hans að segja. Mjer fanst hann þó segja nokkuð hlutdrægt frá meðferð járnbrautarmálsins á þinginu í fyrra. Hann veit vel, að ástæðan til þess, að það komst ekki í gegn, var sú, að þingmenn þorðu ekki eða vildu ekki leggja út í að láta ríkissjóð leggja járnbrautina á eiginn kostnað. Hann talaði mikið um, að ekkert mundi verða úr þessum framkvæmdum, en áleit þó, að þetta væri krókur, sem nauðsynlegt væri að fara. Jeg get ekki gengið inn á, að sennilegra sje, að ekkert verði úr framkvæmdum. En að þetta verði til að tefja fyrir járnbrautinni, er alveg rangt. Jeg hefi sýnt fram á, að engar líkur eru til þess, að ríkissjóður geti lagt fram fje til byggingar járnbrautar fyrir þann tíma, sem Titan eða sjerleyfishafa er ætlað að byrja.

Háttv. þm. Snæf. (HSteins) sagði líka nokkur orð. Hans afstaða er hrein. Hann er bæði á móti virkjun og járnbraut. Á móti járnbrautinni er hann sökum þess, að hann telur bifreiðarnar vera framtíðarsamgöngutæki okkar. Um þetta hefir mikið verið rætt, og skal því ekki farið út í það hjer. En undarlegt þykir mjer það, ef bifreiðar eiga að koma í staðinn fyrir járnbrautir, að þá skuli hjer í álfu árlega vera bygðar járnbrautir svo þúsundum kílómetra skiftir.

Þá skildist mjer hann vera á móti virkjuninni meðal annars af því, að hann óttaðist þjóðernishættu af innflutningi verkafólks. Gerði hann og ráð fyrir, að vinnukrafturinn myndi mestur verða erlendur. Þetta er ekki rjett; það er hægt að nota mikinn innlendan vinnukraft, svo ekki þyrfti að fá nema tiltölulega fátt erlendra manna.