20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Í tilefni af ummælum hv. þm. Snæf. (HSteins) vil jeg taka það fram, að mjer finst of mikið gert úr innflutningi á erlendum vinnukrafti, ef fyrirtæki þetta kemst í framkvæmd. Jeg held, að menn athugi ekki eins og skyldi, að fjölgun landsmanna er árlega á ellefta hundrað, og fjölgun verkfærra manna því árlega 300–400.

Þó að alt gengi nú að óskum sjerleyfishafa, má ekki búast við, að þetta komist alt í framkvæmd á skemri tíma en svo sem 10 árum; verður því ekki þörf á meiri vinnukrafti við framkvæmdir þessar en sem svarar hluta af hinni árlegu fólksfjölgun. Það væri vitanlega æskilegt, að landbúnaðurinn gæti tekið við þessari fólksfjölgun, en hann er ekki svo rekinn, að hann geti tekið við henni ennþá. Jeg held því, að heppilegt væri, að eitthvert það fyrirtæki risi upp, sem um tíma gæti tekið á móti einhverju af þessari fólksfjölgun, svo að fólkið þyrptist ekki alt til Vestmannaeyja, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, eins og verið hefir nú undanfarið.

Annars er jeg ekkert hræddur við þjóðernishættu, þó að dálítið flytjist inn af erlendum verkamönnum, meðan verið er að koma fyrirtækinu í framkvæmd, sem jeg tel óvíst, að myndi þurfa.