20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Kristjánsson:

Jeg get ekki stilt mig um að segja hjer nokkur orð, enda þótt hæstv. forsrh. hafi tekið sumt af því fram, sem jeg vildi tala um.

Það renna vitanlega allir hálfblint í sjóinn með það, hvernig þessi járnbraut myndi bera sig í framtíðinni. En það er þýðing járnbrautarinnar fyrir ræktun landsins, sem knýr mig til þess að greiða máli þessu atkvæði mitt nú.

Þegar maður lítur yfir hið víðlenda og grösuga Suðurlandsundirlendi og athugar jafnframt samgöngur þær, sem hjerað þetta á nú við að búa, verður það fljótlega ljóst fyrir manni, að gæði þess verða aldrei íbúunum þar að fullu eða verulegu gagni, nema samgöngurnar verði bættar frá því, sem nú er. Eins og nú er ástatt, kostar að flytja tonnið hjeðan austur að Stórólfshvoli ca. 80 kr., slíkar samgöngur geta aldrei hjálpað ræktun hjeraðsins; verður því allmikið að bæta úr þeim, ef hinar miklu áveitur, sem búið er að gera austanfjalls, eiga að geta borið sig og komið að fullum notum.

Eins og hæstv. forsrh. tók fram, fjölgar landsbúum árlega, og það ekki svo lítið, og að sjálfsögðu er æskilegast, að sem flestir þessir menn setjist að í landinu sjálfu, en til þess að þeim geti öllum liðið vel, þarf eitthvað fyrir þá að gera. Finst mjer þá liggja beinast við að gera þessu fólki mögulegt að stofna nýbýli, og er þá Suðurlandsundirlendið best til þess fallið að stofna þar nýbýli, fyrir flestra hluta sakir, en til þess þarf járnbraut að gera flutninga ódýrari en þeir nú eru hjeðan og austur yfir fjall.

Það er nú komið svo, að útflutningsvörur okkar eru í mjög lágu verði, og ekki útlit fyrir, að þær hækki í náinni framtíð. Væri því óneitanlega æskilegt að fá nýjar framleiðsluvörur á markaðinn, t. d. tilbúinn áburð. Myndi hann áreiðanlega verða ódýrari, ef hann væri framleiddur hjer, heldur en fá hann frá útlöndum. Og ódýr áburður myndi verða hin mesta lyftistöng fyrir landbúnaðinn og landið í heild sinni. Jeg greiði því frv. þessu atkvæði í þeirri trú og von, að það megi verða íslenskum landbúnaði til umbóta og þrifa, meðal annars með því, að hann notfæri sjer þá þekkingu, sem vísindin færa okkur í hendur, og á þann hátt orðið samkepnisfærari í baráttunni fyrir tilverunni.