27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Hjeðinn Valdimarsson:

Það eru aðeins örfá orð til hæstv. atvrh. Hann ljet svo sem hann vissi ekki, að unnið hefði verið að því í bæjarstjórn Reykjavíkur, að Sogsfossarnir yrðu virkjaðir áður en kannske langt um líður. Hann fylgist ekki mikið með málum Reykjavíkurbæjar, þegar hann veit ekki, að mikill hluti Reykvíkinga er því fylgjandi, að Sogið sje virkjað og þaðan leitt rafmagn hingað til bæjarins.

Í öðru lagi mætti minna á, að í bæjarstjórn Reykjavíkur er nefnd starfandi, sem vinnur að undirbúningi þessa máls. Og í þriðja lagi mætti nefna það, sem hæstv. atvrh. ætti þó að vita, að stjórnin hefir lagt fje til rannsóknar þessu máli, meðal annars með því að kosta stöðugar mælingar á vatnsmagni Sogsins, sem vitanlega eru gerðar í sambandi við væntanlega virkjun.

Jafnframt vil jeg minnast lítilsháttar á þetta atriði, sem hæstv. atvrh. verður einna skrafdrjúgast um og heldur mest á lofti, en það er þetta ódýra rafmagn, sem verður á boðstólum, þegar farið verður að virkja Urriðafoss. Þessu hefir hann verið að hampa frá því fyrst að hann tók að sjer að koma þessu máli fram; en ekki kæmi mjer á óvart, að eitthvað yrði minna úr þessu en ráð er fyrir gert.

En hugsum okkur, að alt fari vel og virkjun Urriðafoss komist á, þá verður það þó ekki fyr en 1933, að Reykjavíkurbær getur orðið aðnjótandi þessa ódýra rafmagns. En það er áreiðanlegt, að fyrir þann tíma þarf að fá rafmagn hingað til bæjarins, ef framkvæmdirnar verða það hraðstígar og líkar því, sem þær hafa verið fram að þessu.

Þá sagði hæstv. atvrh., að báðir þessir möguleikar, að leggja fram fje til járnbrautarlagningar og veita sjerleyfi til þess, tefðu ekki fyrir þessari samgöngubót. En jeg vil þó benda á, að með því að binda þetta í tvö ár verður þó ekki hægt á þeim tíma að veita öðrum leyfi til framkvæmdanna. Svo að verði ekkert úr framkvæmdum fjelagsins, er tafið fyrir járnbrautinni þessi tvö ár, sem sjerleyfið gildir.