27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Jeg get fallist á, að langar umr. um málið úr þessu hafa enga þýðingu, enda er það ekki mikið, sem jeg hefi við að bæta.

Hæstv. atvrh. vildi draga það út úr orðum mínum áðan, að jeg mundi fallinn frá annari aðalástæðunni, er jeg færði fram gegn frv., er það var hjer á ferðinni í fyrra skiftið. Þetta er nú víst ekki meining hæstv. ráðherra, heldur smávegis útúrsnúningur á orðum mínum. Enda er jeg alveg sömu skoðunar og áður um það, að verði úr þessum framkvæmdum, sem frv. gerir ráð fyrir, þá geti það orðið stórhættulegt fyrir þjóðerni okkar og sjálfstæði. Hitt er annað mál, að síðan frv. fór hjeðan úr deildinni, hafa fengist þær upplýsingar, sem hafa sannfært mig betur um það, að litlar eða engar líkur sjeu til þess, að úr þessum framkvæmdum verði. Og meðal annars af því, að eigi að virkja jafnmikið og ætlast er til, þá þurfi ekki aðeins þessar 40 miljónir kr., sem altaf er verið að tala um, heldur megi gera ráð fyrir, að til virkjunarinnar og annara nauðsynlegra framkvæmda í sambandi við hana þurfi að minsta kosti 80 miljónir, eða jafnvel 100 miljónir.

Hv. frsm. sagði, að Urriðafoss ætti ekki að virkja allan í einu, heldur smám saman, en það þýðir vitanlega ekki annað en það, að þá þarf minna fje, en fyrirtækið verður ekkert glæsilegra fyrir það,

Hv. frsm. vissi ekki, að sjerfræðingur væri hjer til, sem fá mætti upplýsingar hjá í þessu efni. Því undarlegra þykir mjer þetta, þegar þess er gætt, að til þessa sjerfræðings leitaði einmitt fjhn. í fyrra, þegar hún hafði til meðferðar frv. um sjerleyfi til Dynjandafjelagsins.

Mjer þykir undarlegt, að bæði hv. frsm. og hæstv. atvrh. skuli halda fast við það, sem þeir hjeldu fyrst fram, að samkvæmt frv. sje fjelaginu skylt að leggja fyrir sig áburðarvinslu. En þetta er ekki rjett. Frv. felur ekkert annað í sjer en að veita fjelaginu sjerleyfi til framkvæmda þeirra, sem taldar eru upp í 1. gr. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa enn einu sinni upp úr 1. gr. þetta margumþráttaða atriði.

Greinin hefst með því, að „atvinnumálaráðherra sje heimilt“, meðal annars sem upp er talið, að veita hlutafjelaginu sjerleyfi til „að reisa iðjuver til saltpjetursvinslu og annarar iðju til hagnýtingar raforkunni“.

Hvernig getur nú hæstv. atvrh. fengið það út úr orðalagi 1. gr., að fjelaginu sje skylt að leggja fyrir sig áburðarvinslu? Það getur reist iðjuver, en það liggur engin skylda á því að leggja fyrir sig áburðarvinslu.

Svo er það 7. gr., og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upphaf hennar líka. Hún byrjar svo: „Skylt skal sjerleyfishafa, þegar komin er á fót vinsla köfnunarefnisáburðar, að láta ríkisstjórninni í tje“ áburð þann, sem til er tekinn. Þarna er skyldan miðuð við það, að áburðarvinslan sje komin á, en ekkert um það sagt, að hún skuli verða sett á stofn. Annars ber það ekki vott um, að hæstv. atvrh. og hv. frsm. finnist málstaður sinn góður, þegar þeir vísvitandi rangfæra orðalag frv., sem allir hv. þdm. hafa fyrir framan sig.

Hjer kom fram við 2. eða 3. umr. till. frá hv. þm. Str. (TrÞ), sem fór fram á, að sjerleyfishafa væri beinlínis gert það að skyldu að leggja fyrir sig áburðarvinslu. En hæstv. stjórn og hv. frsm. lögðust með miklum þunga á móti henni, enda var hún feld.

Það mun heldur ekki þurfa að gera ráð fyrir, að fjelagið ráðist í áburðarvinslu, og það af þeirri einföldu ástæðu, að það getur ekki orðið samkepnisfært á markaðinum með þá vöru sína. Eftir þeim upplýsingum, sem Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri hefir gefið, þá er hestorkan til köfnunarefnisvinslu reiknuð á 13 kr. í Noregi, en hjer er gert ráð fyrir, að hestorkan muni aldrei kosta undir 50 kr. Og hvernig gæti þá komið til mála, að þetta fjelag kepti um áburðarvinslu við stóriðjufjelög í Noregi, sem hafa ráð á margfalt ódýrari orku?

Þá vjek hæstv. atvrh. að því, að embættisbróðir hans, hæstv. forsrh., bæri fult skynbragð á þessa hluti. Jú, jeg efast ekki um það, en hann hefir ekki fengist til að láta uppi álit sitt um þetta atriði. Um það hefir hann vendilega þagað. Hann var hjer viðstaddur við 1. umr. og ljet sig engu skifta, er deilt var um þetta atriði. Og hann tók þátt í umr. málsins í hv. Ed., en mintist ekki einu einasta orði á það, að fjelagið mundi leggja fyrir sig áburðarvinslu. Þögn hæstv. forsrh. um þetta þýðingarmikla atriði virðist ótvírætt benda á það, að hann hafi enga trú á, að fjelagið leggi fyrir sig þessa iðju.

Hæstv. atvrh. gaf í skyn, að Titan hefði eins góðum sjerfræðingum á að skipa og Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra, og hæstv. forsrh. þá víst líka, og að þessir sjerfræðingar sæju fyrirfram, hvort slíkt fyrirtæki sem þetta væri dauðadæmt eða ekki, og hvað Titan snertir, þá hefði þessum norsku sjerfræðingum reiknast svo til, að vonir væru um allgóðar tekjur af starfrækslunni. Jeg byggi nú ekki svo ýkjamikið á slíkum staðhæfingum sem þessum. Það er vitanlegt, að í Noregi hefir tekist að útvega fje til þess að reisa orkuver fyrir, sem aldrei varð notað, og þó höfðu sjerfræðingarnir reiknað út, að fyrirtækið mundi bera sig. Þeir, sem lögðu fram fjeð, gerðu svo kröfu til ríkissjóðsins um að fá sitt fje endurgreitt, þegar sjeð var, að ekkert varð úr framkvæmdunum. Þeir kunnu því illa að vera gabbaðir og töldu sjálfsagt, að ríkið bæri ábyrgð á framferði þegna sinna.

Slík dæmi sem þetta ættu að vera okkur til varúðar, því vafalaust gæti það verið okkur hættulegt, að hafa stuðlað að því með löggjöf að fá hingað erlent fje í mislukkað fyrirtæki, og því fremur er þetta hættulegra, ef ríkið gerist óbeinlínis hluthafi í fyrirtækinu, með því að leggja í það 2 milj. kr.

Það er alls ekki mín meining, eins og hæstv. atvrh. virtist gera ráð fyrir, að gerast fjárhaldsmaður þessa fjelags. Mjer stendur alveg á sama, hvernig það sóar fje sínu, hafi það eitthvað handa milli. Jeg hefi með því, sem jeg hefi sagt hjer, viljað gera fulla grein fyrir afstöðu minni til málsins á hinu háa Alþingi.

Hæstv. atvrh. og hv. frsm. reyndu báðir að mótmæla því, að járnbrautarlagningin og aðrar framkvæmdir í sambandi við hana gætu tafist um óákveðinn tíma, ef frv. þetta yrði að lögum. Og hv. frsm. árjettaði þessa skoðun sína með því, að allir, sem eitthvað væru kunnugir fjárhag ríkissjóðs, mundu vita, að í járnbraut yrði ekki lagt á næstu árum. En jeg bjóst ekki við slíkum barnaskap, sem lýsir sjer í því að halda, að framkvæmd slíks fyrirtækis sem járnbraut er miðist við augnablikshag ríkissjóðs. Járnbrautin verður vitanlega lögð undir eins og þingið skipar svo fyrir. En hún verður ekki bygð fyrir árstekjur ríkissjóðs, heldur með lánsfje. Þess vegna væri eðlilegt, að byrjað væri á henni í slæmu árferði og bæta með því úr atvinnuleysi fjölda manna. Ef menn hafa yfir höfuð trú á, að járnbrautin sje sú samgöngubót, sem sumir fylgismenn hennar halda fram, þá eiga þeir að berjast fyrir því, að hún komi sem fyrst og að ríkið leggi hana.

Hæstv. atvrh. sagði, að það væri svo stuttur tími þangað til sjeð væri fyrir, hvort fjelagið byrjaði á járnbraut eða ekki.

Það er nú svo.

Á þinginu í fyrra var frv. um byggingu járnbrautar lagt hjer fram í fullri alvöru og með það fyrir augum að byrja á framkvæmdunum; og mjer er nær að halda, að hefði frv. verið fast og einarðlega fylgt, þá hefði þessu máli verið borgið.

Þess vegna verð jeg að líta svo á, að þetta frv., sem hjer er á ferðinni, hafi þegar orðið til þess að tefja málið, ef menn á annað borð vilja ráðast í að leggja járnbraut. En um það skal jeg ekkert fullyrða, hvort þingið hafi þá afstöðu nú til málsins, að það vilji ráðast í slíkar framkvæmdir. Um það hefir ekkert verið upplýst, enda forðast á allar lundir, að þingið láti uppi álit sitt í því efni.

Annars skal jeg taka það fram, að jeg er enn sömu skoðunar og þegar frv. var hjer á ferðinni áður, um það, að landi og þjóð geti stafað hætta af, ef slík stórfyrirtæki komast á fót í landinu og verða rekin áfram fyrir erlent fje. Sú skoðun mín er óbreytt, að jeg tel þetta stórhættulegt, sem vafalaust mundi leiða til tortímingar fyrir sjálfstæði landsins og þjóðerni. En út í það tel jeg óþarft að fara frekar nú og vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt, enda engin ástæða til frá minni hendi að vekja þær umr. á ný. Stuðningsmenn frv. hafa á engan hátt gert tilraun til þess að vjefengja eða draga úr þeim líkum, sem jeg hefi fært fram fyrir hættu þeirri, sem þjóðinni stafar af slíkum stórfyrirtækjum. Enda geta þeir það ekki. Það eru til mýmörg dæmi úti um allan heim, sem sýna, hvaða áhrif það getur haft, þegar stór fjelög með nógu fjármagni ná tökum á fyrirtækjum í litlu landi og hjá fámennri þjóð.

Hæstv. atvrh. vill ekki ganga inn á, að sú breyting, sem var gerð á 11. gr. frv. í hv. Ed., fari í líka átt og brtt. frá mjer, sem feld var hjer við 2. umr. Jeg finn ekki, að þar sje mikill munur á. Í minni brtt. stendur: „ef sjerleyfishafi hættir að reka fyrirtækið án samþykkis ráðherra, skal járnbrautin með öllu tilheyrandi verða eign ríkissjóðs endurgjaldslaust“.

En 4. málsliður 11. gr. frv. eins og það kemur frá hv. Ed. hljóðar svo:

„Járnbrautin öll með stöðvarhúsum, eimvögnum og öðrum vögnum og áhöldum skal jafnan standa að veði fyrir því, að sjerleyfishafi reki járnbrautina og haldi henni við ...“

Hvað þýðir að hafa veð í þessu tilfelli? Vitanlega ekkert annað en það, að ef sjerleyfishafi stendur ekki við skuldbindingar sínar, þá hlýtur járnbrautin með því, sem henni fylgir, að falla til ríkissjóðs. Annars vildi jeg mælast til að fá upplýsingar um það nú þegar, hvort þetta ákvæði geti þýtt eitthvað annað. Jeg fæ að minsta kosti ekki betur sjeð en að eftir orðanna hljóðan falli járnbrautin og það, sem henni fylgir, til ríkisins endurgjaldslaust, ef fjelagið eða sjerleyfishafi stendur ekki við skuldbindingar sínar. Endurgjaldslaust, eða ef koma ætti fult endurgjald, til hvers er þá að hafa veð? Nei, það væri tilgangslaust. Þá er það rangt hjá hæstv. atvrh. að halda því fram, að till. mín sje brot á stjórnarskránni, og það undrar mig mjög, að hæstv. ráðh. skuli segja slíkt. Till. mín fer ekki fram á annað en að gerður sje samningur við sjerleyfishafa, og haldi hann ekki gefin loforð, þá sje honum skylt að greiða sekt. Þessi sekt er járnbrautin með öllu, sem henni tilheyrir. Hæstv. atvrh. kemst enga leið með að halda því fram, að till. mín sje brot á stjórnarskránni. Ákvæði 11. gr. frv. er ekki brot á stjórnarskránni, og ekki getur það falið í sjer annað en það, sem till. mín á þskj. 221 ræðir um.