27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Hjeðinn Valdimarsson:

Það er ekki í fyrsta sinn, sem hæstv. atvrh. rangfærir orð mín. Það hefir víst enginn nema hann heyrt mig segja, að það vantaði aðeins herslumuninn til þess, að Sogið yrði virkjað. Jeg sagði, að ekki væri hægt að bíða eftir Titan með þörf bæjarins. Bærinn verður annaðhvort að láta virkja vatnsfall eða nota hitann úr hverunum á Reykjanesi. Það er ekki nema um þetta tvent að gera, þótt órannsakað sje enn um möguleika hveraorkunnar. — Líklega væri betra að virkja vatnsfall, og þá er sjálfsagt að taka það vatnsfall, sem næst er og ódýrast til virkjunar, sem sje Sogið. Hæstv. atvrh. endaði með að skýra frá því, að þetta hefði verið undir rannsókn, og gat þess, að fje vantaði, og er þá komið undir vilja stjórnarinnar, ef til hennar kasta kemur.

En ef ekki er hægt að virkja Sogið, — hvað er þá að segja um Titan, sem sannanlegt er, að hefir ekkert fje? Jafnvel talsmenn þess fjelags viðurkenna, að það hafi ekki fje. Nú hefir það komið fram hjá hæstv. atvrh., að fjelagið ætli sjer að selja alla þá orku, sem það getur, en aðeins nota afganginn sjálft, og á það þá aðallega að vera orkusala, en ekki stóriðja eins og upprunalega var látið í veðri vaka.

Og þó að Titan hefði nóga orku til sölu, þá eru þeir annmarkar á, að í fyrsta lagi kemur það svo seint, í öðru lagi er hægt að virkja Sogið í smáum stíl fyrst og bæta svo við sig, og í þriðja lagi yrði rafmagnið miklu dýrara hjá Titan.

Hæstv. forsrh. (JÞ) mun og hafa haft augun opin fyrir því, að nauðsynlegt væri fyrir bæinn að geta gripið til Sogsins, því að þegar hann var í bæjarstjórn Reykjavíkur, gekst hann fyrir því, að bærinn eignaðist vatnsrjettindi þar.

Hv. frsm. fjhn. gat þess snemma í umr. um þetta mál, að hann gerði sjer von um, að byrjað yrði á járnbrautarlagningu ná í sumar, og vil jeg nú beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann hafi enn sömu vonir um þetta.