20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Þótt nefndin væri sammála um ýmsar till., sem hv. frsm. meiri hl. (BK) hefir skýrt frá, fór samt svo, að jeg gat ekki orðið samferðá öðrum meðnefndarmönnum mínum, af því að þeir vildu ekki fallast á till., sem jeg áleit nauðsynlegar. Það er nú svo í nefndum, að þegar þær klofna á annað borð, hrekkur oft samkomulagið upp af í fleiri atriðum en þeim, er ágreiningi valda. Jeg beini því til hv. meiri hl., að afstaða mín nú við afgreiðslu málsins mun verða nokkuð önnur en við atkvæðagreiðslu í nefndinni meðan von var samkomulags. Jeg skoða svo, að sú atkvæðagreiðsla hafi ekki þýðingu, eftir að svo er komið, að leiðir skiftast. Þennan varnagla slæ jeg nú þegar.

Það, sem jeg gerði ágreining út af í nefndinni, var endurkaupaskylda Landsbankans á viðskiftavíxlum Íslandsbanka, úttekt bankans og svo stjórnarfyrirkomulagið. Jeg vil þó ekki segja, að jeg sje í öllum atriðum samþykkur frv. stjórnarinnar um stjórnarfyrirkomulag bankans. Jeg hefi tilhneiging til að gera breytingar á till. stjórnarinnar um það, en hefi áskilið mjer rjett til þess að láta það bíða þangað til við 3. umr. málsins og útsjeð er um brtt. háttv. meiri hl. — Brtt. mínar eru ekki margar, eitthvað 12 aðaltillögur og nokkrar smærri undirtill., sem við þær eru bundnar. Eins og hv. frsm. meiri hl. vil jeg rekja till., þótt á þær flestar sje minst í nál. mínu á þskj. 363.

Jeg hafði hálft í hvoru hugsað mjer að hafa formála fyrir ræðu minni um meðferð þessa máls. En jeg get eins látið það verða eftirmála, ef ske kynni, að hæstv. stjórn birtist þá hjer í deildinni. Jeg tek því till. fyrir strax.

Einstaka till. er hin sama og hjá hv. meiri hl., svo sem fyrsta brtt. við 12. gr. Nefndin var algerlega sammála um þá brtt., að fella niður það ákvæði að heimila að undanþiggja seðlabankann frá gullinnlausn seðla.

Það á að vera komið undir áliti, hvenær ástandið er svo sjerstakt, að rjett sje að leyfa undanþágu frá gullinnlausn seðla. Það, sem tilgreint er í 12. gr. sem ástæður fyrir slíkri undanþágu, er ófriðarástand eða afleiðingar þess, eða alveg óvenjuleg peningakreppa. Þó að slíkt geti verið sjálfsagt í ófriði, þá er að minsta kosti hitt atriðið svo lagað, að jafnan verður álitamál, hvenær um sje að ræða alveg óvenjulega peningakreppu. Því á ekki heima í almennum bankalögum að veita heimild til þess að falla frá innlausnarskyldu, heldur á að láta ríkisstjórnina bera ábyrgðina á því, að gefa út bráðabirgðalög um þetta efni, ef á þarf að halda og ekki næst til Alþingis, sem vitanlega er þar sá rjetti aðili, sem á að dæma um þörfina og hefir vald til að fyrirskipa það, er því líst. Jeg geri varla ráð fyrir, að þetta valdi ágreiningi í þessari háttv. deild. Þó skal jeg geta þess, að í fyrra bar jeg fram í Nd. brtt. við 12. gr. landsbankafrv., samhljóða þessari, en hún var feld með miklum atkvæðamun. Jeg heyrði engar ástæður fyrir því, en býst hinsvegar við, að það hafi aðeins verið einskonar fastheldni við frv. eins og það kom frá hendi hæstv. stjórnar. Mjer þykir því vænt um, að það lítur út fyrir, að þessi brtt. hafi nú nokkurt fylgi og virðist ætla að ganga greiðlega gegnum þessa háttv. deild.

2. brtt. mín stendur í sambandi við till., sem kemur við 68. gr. frv. Og þegar jeg kem að þeirri grein, mun jeg bera fram ástæður fyrir því, að jeg við 14. gr. 2. bæti við a-lið, sem segir, að bankanum skuli heimilt að endurkaupa góða viðskiftavíxla af öðrum bönkum. Annar nýr liður b við 14. gr. hljóðar um það, að bankinn veiti lán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- eða sveitarfjelaga. Sama eðlis er og sú breyting, er jeg vil gera á 28. gr., að bæta inn í verkefni sparisjóðsdeildar bankans, að heimilt sje að veita lán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga. Jeg má segja, að þetta standi í lögunum um stofnun Íslandsbanka. Að vísu má segja, að þetta standi óbeinlínis í 6. lið 14. gr. og 5. lið 28. gr. þessa frv., en mjer finst þó rjettara að taka þetta fram skýrum stöfum í frv., og get því ekki öðru trúað en að hv. deild telji sjálfsagt, að þessar brtt. mínar verði samþ.

Jeg varð þess að vísu var, að því var andæft í nefndinni að skjóta þessu ákvæði inn í 14. gr. um verkefni seðlabankans. En jeg sje ekki annað en að það sje fullforsvaranlegt af seðlabanka að veita lán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga. Seðlabankinn veitir lán gegn góðum tryggingum, og slíkar ábyrgðir sem þessar eru að jafnaði taldar góðar. Hjer getur líka verið um lengri lán að ræða, en mundi alls ekki koma til mála, að bankinn þyrfti að tapa á þeim. Það getur líka staðið svo á, að bæjar- og sýslufjelög þurfi beinlínis á rekstrarfje að halda, sem hagkvæmast verður að útvega sem víxillán til skamms tíma. Jeg þekki þetta frá Reykjavíkurbæ; hann þarf oft á rekstrarfje að halda, sem hann útvegar sjer með víxlum, er hann endurgreiðir, þegar svo mikið er innborgað af útsvörunum, að hann getur það. Þetta getur því verið nauðsynlegt í mörgum tilfellum, enda tel jeg sjálfsagt, að hv. þdm. fallist á þá brtt. mína að skjóta þessu ákvæði inn í 14. gr. frv., þar sem ákveðið er verkefni seðlabankans. (BK: Jeg held þess þurfi ekki). Það er meinloka hjá hv. frsm. meiri hl. (BK), ef hann heldur, að bæjar- og sýslufjelög þurfi ekki á slíkum lánum að halda.

Þá koma næst brtt. nokkrar að tölu, sem í raun og veru eru allar sama efnis. Það eru brtt. 4–8 ásamt allmörgum stafliðum, er lúta allar að því að breyta þeim ákvæðum frv., sem skipa svo fyrir, að einn af þremur bankastjórunum skuli vera aðalbankastjóri Landsbankans. En mínar brtt. miða að því, að það fyrirkomulag, sem nú er um stjórn bankans, skuli haldast óbreytt, að allir bankastjórarnir þrír skuli jafnrjettháir.

Í áliti því, sem milliþinganefndin skilaði um bankamálið 1925, er minst á þetta, að einn bankastjórinn sje aðalbankastjóri, og stjórnin tók það ákvæði upp í frv. það um Landsbankann, sem hún lagði fyrir þingið þá. Og hún tók það aftur upp í frv. það, sem hún lagði fyrir þingið í fyrra, og enn er því haldið, þessu ákvæði um aðalbankastjórann. Mjer finst, að þó að sá siður kunni að tíðkast erlendis að hafa aðalbankastjóra í þjóðbönkunum þar, þá bendi alt til þess, að við eigum ekki að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er hjer hjá okkur. Það hefir ekkert það komið fram í stjórn Landsbankans síðan bankastjórarnir urðu þrír, sem rjettlæti þessa breytingu. Þótt jeg sje ekki íhaldsmaður, þá vil jeg þó halda í það, sem vel hefir reynst, og ekki breyta um, nema jeg sje sannfærður um, að breytingin miði til bóta. Jeg veit ekki um annað, sem borið hefir verið fram fyrir þessari nýbreytni um aðalbankastjóra, nema það, sem einn úr bankanefndinni sagði, að þetta fyrirkomulag væri verið að taka upp erlendis, en það verð jeg að telja haldlítil og ljettvæg rök.

Með einum aðalbankastjóra og tveimur lægra settum mundi skapast það ástand, að einn maður rjeði langmestu, því að undirbankastjórarnir mundu skoða sig hafa minni ábyrgð og skjóta sjer hjá að taka ákvarðanir. Þeir mundu fara til aðalbankastjórans og spyrja hann, hvað honum sýndist um þetta eða hitt. Þessir tveir menn mundu víkja frá sjer vandamestu ráðstöfununum og skapa með því einræði þessa eina manns yfir bankanum, ef þetta ákvæði helst í stjfrv.

Jeg held, ef menn athuga skapeinkenni okkar Íslendinga, að þá mundu færri fallast á að hafa í lögunum ákvæði um þennan aðalbankastjóra. Þeir, sem í bankann kæmu í þeim erindum að biðja um lán, mundu ekki sætta sig við neitun undirbankastjóranna, heldur fara beint til aðalbankastjórans og spyrja hann. Því að jeg skoða yfirbankastjórann ekki sem skurðgoð, sem er lokað innan fjögurra veggja, þar sem enginn kemst til hans. Menn mundu ekki gera sig ánægða með, að aðalbankastjórinn væri aðeins „toppfígúra“, sem ekki yrði komist í námunda við. Skapgerð Íslendinga er sú, að menn mundu ekki ánægðir fyr en þeir hefðu fengið svar aðalbankastjórans viðvíkjandi erindum sínum. Jeg þekki dálítið, hvernig hagar til störfum á opinberum skrifstofum, eins og t. d. á borgarstjóraskrifstofunni hjer í Reykjavík. Þangað koma margir á hverjum degi að leita ýmsra ráða og upplýsinga. Og þó að skrifstofumennirnir leysi úr öllu eftir bestu getu, eru menn samt ekki ánægðir fyr en þeir hafa fundið sjálfan borgarstjóra og heyrt, hvað hann hefir að segja.

Jón Krabbe skrifstofustjóri hefir sagt mjer, að Íslendingar væru alveg einstakir menn í þessu efni. Sjómaður t. d. ljeti sjer ekki nægja, þó að hann hefði fengið full svör við því, sem hann hefði spurt um, heldur heimtaði hann líka að fá að sjá lögin, sem að þessu lytu. Sagði Jón Krabbe, að engir aðrir en Íslendingar mundu vera svo framir að heimta að fá að sjá sjálf lagaákvæðin, til að ganga úr skugga um, hvort úrlausn og svör hefðu nú við lög að styðjast.

Jeg hefi með þessu viljað færa líkur og rök að því, að okkur sje óheppilegt að taka upp fyrirkomulagið um einn aðalbankastjóra. Samvinna á milli Landsbankastjóranna hefir verið góð og engin líkindi til, að hún batni, þó að einn sje yfirbankastjóri og hinir tveir undir hann gefnir. Að þessu lúta brtt. 4–8 með tilheyrandi stafliðum. Þá lúta og þessar brtt. mínar dálítið að bankaráðinu. Í stjfrv. er gert ráð fyrir, að formaður bankaráðsins stýri fundum bankastjórnarinnar. En jeg skoða hann sem eftirlitsmann, sem eigi ekki að blanda sjer inn í dagleg störf bankans. Jeg vil ekki, að hann geti lagt á vogarskálina og að lóð hans ráði úrslitum í einstökum lánveitingum. Þess vegna legg jeg til, að öllu þessu verði kipt burt úr frv., því að jeg vil ekki, að hann hafi afskifti af lánveitingum eða daglegri afgreiðslu í bankanum.

Í 37. gr. frv. er svo að orði kveðið, að bankaráðið geti vikið bankastjórunum frá fyrirvaralaust. Jeg veit ekki, hvort mjer hefir tekist að orða það, sem jeg vildi, nógu greinilega. En jeg vil ekki láta víkja bankastjórunum frá nema um afbrot sje að ræða og að þeim sje skriflega tilkynt frá ástæðum fyrir frávikningunni. En eftir frv. virðist vera hægt að víkja þeim frá án nokkurra saka.

Þá legg jeg til, að laun bankastjóranna sjeu 12 þús. kr., og jafnt fyrir þá alla.

Í stjfrv. er svo fyrir mælt, að bankastjórnin haldi fund á hverjum degi. Mjer finst óþarft að pína þá til fundarhalda á hverjum degi, nema mál liggi fyrir til úrlausnar. Að þessu miðar 7. brtt., við 44. gr., og í samræmi við það, sem áður er sagt, á formaður bankaráðsins hvorki að stýra þeim fundum nje hafa atkvæðisrjett á þeim.

Mjer skildist á hv. frsm. meiri hl., að hann teldi vafasama brtt. mína um undirskrift fundarbókar. Hjer er þó ekki um mikla breytingu að ræða frá stjfrv., enda held jeg, að sama felist í 4. málsgr. frv. Þar stendur, að „undirskrift formanns bankaráðsins og aðalbankastjóra, eða þess bankastjóra, sem kemur í hans stað, undir fundargerðirnar er full sönnun þess, sem gerst hefir á fundinum“. En hjá mjer er það orðað svo: „Undirskrift eins bankastjóra og formanns bankaráðsins undir fundargerðina er full sönnun þess, sem gerst hefir á fundinum“. Jeg verð því að líta svo á, að sje þetta óheppilega orðað hjá mjer, þá sje sama til að dreifa í frumvarpi hæstv. stjórnar.

Með 8. brtt., við 46. gr., er ekki öðru vikið við en sem leiðir af því, sem á undan er komið, að aðalbankastjórinn hverfi úr sögunni og að allir bankastjórarnir verði jafnir að völdum.

Þá kem jeg að 9. brtt. minni, sem er um það að bæta nýrri grein inn í. frv. samhljóða gr., sem bætt var inn í það í fyrra í háttv. Nd. og sem hljóðar um það, að opinberum stofnunum og opinberum sjóðum, er handbært fje hafa á sjóðvöxtum, skuli skylt að geyma það í Landsbankanum og útibúum hans, nema öðruvísi sje ákveðið í stofnskrám eða skipulagsskrám. Þó er ekki ætlast til, að ákvæði þetta nái til Söfnunarsjóðsins, nema að því leyti, sem hann hefir handbært fje á sjóðvöxtum, og heldur ekki til sparisjóða, sem búa við lögin frá 1915.

Þetta atriði, sem jeg álít mikils virði fyrir bankann, er jeg fullviss, að hljóti að ná fram að ganga. Jeg tel sjálfsagt, að ríkisvaldið hlutist til um þetta og veiti bankanum allan þann styrk, sem hægt er, í þessu efni, því bankanum er það mikill vinningur að geta náð í þetta fje. Jeg geri ekki mikið úr þeirri ástæðu, að það sje gott fyrir ríkissjóð að hafa sparisjóðsviðskifti í öðrum banka. Þessa grein verð jeg því að telja afarmikils virði, og tel ótrúlegt, að þingið hafi skift svo skoðun síðan í fyrra, að það láti ekki þetta ákvæði komast inn í lögin.

Þá kem jeg að 10. brtt. minni, og er hún eitt af því, sem klauf nefndina. Hv. meiri hl. vill láta hæstarjett skipa 5 manna nefnd, til þess að meta skuldir og eignir bankans. Það er eins og hjer sje um að ræða mat á eign, sem eigi að selja eða breyta um yfirráð yfir. En svo er þó ekki. Stjórn og þing er hjer einn og sami aðili og hafa jafnt yfir bankanum að segja eftir sem áður, þó að metinn sje hagur hans. Í staðinn fyrir, að ráðherra sjái um, að úttekt fari fram á bankanum í hendur bankaráðsins, leggur meiri hl. til, að hæstirjettur skipi matsnefndina. En jeg held, að þessi úttekt þurfi ekki að fara svo hátíðlega fram, og vil því gera það sem allra óbreyttast og legg því til, að eftirlitsmaður banka og sparisjóða skuli framkvæma mat þetta. Hann stendur líka allra manna best að vígi; hann hefir ekki aðeins kynt sjer hag bankans sjálfs og útibúa hans, heldur veit hann og um hag Íslandsbanka, en alt þetta er þeim nauðsynlegt að vita, sem úttektina á að framkvæma. Annars skil jeg ekki í þeim mönnum, sem fyrir nokkrum árum voru svo viðkvæmir fyrir því, að skipuð yrði rannsóknarnefnd á Íslandsbanka, að þeir hinir sömu vilji nú skipa rannsóknarnefnd á Landsbankann. En þó stendur alt öðruvísi á nú en þá, er Íslandsbanki var seðlabanki, en kominn út í þá ófæru og búinn að verða fyrir miljónatapi, en bjargaðist í bili fyrir hjálp þings og ríkis. Og þó þótti hin mesta goðgá að skipa rannsókn á Íslandsbanka. En því minni ástæða er að skipa rannsókn á sjálfan þjóðbankann. Þá hefir og mín till. þann kost, sem ætti að vega dálítið í augum þeirra manna, sem þykjast berjast fyrir viðreisn fjárhagsins í landinu, sem sje að hún eykur ekki kostnað um einn einasta eyri. Bankaeftirlitsmaðurinn er sæmilega launaður af landinu, og jeg ætlast til, að einn þáttur í starfi hans á yfirstandandi ári sje að framkvæma þessa athugun, ef mín till. nær fram að ganga.

11. brtt. mín er ekki annað en fullkomnun á þeim brtt., sem jeg hefi gert viðvíkjandi aðalbankastjóranum, að fella niður klausu, þar sem nefndur er aðalbankastjóri.

Þá er síðasta brtt. mín og sú stærsta, sem varð að nokkru leyti því valdandi, að jeg klofnaði frá nefndinni. Jeg vil fella greinina niður, því að hún er um tvö óskyld efni. Sú endurkaupaskylda, sem fyrri málsgrein ræðir um, helst nokkuð lengi. Mjer skilst, að hún geti jafnvel haldist um 20 ár eftir að seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka er útrunninn, nefnilega fram yfir 1950, ef greinin verður samþykt óbreytt. Sú skylda, sem hvílir á Landsbankanum, liggur svo langt úti í framtíðinni, að jeg álít ófórsvaranlegt að skipa þessu með lögum, heldur verði það að vera á valdi bankastjórnar og bankaráðs, hvernig verður að farið í þessu máli gagnvart Íslandsbanka.

Mjer skilst, að endurkaupaskylda gagnvart Íslandsbanka hafi upphaflega verið bundin því, að hann samþ. að draga inn seðlana eftir lögunum frá 1921 og ’22, þótt leyfistími hans væri ekki á enda fyr en 1933. En það sjá allir, að Íslandsbanki gat ekki annað gert. Því að það er ómögulegt að hugsa sjer, að hann drægi inn allar þessar 8 milj. á einu og sama ári. En hann hefir ekki dregið inn neina seðla; jafnóðum og hann hefir afskrifað þá hjá sjer, hefir hann fengið lán hjá Landsbankanum. Og seðlaskuldin við Landsbankann er meiri en það, sem Íslandsbanki hefir dregið inn. Þess vegna á sá banki ekki neina kröfu á, að við í okkar löggjöf um Landsbankann leggjum þær skyldur á herðar honum, að hann kaupi víxla af Íslandsbanka, sem er hugsað að kaupa með betri kjörum en seðlabankinn annars býður öðrum viðskiftamönnum.

Af þessu, er jeg nú hefi sagt, leiðir það, að jeg vil fella niður þessa fyrri málsgrein 62. gr. En til þess að gera Landsbankanum möguleg þessi viðskifti, að endurkaupa víxla af öðrum bönkum, þá vil jeg bæta því inn í 14. gr. seðlabankalaganna, að bankanum sje heimilt að endurkaupa góða viðskiftavíxla af öðrum bönkum. Verið getur, að seinna verði hjer fleiri bankar en Íslandsbanki, og þá getur Landsbankinn keypt af þeim víxla, ef hann álítur þau viðskifti nógu trygg. Jeg álít þetta nægilegt til þess að tryggja Íslandsbanka að fá endurkeypta þá víxla, sem hann á rjett á og forsvaranlegt er að kaupa á hverjum tíma. Auk þess er þetta lagt í hendur framkvæmdarstjórnar bankans, sem ætíð getur betur dæmt um þetta en þingið í eitt skifti fyrir öll.

Þá er síðari málsliður 68. greinar. Það er nú sá steinn, sem margir hafa steytt sig á og telja þar ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í 47. gr. frv. er bankastjórum Landsbankans bönnuð þingseta. Samkvæmt stjórnarskránni er ekki hægt að meina neinum manni, sem hefir kjörgengi og er kosningabær, að bjóða sig fram til þings, nema dómurum einum. Þeir verða þá að leggja niður starf sitt. En hjer á að bæta við með almennum lögum bankastjórum Landsbankans. — Það gæti kannske hugsast, að þetta mætti frekar til sanns vegar færa, sökum þess að það væri vilji núverandi bankastjóra. En nú er jeg ekki alveg viss um, að þetta sje fullkomlega vilji þeirra, þótt nærri liggi að draga þá ályktun út frá því, að þeir fyrirskipa svo um sína útibússtjóra. Jeg hefi meira að segja nýlega heyrt, að þeir telji vel mögulegt, að t. d. einn bankastjóranna sitji á þingi, þótt þeir leyfi ekki útibússtjórum það. Fyrst og fremst þurfa þeir að fara frá sínum útibúum, kannske þegar mest er að gera, en bankastjóri hjer gæti ætíð haft nokkurt eftirlit, þar sem hann er hvort sem er á staðnum. — En þetta má kannske deila um, hvort setja mætti í lög eða ekki, ef það væri vilji allra manna, sem að þessu standa. Slíku er hjer ekki til að dreifa. Það fellur sennilega úrskurður um það síðar, hvort þetta geti staðist vegna stjórnarskrárinnar. En hvernig sem sá úrskurður fellur, þá veit jeg, að það er fjöldi af mönnum, bæði lögfræðingum og leikmönnum, sem álíta þetta stjórnarskrárbrot, og þá mundi ekki vera hægt að koma ábyrgð fram gagnvart þeim mönnum, sem risu á móti þessu ákvæði, og ekki einu sinni hægt að svifta þá starfi við bankann. Þetta gæti þó verið dálítið öðruvísi, ef það væri sem skilyrði handa þeim nýju bankastjórum, sem á hverjum tíma koma að bankanum. Þá væri það sett í upphafi, svo sem var gert við útibússtjórana. Mjer er sagt, að þeim þingmanni, sem var útibússtjóri á Ísafirði fyrir Landsbankann, hafi verið sett það skilyrði að fara frá, ef hann byði sig fram til þings. Þetta er skiljanlegt af því, að mikill tími tapast frá útibúinu við langa fjarveru. Útibússtjórinn veit, að hverju er að ganga þegar í upphafi. En þegar slík lagaákvæði eru sett að mönnunum fornspurðum og móti vilja þeirra, þá getur það vart staðist.

Það getur verið, að ekki þurfi að koma með brtt. um þetta, af því að hæstv. forseti vísi því frá, sökum þess að það komi í bága við stjórnarskrána. — Sama gildir í raun og veru um 15. grein frv., 2. málsgrein: Ríkisstjórninni er heimilt eftir till. bankaráðs að ábyrgjast erlend lán fyrir seðlabankann. — Þetta telja margir koma í bág við ákvæði stjórnarskrárinnar, og meiri hl. hefir gert till. um að fella niður. Af því að jeg vissi um þá brtt., kom jeg ekki með brtt. um það atriði.

Jeg hefi þá lýst mínum brtt. svo sem hægt er í stuttu máli; hygg, að mjer hafi ekki láðst að taka fram neitt, sem verulegu máli skiftir viðvíkjandi stærstu brtt.

En jeg hafði hugsað mjer að víkja örfáum orðum til hæstv. stjórnar, en frestaði því, þar sem hæstv. forsrh. var þá ekki viðstaddur. — Þetta mál hefir verið nokkuð lengi í nefnd, líklega hátt á 3ja mánuð. Og er það dálítið eðlilegt. Undirbúningur hæstv. stjórnar var sá, að varla var við því að búast, að það yrði skemur. Það virðist svo, sem hæstv. stjórn hafi tekið þeim tökum á bankafrv. í heild, að hún ætlaðist ekki til að afgreiða það. Í upphafi þings í fyrra var bankanefndin frá 1925 búin að skila áliti sínu. En það var komið langt fram á þing, þegar hæstv. stjórn kom því loks á framfæri. Svo seint var málið tilbúið, að engin von var, að það gengi gegnum þessa hv. deild. Jeg býst nú við, að þótt hæstv. stjórn teldi sig fylgja frv. eins og það var þá, þá hafi hún ekki haft nægilegan dugnað til þess að koma því áleiðis.

Maður skyldi nú ætla, að hæstv. stjórn hefði hugsað sjer að koma málinu fram á þessu þingi og láta það ekki vefjast fyrir lengur; það er nú búið að vefjast fyrir þinginu síðan 1922. En hæstv. stjórn hefir einmitt með ákvæðum, sem hún kom inn í frv., gert það að verkum, að litlar líkur eru til, að það gangi fram nú. Hún fleygar frv., og a. m. k. tveir af þeim fleygum ganga svo nærri stjórnarskránni, að líkur eru til, að málinu verði vísað frá. Og þessir fleygar hafa gert það að verkum, að nefndin hefir verið ákaflega hikandi um málið. Þessar breytingar stjórnarinnar frá í fyrra eru þess eðlis, að þær hafa tafið mjög fyrir nefndinni. Með brtt. við 15. og 68. gr. hafa komið ný atriði í málið svo veigamikil, að nokkrar líkur eru til, að málið verði ekki afgreitt á þessu þingi. — Jeg segi þetta af því, að mjer skildist, að hæstv. stjórn væri í fyrra mjög umhugað um þetta mál. Mjer skildist við kosningarnar síðastl. sumar, að hæstv. stjórn mundi beita sjer fyrir að fá málið afgreitt. En jeg sje annað. Hún hefir bæði í fyrra og nú gert alt, sem hún hefir getað, til þess að skapa glundroða og ágreining. Jeg lýsi allri ábyrgð á hendur hæstv. stjórnar fyrir það, hvað málið er illa undirbúið, og fyrir það, hve miklar líkur eru til, að það verði að dragast eitt árið enn.

Jeg skal ekki víkja að brtt. háttv. meiri hl. að neinu verulegu leyti; mun sýna með atkv. mínu, hvernig jeg snýst við þeim till.

Jeg á eftir að minnast ofurlítið á stjórnarfyrirkomulag bankans, sem jeg vík að í nál. Því vill hv. meiri hl. breyta; hafa 5 bankaráðsmenn í staðinn fyrir 15 manna nefnd. Þetta á að vera til þess að gera stjórnina einfaldari. Ástæðan til þess, að bankanefndin stakk upp á að hafa þessa umfangsmiklu nefnd, var sú, að hún vildi veita bankanum með því öflugan stuðning frá þinginu, sem sýndi það, að yfirleitt ætti bankinn þingið að bakhjarli. Við þurfum ekki annað en að skoða fyrirkomulag Íslandsbanka. Hvers vegna fjekk Íslandsbanki bankaráð, sem þingið kaus, og forsætisráðherra sem formann? Það var ekki annað en trygging þess, að Íslandsbanki ætti fyrirsvarsmenn í þinginu og hjá stjórninni. (Rödd af þingbekkjum: Og eftirlit!). Nei, fyrirsvarsmenn, svo að hann fengi hlunnindi og rjettindi, eins og líka þetta fyrirkomulag hefir veitt Íslandsbanka. Það hefir veitt honum mörg hlunnindi til skaða fyrir Landsbankann.

Þetta fyrirkomulag er þess vegna talið vera dálítil trygging fyrir bankann, að það sje ekki útilokað, að þingmenn eigi þar sæti. Það gæti verið Landsbankanum stuðningur eins og Íslandsbanka, að hann hefði þingkjörna bankaráðsmenn.

Jeg geri ekkert úr þeirri ástæðu háttv. meiri hl., að það verði eitthvað „ópólitískir“ menn, þótt þeir sjeu utan þings. Vitanlega er stór hópur manna utan þings, sem eru jafnmiklir flokksmenn og sjálfir þingmenn. Þetta hlýtur nú hv. meiri hl. að vita, og það með, að trygging er engin í þessu fólgin. En með því að taka menn úr þinginu kann það þó heldur að vera trygt, að sæmilegir hæfileikamenn sjeu; það er ekki eins vel trygt utan þings. Mjer virðist því þetta fyrirkomulag frv. hafa frekar kosti og vera til stuðnings fyrir bankann.

Nú hefi jeg sjerstakt fyrirkomulag í huga, sem jeg þó hefi ekki gert till. um — og geri kannske ekki —, en það er að veita bankanum stuðning með því, að yfirstjórn bankaráðsins væri kosin frá hinum öflugu stofnunum í landinu, sem jeg hefi bent á í nál. Jeg álít, að á þann hátt fengi bankinn ekki lakari stuðning en með því, að yfirstjórnin væri svo mannmörg, sem frv. gerir ráð fyrir.

Jeg mun því greiða atkv. móti þessum till. meiri hl. viðvíkjandi stjórnarfyrirkomulaginu.

Það var eitt eða tvent, sem jeg hafði skrifað aths. við og jeg var ekki samþykkur af því, sem hv. frsm. meiri hl. taldi alla nefndina sammála um; hygg jeg það hafa verið viðvíkjandi 29. gr. Jeg má segja, að jeg hafi þar óbundið atkvæði. Jeg býst við, að við verðum kannske búnir að ræða um eitthvað af þessum till. aftur áður en atkvgr. fer fram, og má vera, að jeg geti þá géfið frekari upplýsingar.