22.04.1927
Efri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

20. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Kristjánsson:

Háttv. fjhn. hefir haft frv. þetta til athugunar í tvo mánuði, svo maður verður að ganga út frá, að það sje sæmilega vel athugað, enda er það mikið að vöxtum, sem nefndin hefir látið frá sjer fara, þó að aftur geti verið skiftar skoðanir um verðmæti þess. Jeg fyrir mitt leyti tel sumt af því miður þarft.

Þá vil jeg snúa mjer að áliti háttv. meiri hl., en út í allar brtt. ætla jeg mjer ekki að fara, heldur drepa á stærstu atriðin.

Aðaltillögurnar tel jeg ekki til bóta, og vil jeg heldur greiða frv. atkv. eins og það var lagt fyrir deildina af hæstv. stjórn, heldur en samþykkja þær.

Af brtt. háttv. meiri hl. eru aðeins örfáar, sem jeg tel ekki til hins lakara. Má þar til nefna 2. brtt., við 7. gr., 4. brtt., við 12. gr., og báða liði brtt. við 13. gr.

Þá eru 11. og 12. brtt., við 24. gr., sem jeg fyrir mitt leyti gæti aðhylst. Ennfremur 22. brtt., við 42. gr. b-lið. En þá eru upp taldar þær brtt., sem jeg gæti aðhylst.

Skal jeg svo lauslega drepa á stærstu atriðin. Jeg álít, að það geti verið mjög varhugavert að afnema hina 15 manna bankanefnd. Úr því að þetta fyrirkomulag hefir gefist vel í Svíþjóð, þá er mjög sennilegt, að það geti einnig gefist vel hjer. Og jeg verð að segja, að jeg undraðist þau rök, sem háttv. frsm. meiri hl. (BK) bar fram gegn þessu fyrirkomulagi. Hann hjelt því fram, að það væri ekkert að marka, þó að þetta fyrirkomulag hefði gefist vel í Svíþjóð, því að Svíar væru svo róleg þjóð, að þeir athuguðu hlutina með mikilli gætni, án allra pólitískra áhrifa. Það væri munur en ólukkans pólitíkin, sem hjer væri í öllum sköpuðum hlutum. En mig minnir nú, að í Svíþjóð gangi á ýmsu með stjórnir og flokkaskiftingu eins og hjer. Stundum er þar íhaldsstjórn, stundum jafnaðarmanna o. s. frv. Þessi rök eru því ljettvæg, eins og margt annað, sem komið hefir frá háttv. frsm. meiri hl.

Þegar maður athugar starfssvið þessa 5 manna bankaráðs, sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir, þá dylst það ekki, að það er miklu lakara en bankaráð það, sem frv. gerir ráð fyrir. Jeg sje ekki annað en með því sje verið að taka upp gamla fyrirkomulagið með gæslustjóra, sem eigi daglega að grípa inn í störf bankastjórnarinnar. En það tel jeg skaðlegt, því að jeg tel bankastjórnina eina eiga að ráða daglegum störfum bankans.

Þá er næsta atriði í nál. háttv. meiri hl., sem jeg vil athuga, það, að í bankaráðinu megi ekki sitja þingmenn. Þetta held jeg, að sje á litlum rökum bygt. Jeg álít aftur á móti margt mæla með því, að þingmenn eigi sæti þar, nema það sje álit háttv. frsm. meiri hlutans, að þeir sjeu yfirleitt mestu gallagripir þjóðfjelagsins. En jeg vil ekki, að meiri grunur falli á þá í því efni en aðra menn.

Um yfirbankastjórann hefi jeg talað áður og tekið það fram, að jeg sje ekki annað en að það hafi gefist ágætlega að hafa bankastjórana alla jafnrjettháa, og sje því engin ástæða til að breyta því.

Þá kem jeg að því atriði, sem jeg tel stærst í þessu máli, og það er sú till. háttv. meiri hluta, að hæstirjettur skuli skipa nokkurskonar rannsóknarnefnd á bankann, til þess að rannsaka hag hans, áður en þetta nýja skipulag kemst á. Mjer er ráðgáta, hvernig á þessum till. stendur. Mjer finst engin önnur leið rjettari og eðlilegri en að framfylgja þeirri venjulegu skoðun, sem bankaeftirlitsmaðurinn hefir á hendi. Aðra skoðun tel jeg ónauðsynlega, því að það er ekki eins og hjer fari fram kaup og sala. Hjer er Landsbankinn sá aðili, sem um er að ræða. Gefur það því ekki tilefni til sjerstakrar rannsóknar. Enda er árangur slíkra rannsókna oftast lítill, og má í því sambandi minna á árangurinn af störfum nefndar þeirrar, sem rannsakaði hag Íslandsbanka 1921. Að rannsókn þeirri störfuðu margir ágætir menn um langan tíma, en þó virðist alt benda til, að ekki sje gott að ákveða um hag banka, því að það er nú komið í ljós, að þeir hafa ekki getað haft rjetta hugmynd um töp bankans. Slíkar rannsóknir eru því ekki mikils virði, en hafa talsverðan kostnað í för með sjer. Auk þess væri mjög óviðeigandi að setja slíka rannsóknarnefnd á Landsbankann nú, þegar hinn rjetti aðili er til, sem samkvæmt lögum á að framkvæma þá rannsókn, sem þarf. Og að fara að blanda hæstarjetti inn í þetta nær engri átt, því að af því gæti síðar meir leitt ýms óþægindi, t. d. ef ágreiningur kæmi upp milli þessara manna. Það drægi úr því öryggi, sem hæstirjettur á að veita borgurunum. Jeg treysti því á, að þetta komist aldrei gegnum þingið, og að neðri deild felli það þá, ef efri deild glæpist á að samþykkja það.

Jeg hefi nú nefnt stærstu atriðin í brtt. háttv. meiri hl. og verð að telja þau flest meira til skemda en bóta, og ekki síst brtt. við 42. gr., sem jeg tel, að ekki eigi heima í slíkum lögum sem þessum. Sumt af þeim ákvæðum kynni fremur að geta komið til greina sem reglugerðarákvæði.

Jeg þarf ekki að fara ítarlegar inn á brtt. meiri hlutans í bráð. Jeg býst við því, að þegar jeg svara ræðu hæstv. forsrh., þá gefist mjer tækifæri til þess að minnast á meginatriðin í áliti meiri hl., sem hæstv. forsrh. virtist vilja gera að sínu áliti.

Um brtt. hv. 1. landsk. (JJ) og bv. 5. landsk. (JBald) þarf jeg ekki sjerlega mikið að tala. Jeg skal víkja örlítið að brtt. hv. 5. landsk. Jeg verð að segja, að hans brtt. eru mjer næst skapi. Þær grípa á meginatriðunum og eru einlæg viðleitni til þess að breyta frv. til bóta þar, sem þörfin á því er mest. Brtt. háttv. 1. landsk. eru eðlilegar frá hans sjónarmiði. Þær ganga flestar út á það að færa frv. í það horf, sem milliþinganefndin í bankamálum lagði til. Hv. 5. landsk. hefir tekið það skýrt fram, að hann sje mótfallinn því, að einn bankastjórinn skuli vera aðalbankastjóri. Jeg er honum sammála um það og styð því brtt. hans um þetta efni. Þá er jeg einnig mótfallinn því, að bankaráðsmennirnir sjeu að vasast í daglegum störfum bankans, eins og meiri hlutinn vill vera láta. Það tel jeg síst til bóta og álít það ekki viðeigandi að færa starfrækslu í bankanum í sama farið og hún var í þegar bankastörf voru hjer á bernskuskeiði og menn viðvaningar í öllu því, sem að bankamálum laut. Ennfremur vill hv. 5. landsk. láta bankaeftirlitsmanninn framkvæma það mat á hag bankans, sem nauðsynlegt kynni að þykja, þegar hin fyrirhugaða breyting kemur til framkvæmda, og er jeg honum sammála um það.

Þá kem jeg að stærsta atriðinu í þessum brtt., en það er, að endurkaupaskyldan falli niður. Það er stórt atriði og verður að hugsa það vandlega áður en tekin er föst afstaða til þess. Jeg læt það ekki uppi á þessu stigi málsins, hvernig jeg muni snúast við þeirri brtt. Jeg viðurkenni, að það er dálítil ástæða til þess að tryggja Íslandsbanka nokkurn rjett í þessu falli, en þá verður líka að koma til greina undirstöðuatriðið, sem gerði það að verkum, að gengið var inn á þesskonar ívilnanir. Það þótti líklegt, að bankinn afsalaði sjer seðlaútgáfurjettinum. En það vottar ekki fyrir því, að hann sje fús til þess, heldur þvert á móti. Ef Íslandsbanki verður látinn halda seðlaútgáfurjettinum tímabilið út, þá minkar ástæðan til þess að tryggja hann í þessu falli. Því getur þetta verið álitamál nú, en jeg segi ekkert um það að svo stöddu, hvernig jeg greiði atkvæði um þetta atriði. Annars skal jeg geta þess, að ef meginið af brtt. meiri hlutans verða samþyktar, þá mun jeg neyðast til þess að ganga á móti frv.

Jeg hefi lítið minst á brtt. hv. 1. landsk. Þær eru að sumu leyti líkar brtt. hv. 5. landsk. og mörg atriði sameiginleg. Báðum finst t. d. ástæðulaust að breyta því ástandi, sem nú er, að láta Landsbankann hafa forrjettindi til þess að ávaxta opinbert fje. Jeg mun víkja lítillega að því í sambandi við ræðu hæstv. forsrh. Jeg skal svo ekki tala meira um þessar brtt. í heild. Hv. flm. þeirra hafa skýrt þær, hver frá sínu sjónarmiði, og má því ætla, að hv. þingdeildarmenn hafi getað myndað sjer skoðun á þeim. Um brtt. meiri hlutans vil jeg aðeins segja það, að örfáar þeirra eru til bóta, margar þeirra eru meinlausar og gagnslausar, nokkrar frekar til hins lakara, en þær veigamestu málinu í heild til stórspillis. Þarf jeg svo ekki að orðlengja meira um það.

Hæstv. forsrh. lýsti því hjer í dag, að hann væri mjög ánægður með brtt. meiri hl., og varð jeg ekki var við það, að hann hefði nokkuð við þær að athuga. Þetta voru mjer vonbrigði. Jeg bjóst við því, að hann mundi halda fast við frv. eins og það var lagt fram, og þá hefði jeg getað fylgt honum. Þó að nokkrar brtt. meiri hl. sjeu mjer ekki svo fjarri skapi, þá eru miklu fleiri þeirra svo meingallaðar, eins og jeg hefi áður sagt, að jeg tel frv. stofnað í hina mestu hættu með þeim. Jeg get ekki ljeð frv. fylgi mitt, ef veigamestu brtt. eru samþyktar, og sú er spá mín, að þó að þær kunni að ná fram að ganga hjer í deildinni, þá strandar málið á þeim í Nd. Þetta aðalatriði ræðu hæstv. forsrh. var mjer því vonbrigði. Hæstv. forsrh. lýsti yfir því, að hann teldi það til bóta, að bankaráðsmennirnir væru utanþingsmenn. Bæði hann og hv. frsm. meiri hl. hafa farið um það mörgum hjartnæmum orðum, að það bæri að vernda bankann fyrir þeim pólitíska eldi, sem geisaði í landinu. Nánar tiltekið er meining þeirra sú, að verja bankann fyrir okkur þingmönnum. Við erum svo miklir skaðræðisgripir, að við megum ekki nærri honum koma. En jeg verð nú að álíta, að þessi ummæli sjeu ekki sem best viðeigandi. Mjer skilst, að okkur beri öllum í sameiningu og hverjum fyrir sig að reyna að halda uppi heiðri þingsins og gera sem minst til þess að rýra álit þess. En hjá þessum hv. þm. kom fram mikið vantraust á þinginu sem heild, og þá ekki síður hverjum einstökum þm. Jeg kann því illa og vænti þess, að þessir háu herrar sjái sig um hönd og dragi eitthvað úr þessum aðdróttunum sínum.

Þá lagði hæstv. forsrh. áherslu á það, að viðskifti ríkissjóðs við bankann yrðu að vera afar takmörkuð; það mætti skoða það hættulegt, ef ríkissjóður þyrfti að leita stuðnings bankans um lán nema um stuttan tíma. Það má vel vera, að þetta sje álit fjármálamanna úti um heim og best sje að gera sem minst að þessu, en það var annað atriði í ræðu hæstv. forsrh., í sambandi við þetta, sem mjer fanst athugavert. Hann gerði ráð fyrir því, að ríkið mundi þurfa í framtíðinni að skifta við prívatbanka, fleiri eða færri. Einn er nú fyrir, og fleiri kunna að vera í vændum. Jeg vil nú óska þess, að fjárhagur ríkissjóðs verði aldrei þannig, að til þess þurfi að koma, að hann verði að leita á náðir Íslandsbanka eða þeirra privatbanka, sem stofnaðir kunna að verða. Það hefir nú verið svo um Íslandsbanka, að hann hefir ekki getað staðið hjálparlaust. Það hefir hvað eftir annað orðið að taka í taumana til þess að koma honum á rjettan kjöl. Þess vegna geri jeg ekki mikið úr því, að ríkissjóður geti vænst mikillar hjálpar af banka þeim, sem fyrir er, og þá ekki fremur bönkum þeim, sem stofnaðir kunna að verða, sem jeg vona, að verði ekki í bráðina. Ef Landsbankinn nýtur fulls skilnings og trausts sem aðalpeningastofnun landsins, þá á hann að geta fullnægt viðskiftaþörf landsmanna og ríkisins, að svo miklu leyti sem með þarf. Það er því engin þörf á því að opna allar gáttir fyrir útlendum peninga- eða fjárbrallsmönnum. Það er hið eina sjálfsagða og rjetta fyrirkomulag á bankamálum vorum að styðja Landsbankann eftir megni.

Áður en jeg skilst við þetta mál, vil jeg víkja lítið eitt að einu atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem hann lagði mikla áherslu á. Hann sagði, að það mætti skoðast sem alvarleg hætta, ef það yrði ofan á, að Landsbankinn fengi í framtíðinni að halda þeim hlunnindum að geyma og ávaxta fje opinberra sjóða og stofnana. Það var og tekið fram af hv. frsm. meiri hl., að það, sem hæstv. forsrh. hefði sagt um þetta, hefði verið svo vel sagt, að ekki væri hægt að bæta þar um. En rök þau, sem hæstv. forsrh. færði fram um skaðsemi þessa fyrirkomulags, voru ekki fullnægjandi fyrir mig. Þetta fyrirkomulag hefir nú staðið síðan 1919, og jeg hefi ekki orðið var við, að það skapi hættuleg straumhvörf í atvinnulífi þjóðarinnar eða viðskiftalífi. Þetta eru tilbúnar ástæður, sem hafa við engin rök að styðjast. Jeg gat ómögulega sannfærst af ræðu hæstv. forsrh. um þetta efni.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni. Mjer þykir ekki ugglaust, að einhverjir kunni að taka til máls ennþá og andmæla mjer og öðrum, og gefst mjer þá tækifæri til andsvara, ef jeg tel þess þörf.