22.04.1927
Efri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

20. mál, Landsbanki Íslands

Einar Árnason:

Jeg verð að segja það, að mig furðaði ekki lítið á upphafi ræðu hæstv. forsrh., þar sem hann fann ástæðu til þess að þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðsluna á þessu frv. Hv. nefnd hefir haft málið til meðferðar í 68 daga, og loksins þegar það kemur, flytur hún við það 82 brtt. Þar af eru 56 frá meiri hl. Nú væri sök sjer, ef allar þessar brtt. væru aðeins orðabreytingar eða lítilfjörlegar efnisbreytingar. En svo er ekki. Mjer virtist því, þegar hæstv. forsrh. lýsti ánægju sinni yfir brtt. nefndarinnar, að það nálgaðist það, að hann hefði snúist ekki alllítið frá því, er hann lagði frv. fyrir þessa hv. deild. Og hæstv. ráðh. flytur nú sjálfur eina brtt. við frv. í viðbót við brtt. háttv. nefndar, en þessi brtt. er ekki neitt smávægileg, því að hún er þess efnis, að Alþingi segi af höndum sjer allri þeirri ábyrgð á Landsbankanum, sem hingað til hefir verið talið, að á ríkinu hvíldi.

Nú hefir hv. meiri hl. fjhn. ef til vill í launaskyni fyrir það, hve vel hæstv. forsrh. hefir tekið í brtt. hans, einnig snúist í því, hvort ríkissjóður beri ábyrgð á bankanum eða ekki. Meiri hl. fjhn. hefir sem sje fallist á brtt. hæstv. forsrh. og með því algerlega gengið frá þeirri skoðun, sem hann heldur fram í nefndaráliti sínu, sem skrifað er fyrir fáum dögum.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala hjer langt mál, en vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til helstu brtt. meiri hlutans. Flestar brtt., einkum þær fyrstu, eru ekki mikilsverðar, og mun jeg geta fylgt sumum þeirra, en þó ekki öllum. Jeg vil minnast dálítið á 18. brtt. Hv. 4. landsk. (MK) hefir minst á hana, og jeg lít svipuðum augum á hana og hann. Hv. frsm. meiri hl. (BK) tók það fram, að ákvæðið um það, að bankaráðsmennirnir skuli vera utanþingsmenn, sje sett til þess að skapa ró um bankann og vernda hann fyrir hinum pólitíska eldi. Jeg neita því ekki, að það muni geta vel verið, að bankaráðið geti orðið pólitískt, en jeg hugsa hinsvegar, að þó að þingmönnum sje meinað að sitja í bankaráðinu, þá sje ekki með því fyrir það girt, að það verði pólitískt. En annars hygg jeg, að fleira þurfi að forðast og fleira sje skaðlegt fyrir bankann en það, þótt yfirstjórnendur hans taki þátt í stjórnmálum. Það þyrfti ekki síður að girða fyrir það, að bankaráðsmennirnir sjeu fjármálaspekúlantar; menn, sem þyrftu að vera bankanum skuldskeyttir að meira eða minna leyti. Jeg lít svo á, að það sje ekki síður ástæða til þess að útiloka slíka menn frá bankaráðinu. Bankaráðsmennirnir þurfa að vera fjárhagslega sjálfstæðir menn.

Þá er það 22. brtt. í henni er nákvæmlega tekið fram starfsvið bankaráðsmannanna. Þar er tekið fram, að formaður bankaráðins framkvæmi eftirlitið daglega. Nú getur vel farið svo, að hann sje forfallaður, og er þá ekki neitt talað um, hver taki við af honum. Þá er svo um mælt í þessari brtt., að til þess að gild verði ályktun bankaráðs, skuli ekki færri en 3 bankaráðsmenn taka þátt í atkvæðagreiðslu. Hjer er ekki tryggilega um hnútana búið; minni hluti bankaráðsins getur þá auðveldlega ráðið með þessu móti. Þá á bankaráðið að skýra Alþingi frá hag bankans í öllu tilliti og hvernig bankanum hafi verið stjórnað. En það sjest hvergi, hvernig þetta á að ganga fyrir sig, hvor bankaráðið á að leggja hjer fram opinbera skýrslu í lestrarsal þingsins, eða á hvern hátt þetta verður framkvæmt.

Þá er 23. brtt. Þar er bankaráðinu meðal annars fenginn rjettur til þess að kjósa 2 endurskoðendur. Í frv. er gert ráð fyrir því, að Landsbankanefndin kjósi þessa menn, og þar er ennfremur gert ráð fyrir því, að hlutfallskosning verði viðhöfð. En í þessari brtt. er það ekki ákveðið, að hlutfallskosning skuli viðhöfð. Eins og jeg hefi áður tekið fram, er það ekki útilokað, að bankaráðið geti verið pólitískt, og getur því meiri hluti þess ráðið báðum endurskoðendunum með þessu móti. Þessi brtt. stafar af því, að meiri hl. fjhn. leggur til, að bankanefndin skuli lögð niður, en um leið og það er gert. þá eru bankaráðinu fengin meiri völd í hendur. En mjer finst það standa of nærri daglegum störfum bankans til þess að það eitt út af fyrir sig ráði endurskoðendurna.

Þá hefir hjer undir umræðunum orðið nokkur ágreiningur út af aðalbankastjóranum. Jeg verð að líta á eins og hv. þm. Vestm. (JJós), að eftir orðalagi frv. eigi hann að hafa meiri völd en hinir bankastjórarnir, en mjer skildist hv. frsm. meiri hl. halda því fram, að þeir ættu að vera jafnir að völdum. En þó hann haldi fram þessum skilningi, þá virðist orðalag greinarinnar benda í gagnstæða átt. Hann á að kalla saman fundi bankastjórnarinnar og stjórna þeim. En þetta mætti leysa á þann veg, að bankastjórarnir skiftust á um að gera þetta sitt árið hver. Þar með væri horfinn ágreiningurinn út af aðalbankastjóranafninu.

Þá er það 28. brtt. Þar er gert ráð fyrir því, að hæstirjettur skipi 5 manna nefnd til þess að meta hag bankans. Eins og kunnugt er, er gert ráð fyrir því í frv., að ráðherra útnefni mennina til þess að gera þessa úttekt á bankanum í hendur bankaráðsins. En hv. 5. landsk. hefir komið með brtt. um það, að úttektin verði framkvæmd af bankaeftirlitsmanninum. Hjer er um 3 leiðir að velja, og jeg fyrir mitt leyti hallast helst að brtt. hv. 5. landsk. Þegar rætt var um það á þinginu 1923 að skipa rannsóknarnefnd á Íslandsbanka, þá varð lausnin á því máli sú, að þingið ákvað að setja lög um sjerstakan bankaeftirlitsmann, sem skyldi vera trúnaðarmaður þings og stjórnar gagnvart bönkum og sparisjóðum og opinberum sjóðum. Það mætti því ætla, að þegar á reynir, þá sneri þingið sjer til þessa bankaeftirlitsmanns. Mjer virðist þingið hæða sjálft sig, ef það gengur fram hjá honum, þar sem það hefir áður talið þetta einu rjettu lausnina til þess að komast að fjárhagsástæðum bankanna. Tveir menn úr meiri hl. fjhn. voru auk þess með því á sínum tíma að samþykkja lögin um bankaeftirlitsmanninn. Mjer skildist það líka á hv. þm. Vestm., að það væri að ófyrirsynju farið fram á að stofna þessa opinberu nefnd. Hann taldi að sönnu, að vel gæti verið, að þetta væri of mikið starf fyrir bankaeftirlitsmanninn. Það kann að vera, en þá fyndist mjer eðlilegast, að ráðherra skipi 1 eða 2 menn til þess að framkvæma úttektina með honum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Jeg vildi að eins gera grein fyrir afstöðu minni gagnvart helstu brtt. meiri hlutans. Jeg mun greiða fyrir málinu út úr deildinni. Jeg tel sjálfsagt, að mál þetta sje afgreitt hjeðan sem næst þeim grundvelli, sem milliþinganefndin í bankamálum lagði til og hv. Nd. fjelst að miklu leyti á í fyrra.