23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

20. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil fyrst minnast á ræðu hv. þm. Vestm. (JJós). Í raun og veru gaf hún mjer ekki tilefni til andsvara, því að hún var, eins og við mátti búast, sanngjörn og öfgalaus að því er snerti mín ummæli.

Það kom berlega í ljós í ræðu þessa hv. þm., að fyrirvari hans við nefndarálit meiri hlutans stafar af allverulegum skoðanamun við. samstarfsmenn hans.

Hv. þm. fann aðallega að því hjá mjer, að jeg hefði talið brtt. háttv. meiri hl. ganga í öfuga átt. Að þessu leyti held jeg, að hann hafi ekki skilið orð mín nákvæmlega rjett. Jeg átti þar einkum við það, ef horfið yrði að hinu gamla fyrirkomulagi með gæslustjórana, því að það tel jeg óheppilegt.

Ennfremur kom það hreint í ljós hjá honum, að hann er ekki fylgjandi aðalbreytingum meiri hlutans. Hann sagði, eins og satt er, að maður yrði oft að ljá málum fylgi sitt, þó að maður væri kannske ekki allskostar ánægður með þau að öllu leyti. Þá get jeg ekki annað en lýst ánægju minni yfir yfirlýsingu þeirri, sem hv. þm. gaf um aðalbankastjórann; virtist hann hafa líka skoðun á því atriði og jeg. Jafnframt heyrðist mjer ekki betur en hv. frsm. meiri hl. (BK) telja það líka meiningarlaust. Jeg sje því ekki betur en að hjer sje verið að leika einskonar skrípaleik, þegar allir eru sammála um, að þetta sje algerlega ófært ákvæði, að hafa einn bankastjórann mestan að völdum. (BK: Hann á ekki að vera mestur að völdum, heldur að lærdómi). Það stendur hvergi, en eftir orðanna hljóðan verður ekki annað sjeð en hann eigi að hafa mest vald.

Þá kom það og í ljós hjá hv. þm. Vestm., að hann er líka á móti rannsóknarnefndinni eins og hv. meiri hl. gerir ráð fyrir henni. Hugleiðingar hans um, að bankaeftirlitsmaðurinn væri ekki fullfær um slíkt starf, verð jeg að telja með öllu ástæðulausar, því ekki er annað en setja inn í frv. ákvæði um að láta honum í tje aðstoð, þegar þess gerist þörf.

Hæstv. forsrh. fanst hann geta fallist á ýmislegt af því, sem jeg hjelt fram; þess vegna finn jeg ekki ástæðu til að halda áfram umræðum um þau atriði. Sjerstaklega mintist hann á, að öðruvísi væri ástatt hjer en í Svíþjóð, þar sem þingið væri miklu fjölmennara þar en hjer. Og því væri ekki ástæða til að hafa bankanefndina fjölmennari en þetta. Annars finst mjer undarlegt, að jeg skuli þurfa að standa hjer og verja ákvæði í stjórnarfrv. En það verður svo að vera, því að ekki er hægt annað að sjá en að hæstv. forsrh. hafi skift um skoðun, síðan hann lagði frumvarpið fram. Hann getur þá ekki lagt mjer til ámælis, þó að jeg hafi glæpst á að aðhyllast einstaka atriði úr frv. hans.

Þá vildi hæstv. ráðherra halda því fram, að nauðsynlegt væri að útiloka bankann frá pólitískum áhrifum, og tók til dæmis, að það væri eins nauðsynlegt eins og að aðgreina dómsvald og framkvæmdarvald í landinu. En mjer finst sú aðgreining ekki svo afarskýr, því jeg veit ekki betur en margir embættismenn í landinu hafi hvorttveggja, dómsvald og framkvæmdarvald með höndum, og sem betur fer hefir þetta ekki oft komið að sök. Annars hefir verið rætt svo mikið um þessa rannsóknarnefnd, sem kemur fram í áliti meiri hlutans, að jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um hana. Og jeg álít hana þá fjarstæðu, sem ekki geti komið til greina.

Að fara að blanda hæstarjetti inn í þetta, tel jeg geta leitt af sjer mörg vankvæði, sem ilt verði úr að bæta. Auk þess tel jeg, að verið sje að óvirða þingið með því að leita til hæstarjettar um þetta.

Ennfremur lýsti hæstv. ráðherra því yfir, að það hefði ekki svo mikla þýðingu að banna bankastjórum þingsetu með lögum, af því að það væri á valdi stjórnarinnar að ráða því, ef nauðsyn bæri til. En þetta er að mínu áliti ekki rjett, og ef hann t. d. bannar hinum stjórnskipuðu bankastjórum Íslandsbanka þingsetu, þá telja margir, að það komi í bág við stjórnarskrána. Og jeg álít t. d., að húsbóndi geti varla bannað hjúi sínu að gefa sig við stjórnmálum, og sömuleiðis álít jeg, að ráðherra, sem er húsbóndi bankastjóranna, hafi ekki vald til þess að banna þeim slíkt. Jeg held því, að sú tilhlökkun hæstv. forsrh., að hann geti bannað bankastjórunum þingsetu, geti brugðist, því að hann hafi það ekki á valdi sínu.

Eitt mikilvægasta atriðið, sem liggur fyrir, er brtt. hæstv. ráðherra um það, að skýlaus yfirlýsing komi fram í lögunum um það, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á fjárreiðum bankans og skuldbindingum. Jeg viðurkenni, að um þetta eru ekki til skýlaus ákvæði, en það hefði samt verið rjettara af hæstv. forsrh. að láta þetta liggja á milli hluta, úr því að hann viðurkendi, að ríkið bæri þó siðferðilega ábyrgð á þeim. Mjer finst því munurinn lítill, en gæti þó orðið til þess að rýra traust bankans, einkum út á við.

Hæstv. forsrh. gat þess, að sjer þætti undarlegt, að þeir menn, sem voru mótfallnir hinni miklu lántöku vegna bankans, sem hjer hefir verið til meðferðar, skyldu ekki geta fallist á þessa brtt. Það virðist svo, sem hann telji sjálfsagt, að þeir hinir sömu styðji sig nú til þess að koma fram þessari óheillaráðstöfun. Jeg vil ekki taka við neinum aðfinslum að þessu leyti, því að jeg var ekki móti lántökunni. Þess vegna eiga þessar aðfinslur ekki við hvað mig snertir. Jeg verð að álíta, að ríkið beri siðferðilega ábyrgð á skuldbindingum bankans, og að þess vegna sje till. á þskj. 398 bæði óþörf og skaðleg.

Það hefir eitt mikilvægt atriði komið fram við umr., og er það vel farið, að sýnt hefir verið fram á, að ef þessi till. nær fram að ganga, þá væri sparisjóðsdeild bankans þannig stödd, að hún ætti enga tryggingu fyrir sparisjóðsfje sínu. Þetta mælir á móti till. hæstv. forsrh. En nú vill hann gera tilraun til þess að bæta úr þessu með því að koma inn í frv. ákvæði um, að trygging sú, sem endanlega yrði sett fyrir seðladeildina, ætti líka að gilda fyrir sparisjóðsdeildina. Þetta er náttúrlega lítilsháttar tilraun til þess að bæta úr þessu, en afleiðingin verður sú, að hækka verður þá tryggingu, sem seðladeildinni var ætluð.

Vegna þess að ennþá hafa ekki komið fram neinar árásir á ræðu mína frá í gær, þá hefi jeg ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að sinni. En ef svo færi, að fram kæmu alvarleg andmæli gegn skoðun minni, þá geymi jeg mjer rjett til að fá að taka til máls aftur.