23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil fyrst og fremst leyfa mjer að leiðrjetta lítilsháttar misskilning, er kom fram í ræðu hv. frsm. nefndarinnar (SigurjJ) um þetta mál. Mjer skildist, eftir orðum hans að dæma, að hann ljeti í ljós, að nefndin mundi fallast á frv. og fylgja því út úr hv. deild, jafnvel þó að brtt. nefndarinnar fjelli. En jeg fyrir mitt leyti vil einmitt taka það fram, að þetta nær ekki til allra nefndarmanna, og að því aðeins mun jeg fylgja frv. áfram, að brtt. nefndarinnar verði samþykt. Jeg hafði, áður en þetta frv. kom til umræðu. tekið það fram við ýmsa hv. þdm., þar á meðal hæstv. atvrh. (MG), að jeg mundi ekki fylgja frv. þessu, nema sú ívilnun fengist um heimild fyrir sveitabændur til þess að ráða til sín útlend hjú, sem fram kemur í brtt. nefndarinnar, enda stendur það berum orðum í niðurlagi nál. á þskj. 167, að nefndin ræður hv. deild til að samþykkja frumvarpið með þessari breytingu.

Það mátti því ekki síðar vera, að jeg lýsti þessu yfir, og fylgi mitt við frv. er við það bundið, að álíka undanþágur fáist eins og nefndin leggur til.

Um frv. í heild sinni vildi jeg segja það, að þar er gengið svo langt til móts við kröfur verkalýðsfjelaganna, að nærri stappar, að þau hafi óskorað vald um allar kaupgjaldskröfur og geti bægt frá allri samkepni útlendinga. Enda má segja, að nú stingi undarlega í stúf við stefnu Alþingis nær síðustu aldamótum, er það gerði ráðstafanir vegna landsveitanna til þess að útvega erlent verkafólk.

Með þessu neita jeg því ekki, að rjett sje að vernda verkafólkið að einhverju leyti fyrir of mikilli samkepni útlendinga, að ekki verði á sanngjörnum rjetti þess traðkað. En að fá verkalýðsfjelögunum óskorað vald og sjálfdæmi í þessu efni, líst mjer að geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfjelagið og Öryggi þess.

Frv. þetta er sniðið eftir erlendum fyrirmyndum, og þá sjerstaklega eftir því, sem tíðkast í nágrannalöndunum, Englandi og Danmörku. Það, sem haft er hjer fyrir augum, eru þá þrautræktuð lönd, þar sem oft er erfitt að finna næg verkefni fyrir hinn starfandi lýð og fólksmergðin yfirgnæfir ræktanlegt land. En hjer hagar alt öðruvísi til. Ísland er óræktað og bíður eftir því, að mannshöndin komi til hjálpar og hefji það úr þeirri lægingu, sem það hefir verið í um langan aldur. Hjer bíða ótal verkefni fyrir starfandi hendur. Það þarf ekki aðeins að ryðja og rækta landið, heldur þarf að byggja upp fjölda býla og brúa ár, leggja vegi og bæta samgöngurnar. Og þó að talsvert sje gert að þessu árlega, þá er landið ennþá að miklu leyti ónumið og vegalaust og hefir því verkefni fyrir fleiri starfandi hendur en hjer eru til.

Þess vegna má ekki með öllu reisa skorður við því, að vinnuafl fáist frá öðrum löndum til hjálpar, þegar nauðsyn krefur. Með þessu vildi jeg þá láta enn ákveðnar í ljós, að jeg sje mjer ekki fært að fylgja frv., ef undanþágan fellur, sú, sem nefndin ber fram, og tel jafnvel ekki forsvaranlegt að samþykkja frv. án hennar.

Það hefir verið bent á það, að í 4. gr. frv. felist heimild fyrir ráðherra að veita þessar undanþágur, og að hún geti verið viðunandi linkind á ákvæðum 2. gr. En sú heimild er svo þröngum skilyrðum bundin, að hún mundi oft reynast harmabrauð þeim, er nota þyrftu, en ætíð tafsöm og fyrirhafnarmikil þeim, sem leyfi ættu að sækja um langan veg.

Það var rjettilega tekið fram af hv. frsm (SigurjJ), að sveitirnar væru sjerstaklega þurfandi fyrir að nota þennan útlenda vinnukraft, ef fáanlegur verður. Það hefir sýnt sig síðari árin, að bændur hafa ekki getað notað þann vinnukraft, sem ónotaður er innanlands, t. d. um heyannir, af því að samtök verkalýðsins hafa, jafnvel í atvinnuleysi, sett þá kauptaxta, sem ekki hefir verið hægt að ganga að. Jeg þekki bændur, sem gengið hafa frá kaupkröfunum og kosið heldur að láta heimaslægjur deyja út en sæta afarkostum um kaup. Nú er það að vísu svo, að þótt frv. þetta verði að lögum, þá er heimilt að ráða hingað verkafólk frá Danmörku, bæði til sjávar og sveita. Það hefir dálítið verið gert undanfarið að því að leigja vinnukraft þaðan, en það hefir líka sýnt sig, að Danir eru ver fallnir til þess að taka að sjer almenna sveitavinnu en t. d. Norðmenn, sem betur samþýðast landsháttum vorum og starfi og hafa sýnt, að þeir verða fljótlega eins og innlendir menn.

Alt frá 1880 hafa verið náin kynni milli ýmissa landshluta hjerlendis og vesturlandsins í Noregi. Um og fyrir aldamót dreifðust út um Norður- og Austurland margar fjölskyldur, sem fluttust hingað frá Noregi. Afkomendur þeirra og yngri kynslóðin hafa nú blandast svo, að ekki þekkist sundur, og eru þeir fyrir löngu orðnir innlendir borgarar. Viðkynning nokkur hefir haldist jafnan milli þeirra norskfæddu landsmanna og ættmenna. Frá þessum mönnum hafa svo haldist kynni við vesturströnd. Noregs. Þeirri viðkynningu er óþarft að slíta eða viðskiftunum með lögum eins og hjer horfa við, því að þau viðskifti hafa að minni hyggju verið til góðs eins fyrir þjóð vora, en aldrei sakað.

Við fyrri hluta þessarar umr. komu fram mjög ákveðin mótmæli gegn þessari till. nefndarinnar og þau rök færð til, að ef hún yrði samþykt, þá myndi ekki einungis stafa af henni hætta fyrir þjóðerni vort, heldur mundi og jafnhliða leiða af henni allskonar sýkingarhætta fyrir bæði menn og skepnur, að mjer skildist. Aðallega var það hv. 2. þm. Eyf. (BSt), sem þóttist sjá þar hilla undir gin- og klaufaveiki og margvíslegar aðrar hættur. Rjett eins og gin- og klaufaveiki geti ekki flust hingað með þeim öðrum mönnum, sem mega flytja inn eftir frv., t. d. sjerfræðingum, sem hingað koma, frændum þeirra manna, sem hjer eru búsettir, ferðamönnum og öðrum, sem eftir 2. gr. frv. mega fara um landið. Mig furðaði satt að segja mjög að heyra þessar mótbárur bornar fram, því að þær eru hjegóminn einber.

Hitt er annað mál og ekki nema sjálfsagt, að gæta verður allrar varúðar vegna sýkingarhættu, ekki aðeins um innflutning þessa verkafólks, sem undanþágan nær til, heldur og allra manna, sem flytja hingað til lengri eða skemri dvalar í landinu, og þá ekki síst frá Danmörku, þar sem húsdýrasýkin hefir geisað.

Um þjóðernishættuna er það sama að segja, að hún er síst veigameiri en sýkingarmótbáran. Þessi hætta hefði þá átt að hafa sýnt sig fyrir löngu, með þeim innflutningi Norðmanna, sem átt hefir sjer stað síðan um 1880, eins og jeg drap á áður. En sá innflutningur hefir aldrei haft skemmileg áhrif á íslenskt þjóðerni.

Jeg hjó eftir því í þessu sambandi hjá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að hann mundi helst óttast innflutning Pólverja, Rússa eða annara álíka fjarskyldra þjóða, ef bændum yrði leyfð sú undanþága að mega ráða sjer erlend hjú. En mjer er ekki kunnugt um, að einn einasti Pólverji eða Rússi hafi nokkru sinni flust hingað inn í atvinnuleit, enda mundi það fljótt koma í ljós, að þeir væru ekki vel fallnir til þess að taka að sjer almenna sveitavinnu, og enn síður en Danir ílengjast hjer. Það eru Norðurlandabúar einir, sem okkur mundi gagna að fá hingað og hingað kæmu, og þá sjerstaklega þeir, sem næstir okkur búa, sem eru Norðmenn, enda er svo margt þar líkt með skyldum, að óhætt er að strika yfir þjóðernishættuna.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) tók í líkan streng eins og hv. 2. þm. Eyf. (BSt), en virðist þó ekki taka málið jafnalvarlega. Honum fanst kynlegt, að máli þessu skyldi vísað til sjútvn. og skopaðist að því, að hún bæri fram till., sem koma hefði átt frá hv. landbn. Jeg sje nú ekki, að það geti verið ástæða á móti till., að hún kemur ekki frá landbúnaðarnefnd. Ef hún miðar til heilla landbúnaðinum, þá hefir hún vissulega jafnmikinn rjett á sjer, þó að hún komi frá sjútvn. Hjer hefir fordæmið verið sótt til hv. Ed. Þar var málið hjá sjútvn., og það er gömul þingvenja að vísa málum í síðari deild til samkynja nefndar og þau hafa verið hjá í hinni deildinni. Jeg skal að vísu játa, að eftir eðli sínu hefði frv. þetta eins getað átt heima í landbn. eða allshn. Annars leit jeg á ummæli hv. þm. Str. sem hálfgildings spaug og ætla því ekki að fjölyrða meira um þau.

Að lokum vil jeg svo endurtaka það, sem jeg sagði í upphafi, að frv. get jeg því aðeins fylgt, að hv. deild fallist á brtt. þá, sem sjútvn. hefir borið fram á þskj. 167. Að öðrum kosti greiði jeg atkvæði á móti frv.