23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það hefði verið æskilegt, að hv. frsm. meiri hl. (BK) hefði ekki geymt svo lengi ræðu sína, svo að hægt hefði verið að vita athugasemdir hans við brtt. minni hl. (BK: Jeg hefi ekki aðrar aths. við þær en þær, sem jeg hefi þegar nefnt). Hv. frsm. (BK) segist ekki hafa aðrar aths. við brtt. minni hl. að gera en þær, sem hann hefir þegar borið fram. Mjer þótti vænt um að heyra þetta, því að þá standa rök min fyrir brtt. mínum ennþá óhögguð.

Hv. meiri hl. er sammála mjer um aðalbankastjórann, því að hann hefir lýst yfir því, að hann skoði þetta aðeins sem nafnbót, en að hann eigi að vera jafn hinum bankastjórunum að völdum. En þegar hv. meiri hl. hefir játað þetta, þá hefir hann þar með játað, að ákvæðið sje svo lítils virði, að rjett sje að fella það niður.

Háttv. frsm. meiri hl. (BK) er svo reyndur maður, að hann hlýtur að vita, að þó að það sje prentað í bankalögum, að einn bankastjóranna skuli hafa víðtæka þekkingu á bankamálum, þá er það svo loftkent ákvæði, að erfitt er að vita, hvort því verður fylgt eftir meiningu hv. frsm. Enda geri jeg ráð fyrir því, að hann ætlist líka til, að hinir bankastjórarnir eigi að hafa sem víðtækasta þekkingu á þessum málum. Það er máske af því að hv. frsm. hefir verið í orðunefndinni, að hann vill nú hengja þennan titil á einn af bankastjórunum, að kalla hann aðalbankastjóra, enda þótt hann eigi ekki að völdum að vera fremri hinum bankastjórunum. Þessi munur, sem gerður er á bankastjórunum, getur orðið þess valdandi, að það skapist einveldi um stjórn bankans og að hinir bankastjórarnir dragi sig í hlje að því er störf þeirra í bankanum snertir.

Gegn brtt. um það, að opinberir sjóðir og stofnanir skuli hafa fje sitt á vöxtum í Landsbankanum, hafa komið andmæli frá hv. frsm. meiri hl., hæstv. forsrh. og hv. 6. landsk., og eru rök þeirra þau, að þetta verði til þess að draga fje frá sparisjóðum úti um land, en þeir hafa gleymt því, að þetta ákvæði er í lögum nú og hefir verið um alllangt skeið, án þess að það hafi komið sparisjóðum að sök, svo vitað sje. Þar sem þessir hv. þm., sem halda því fram, að þetta ákvæði hafi skaðað sparisjóðina, hafa ekki gert neina tilraun til þess að sanna þessa fullyrðingu sína, þá verð jeg að líta svo á, að rök mín standi ennþá óhreyfð.

Sú röksemd hæstv. forsrh., að af því að ríkissjóður hafi ekki nema takmarkað lán hjá Landsbankanum þá verði hann að eiga aðgang að öðrum, er einskisverð.

Það er aðeins formsatriði, sem talað hefir verið um viðvíkjandi 51. gr. frv., um það, að fje ómyndugra megi setja í Landsbankann. Jeg held, að brtt. geti fyllilega staðist þess vegna. Jeg sje ekki, að það sje neitt ósamræmi í því, þó að í frv. standi, að það „megi“, en í brtt. að það „skuli“ setja það í bankann. Annars má altaf laga þetta til 3. umr. Aðrar aths. hafa ekki verið gerðar við brtt. mínar, nema brtt. um úttektina. Það hafa ekki verið færð fram nein veruleg rök fyrir því, að nauðsynlegt sje að setja á stað svo stórt bákn til úttektarinnar eins og hv. meiri hl. vill. Hæstv. fjrh. vill láta þetta vera sambærilegt við rannsóknina á Íslandsbanka 1922. En það er ekki hægt, af þeirri ástæðu, að tilgangur rannsóknarinnar þá var allur annar en nú. Tilefni rannsókna innar á Íslandsbanka var það, að ríkissjóður ætlaði þá að gerast meðeigandi í Íslandsbanka með því að kaupa hluti í bankanum, og því þurfti nákvæmt mat, að þar var um eigendaskifti að ræða, en hjer þarf þetta ekki að vera eins fullkomið, þar sem aðeins á að ákveða Landsbankanum starfsfje. Hæstv. forsrh. og hv. frsm. meiri hl. geta ekki hnekt þeirri staðreynd, að eftirlitsmaður banka og sparisjóða er sá maður, sem best stendur að vígi um þessa rannsókn. Hann hefir nýlega athugað báða bankana og auk þess marga sparisjóði. Hann gæti því fljótt glöggvað sig á hag bankans. Er því undarlegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vilja nota þennan starfsmann landsins. (Forsrh. JÞ: Jeg hefi ekki sagt neitt um það, að jeg vilji ekki nota hann. Það getur vel verið, að hann verði skipaður í nefndina). Já, hæstv. ráðh. segir, að hann geti orðið skipaður í nefndina. En mjer er spurn: Hefir hæstv. ráðh. nokkra tryggingu fyrir því, hverjir verði skipaðir í þessa rannsóknarnefnd ? Jeg geri ekki ráð fyrir, að hann sje búinn að semja við hæstarjett um það að skipa ekki hv. 1. landsk. (JJ) í hana. En ef hæstv. landsstjórn treystir sjer til þess að ráða því, hverjir skipaðir verði í nefndina, þá tel jeg það illa ráðið að hafa skipunarvaldið að forminu til í hendi hæstarjettar. Jeg fæ ekki sjeð, að nokkur gild rök hafi komið fram, er geri það eðlilegt að haga fyrirkomulaginu eins og hv. meiri hl. vill.

Hæstv. forsrh. sagði viðvíkjandi sparisjóðsdeild Landsbankans, er hann ræddi um brtt., er fer fram á að geyma sparifje í bankanum, að Landsbankanum væri enginn greiði með því gerður. Honum væri með því gert erfiðara fyrir að starfa sem seðlabanki. Ef hæstv. ráðh. hefir verið sömu skoðunar, þegar hann lagði þetta frv. fyrir þingið, þá hefði hann ekki átt að láta sparisjóðinn og seðlabankann vera undir sömu stjórn. Röksemdir hæstv. ráðh. sýna, að skoðun hans er á reiki um þetta mál og að hann er að bæta nýjum og nýjum fleygum inn í málið. Jeg mintist á tvo slíka fleyga um daginn, og í gær kom hann með þessa makalausu till. á þskj. 398.

Hæstv. ráðh. gerir ennþá tilraun til þess að verja það ákvæði frv., er fyrirbýður hinum þjóðkjörnu bankastjórum Íslandsbanka að sitja á þingi. En hæstv. ráðh. getur með engu móti komist í kringum þá staðreynd, að ákvæði þetta ríður í bág við stjórnarskrána. Hæstv. ráðh. vildi líkja þessu við samning þann, sem stjórn Landsbankans hefir gert við útibússtjóra sína. En þetta er ekki sambærilegt. Það er ekkert því til fyrirstöðu, er menn taka við einhverju starfi, að þeim sjeu sett skilyrði, en þetta ákvæði frv. er alt annars eðlis. Það er ekki eins og verið sje að skipa nýja menn í þessar stöður. Mennirnir eru fyrir. Og ef þeim eru sett þessi skilyrði nú, þá eru það ný skilyrði, sem komið er með aftan að þeim, og geta þeir með fullum rjetti mótmælt þeim með skírskotun til stjórnarskrárinnar. (Forsrh. JÞ: En útibússtjórinn á Ísafirði?). Það er alveg rjett hjá hæstv. ráðh., að hann getur sett bankastjóra Íslandsbanka af, og það getur vel verið, þegar hæstv. ráðh. í gær talaði um pólitískan óróa um Íslandsbanka, að hann hafi átt við það, að hann mundi láta bankastjórana fara frá, ef þeir gengju ekki að þessum skilyrðum. Og það, sem styður þessa skoðun mína, er það, að hæstv. ráðh. vitnaði í reglugerð Íslandsbanka frá 1923, þar sem talað er um það, að ríkisstjórnin geri samninga við hina þjóðskipuðu bankastjóra. Það liggur í hlutarins eðli, að úr því að þessir menn eru komnir í stöðurnar og skipaðir skilmálalaust, þá getur það ekki komið til mála að setja þeim skilyrði, er ganga í bága við stjórnarskrána. Síst þegar þess er gætt, að annar bankastjóranna, hr. Sigurður Eggerz, sat á þingi þegar hann var skipaður, eða rjettara sagt skipaði sig sjálfur í bankastjórastöðuna, auk þess sem hann seinna hefir boðið sig fram til þings þrisvar sinnum. Jeg vildi leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðherra, hvað hann hefir hugsað sjer að gera, ef frv. verður samþ. með 68. gr. óbreyttri eins og hún er í frv., — ef þá hæstv. forseti vísar henni ekki frá — og bankastjórar Íslandsbanka vilja ekki ganga að skilyrðum greinarinnar. Ætlar hann þá að vísa þeim úr bankanum? Ummæli hans í gær og í dag gefa tilefni til þess að ætla, að hann muni gera það. Hann sagði, að ef þetta yrði samþ., þá væri stjórninni þar með uppálagt að gera þetta að skilyrði.

Hæstv. ráðh. hefir ekki tekist að færa neinar líkur, og því síður sannanir, fyrir því, að umrædd ákvæði bankafrv. geti staðist vegna ákvæða stjórnarskrárinnar, enda styður úrskurður sá mitt mál, sem hæstv. forseti feldi, þegar málið var tekið til 2. umr.

Hæstv. ráðh. hefir verið að verja sína tillögu um, að ríkið bæri ekki ábyrgð á bankanum fram yfir stofnfje. Jeg held, að hæstv. ráðh. hljóti að sjá, hvílík fljótfærni það var af honum að ráðast í að flytja þessa till. Hún er í fylsta máta vanhugsuð, enda er hæstv. ráðh. sjálfur búinn að játa, að hún þurfi umbóta við. Hann hefir játað, að sparisjóðsfje sje þá svift tryggingu af varasjóði bankans, auk þess sem hún sviftir bankann þeirri ábyrgð, sem margir trúa, að hann hafi gagnvart innstæðueigendum í Landsbankanum. Ef sú tillaga verður samþ., að lagalega beri ríkissjóður enga ábyrgð á skuldbindingum bankans, er hætt við, að þingið verði ófúsara til að styðja Landsbankann, ef eitthvað ber út af, ekki síst, ef fylgismenn hæstv. ráðh. verða í meiri hluta, sem vilja gera Landsbankanum sem erfiðast fyrir. Þeir mundu þá halda sjer strangt við bókstaf laganna og hirða minna um hina siðferðilegu ábyrgð. Jeg get því ekki gefið hæstv. ráðh. betra ráð en það, sem jeg gaf honum í gær, að taka þessa till. aftur. Ef að einhverju leyti ætti að takmarka ábyrgð ríkissjóðs, á ekki að gera það á þennan hátt. Ríkissjóður á Landsbankann og verður vitanlega að sjá svo um, að hann fari ekki um koll. Og ef á að takmarka ábyrgð ríkissjóðs, verður það að gerast á alt annan hátt. Jeg get til dæmis hugsað mjer, að ríkissjóður eða Alþingi miðaði ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð á vissu árabili, t. d. 10 ár, en jeg vildi hafa þá fjárhæð svo ríflega, að þetta þýddi það sama í framkvæmd og ótakmörkuð ábyrgð. Að þessu leyti yrði þeim fullnægt, sem vildu láta það einhversstaðar standa, að lagalega bæri ríkissjóður ekki ábyrgð á bankanum nema upp að vissri upphæð. Það þyrfti ekki að vekja vantraust, eins og jeg er hræddur um, að till. hæstv. ráðherra mundi gera. Hæstv. ráðh. hefir ekki athugað það, sem nú er búið að benda honum á, að það stendur dálítið sjerstaklega á hjer á landi. Það er sagt, að sparisjóðsfje Íslandsbanka hafi streymt í miljónum til Landsbankans, af því að sá orðrómur hefir komið upp, að Íslandsbanki væri ekki tryggur. Sparisjóðsfjáreigendur hafa orðið hræddir og sparisjóðsfje þess vegna orðið lausara fyrir en annars mundi vera. Þegar þeir þykjast vera búnir að koma því í trygg? höfn í Landsbankanum, kemur alt í einu frá þinginu sú reiðarþruma, að landið beri ekki ábyrgð á Landsbankanum, sem allflestir hafa trúað fram að þessu og treyst á. Hvað gera þeir þá? Sjer ekki hæstv. ráðh., hvílíkur voði getur af þessu stafað? Ekki er hægt að búast við, að þeir fari aftur í Íslandsbanka. Hann nýtur ekki trausts hjá almenningsálitinu. Fara þeir þá í sparisjóðina úti um land? Vissulega ekki, nema að mjög litlu leyti, því að þeir vilja ekki fara nema þangað, sem fjeð er trygt. Þá er ein leið eftir, og sú skaðlegasta, sú, sem farin var hjer á árunum, þegar íslensk króna var að falla í verði og peningarnir voru fluttir út úr landinu. Þetta eigum við á hættu, ef ríkissjóður ber ekki lengur ábyrgð á Landsbankanum. Alt þetta sýnir, að Alþingi verður að aftra því, að till. hæstv. ráðh. nái fram að ganga. Jeg hugsa, að hún sje þegar farin að gera skaða. Það er eins og hæstv. ráðh. hafi hlaupið til alt í einu, þegar búið er að dylgja um Landsbankann í Morgunblaðinu, rokið í þingið og skrifað till. Það er því ekki nema eðlilegt, að ótti grípi fólk út í frá og það hugsi sem svo, að það sje eitthvað óheilt við Landsbankann. Jeg skil því ekki annað en að hæstv. ráðh., sem er búinn að játa, að till. sje vanhugsuð, taki hana aftur. Hann getur látið það heita svo, að hann taki hana aftur til 3. umr., og þá má gera ráð fyrir, að hún sofni út af.

Þá á jeg engu ósvarað, en mjer þykir leitt, að hv. frsm. meiri hl. (BK) skuli ekki koma með sín svör fyr en síðar, en jeg treysti því, að hæstv. forseti gefi mjer þá tækifæri til að gera stutta aths.