27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson): Það fór svo fyrir mjer, að jeg kom ekki með brtt. að þessu sinni, vegna þess að mjer sýndist ekki mót á því við 2. umr., að hægt væri fyrir minni hl. að koma neinum brtt. fram, hversu vel rökstuddar eða sanngjarnar sem þær væru. Allar þær brtt., er minni hlutarnir báru fram, voru drepnar með því atkvæðamagni, er hæstv. stjórn hefir yfir að ráða í deildinni, eða flestar með 8:6 atkv. Bjóst jeg við, að ef jeg færi að koma með brtt. nú, þá mundu þær fara í sömu gröfina.

Jeg sje að vísu ýmsa smíðagalla á frv., en flestir munu þejr lagfærðir með brtt. þeim, sem nú hafa fram komið. En jeg hugsaði sem svo, að ef jeg færi að bera fram brtt. til leiðrjettingar og umbóta, þá mundu þær aðeins verða til þess, að göllum frv. yrði haldið, því að flokkur hæstv. stjórnar mundi telja sjer skylt að fella þær brtt.

Jeg get ekki látið hjá líða að benda á það, að frv. er nú svo úr garði gert, að mjög er fjarri því, sem milliþinganefndin 1925 ætlaðist til. Jeg tek það ennþá fram, að það hefði átt að setja löggjöf um fyrirkomulag Landsbankans, sem væri trygging fyrir góðri starfsemi í bankanum og þar með fyrir fjárhag hans, en ekki gera eftirlitið svo flókið, að það verði eðlilegri starfsemi bankans til hindrunar, því fyrirkomulag frv. minkar þau völd, sem hverri bankastjórn er nauðsynlegt að hafa. En öll afskifti bankaráðsins af bankanum, eins og ætlast er til að þau verði, hygg jeg miða til hins verra. Og auk þess er mikið vafamál, hvort ekki er óþarft og óheppilegt að hafa svo marga yfirmenn í bankanum eins og ráð er fyrir gert, því mjer skilst svo, að eftir frv. geti hinir raunverulegu bankastjórar orðið 6, þar af 3, sem tala eiga við almenning, og 3, er stýra eiga framkvæmdarstjórunum. En auk þessa er í frv. ákvæði um afstöðu bankastjóranna innbyrðis, sem mjer skilst, að hljóti að verða til þess, að samkomulagið milli bankastjóranna yrði ekki eins gott og það yrði ella og æskilegt væri. Það er sem sje í frv. verið að ýta undir bankastjórana um að gera ágreiningsatkvæði um ákvarðanir þeirra, og er ráð fyrir því gert, að minni hluti bankastjórnar geti með atbeina bankaráðs ráðið þar úrslitum. Þetta er til þess að draga úr góðu samstarfi í bankanum, en að ýta undir það með löggjöf er í fylsta máta óheilbrigt. Auk þessa má nefna dagbókarhaldið o. fl. Alt þetta er svo flókið og umsvifaþungt, að allar líkur eru til þess, að með því flækist hver fyrir öðrum og að enginn þykist bera ábyrgð á störfunum. Er þannig búið að hnýta þetta svo saman, að allar líkur eru fyrir því, að meiri hluti bankastjórnarinnar hafi engin áhrif um gott eftirlit í bankanum og ró og öryggi þar, en á hinn bóginn er dregið úr ábyrgð bankastjórnar á starfsemi bankans. Er mun betra, að bankastjórarnir geri smáskyssur og beri á þeim ábyrgð en að þeir hliðri sjer hjá ábyrgðinni og komi henni á hendur bankaráðinu, en það er auðvitað gert með þessum daglegu afskiftum bankaráðsins af störfum bankastjórnarinnar. En hitt er verra, að vitleysan sje gerð af 8 mönnum í stað þriggja, því þá eru allir í sökinni, bæði bankaráð og bankastjórar — og hver finnur þá að?

Þetta eru aðeins þau almennu orð um frv.

En svo skal jeg víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 362 um rannsóknina, sem tekin var aftur, — við 60. gr. frv. —. Það hefir alveg gleymst að taka það fram við umr. um þetta atriði, að þessi rannsókn, ef hún á að vera að nokkru gagni, krefst fyrirfram mikillar þekkingar á málinu. Íslandsbanki er langstærsti viðskiftaaðili Landsbankans, þar sem endurkaup Landsbankans á víxlum Íslandsbanka nema mörgum miljónum króna. Ef rannsaka ætti, hvort þessir víxlar væru góður „pappír“, þá þyrfti í raun og veru að rannsaka hag Íslandsbanka líka. (BK: Það þarf ekki að rannsaka nema hag þeirra manna, sem skulda víxlana). Jú, því Íslandsbanki stendur einnig — og þá fyrst og fremst gagnvart Landsbankanum — sem ábyrgur á víxlunum, sem Landsbankinn kaupir af honum. En til þess að nokkuð verði með sanni vitað um hag Íslandsbanka, þá þurfa rannsóknarnefndarmennirnir að vera honum kunnir fyrirfram, eða þeir þurfa að rannsaka hann, en til þess er engin heimild í till., hvorki að nefndarmennirnir athugi hag stofnana eða einstakra manna, sem viðskifti eiga við Landsbankann. Og þeir menn eru ekki til, er hafa slíka fyrirframþekkingu á hag Íslandsbanka, aðrir en eftirlitsmaður banka og sparisjóða, sem nú er nýbúinn að rannsaka hag Íslandsbanka. En þetta var ein af röksemdum mínum fyrir till. minni við 2. umr. þessa máls, að þessi starfsmaður ríkisins hefir nýlokið við rannsókn á Íslandsbanka og sparisjóðum landsins. Jeg tala ekki hjer um þessa till. af því að hún liggi fyrir til umræðu, en jeg hygg, að komin sje einhver veðrabreyting um þetta atriði, þar sem hv. meiri hl. nefndarinnar hefir komið fram með varatill. um það. Er sýnilegt, að hjer er um alvarlega hlið á málinu að ræða, sem ekki hefir komið fyr fram í umræðunum um þessa rannsókn á hag Landsbankans, að nauðsynlegt er að rannsaka þennan stærsta viðskiftaaðilja Landsbankans, Íslandsbanka. Hv. 1. þm. G.-K. (BK) skaut því fram, að aðeins þyrfti að rannsaka hag manna þeirra, er standa á þeim víxlum, er Landsbankinn hefir keypt af Íslandsbanka, en ekki hag Íslandsbanka sjálfs. En menn þessir eru viðskiftamenn Íslandsbanka, og væri því ekki nóg að fara í bækur Landsbankans um slíka rannsókn, heldur þyrfti að fara í bækur Íslandsbanka. Það ber því hjer að sama brunninum. Jeg býst við því, að flestar brtt. á þskj. 348 sjeu orðabreytingar og smáleiðrjettingar. Jeg hefi borið nokkrar þeirra saman við frv., en þó ekki allar. En varatill. hv. meiri hl.. við 55. gr. frv. virðist vera eitthvað ankannaleg, því ef skipa á þessa nefnd þegar eftir að lögin öðlast gildi, þá getur svo farið, að ekki verði hægt að kjósa menn í nefndina tímans vegna, nema því aðeins, að frv. verði afgreitt svo snemma, að hægt verði að síma það út til staðfestingar og hún komin til baka áður en þingi slítur. En að síma frv. út verður auðvitað alldýrt, þó að vísu muni ekki mikið um einn blóðmörskepp í þessari bankasláturstíð.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á till. hæstv. fjrh. (JÞ). Mjer virðist vera lítil búbót að því, þó að brtt. ráðh. við 42. gr. frv. verði samþ. Má með sanni um hana segja, að þar sje öfugur Darwinismus á ferðinni. Fæ jeg ekki betur sjeð en að till., enda þótt hún sje breytt að orðalagi frá því sem áður var, þá komi hún jafnt í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Eftir þessu ætti Alþingi að geta samþykt lög um það, að alþingismenn mættu ekki vera t. d. prentarar, dómari í Reykjavík, læknir á Snæfellsnesi, kaupmaður við Vesturgötu eða læknir á Sauðárkróki. Þetta, sem farið er fram á með till. hæstv. ráðh., er aðeins byrjun á upptalningu, sem gæti orðið endalaus. — Þó að jeg geti tekið undir það, að margt mæli með því, að menn í svo ábyrgðar- og umsvifamiklum stöðum og sem geta haft svo víðtæk áhrif eins og bankastjórar og útibússtjórar, ættu helst ekki að sitja á þingi, þá tel jeg sjálfsagt og rjett, að ákvæði um það verði sett í stjórnarskrána, en ekki með einföldum lögum, eins og hjer er verið að gera. Það er og verður stjórnarskrárbrot, hversu ísmeygilega sem till. um það eru orðaðar. Jeg gæti vel hugsað mjer að vera með slíkri breytingu á stjórnarskránni, en ekki með neinu móti, ef hún kemur fram í formi einstakra laga.

Hæstv. ráðh. ætti að vita það, að hægt er að brjóta lög með öðru móti en því að ganga í berhögg við bókstaf þeirra, en það er með því að brjóta í bág við anda laganna, þá meginhugsun, sem liggur á bak við orðin. Og það er slíkt skýlaust brot á stjórnarskránni, sem till. hæstv. ráðh. er.

Samkvæmt því, sem jeg nú hefi sagt, vildi jeg leyfa mjer að fara fram á það, að hæstv. forseti ljeti nú falla úrskurð sinn um það, hvort till. þessi geti vegna ákvæða þingskapanna og stjórnarskrárinnar komist hjer að.

Þessi till. er að því leyti víðtækari en fyrri till. hæstv. ráðh., að sú till. bannaði aðeins bankastjórum þingsetu, en þessi till. nær til allra þingmanna, nema því aðeins, að úrskurður hæstv. forseta falli í þá átt, að vísa till. frá.

Þá skilst mjer, að brtt. hæstv. ráðh. breyti í engu ákvæði 63. gr. frv. um það, að stjórnskipaðir bankastjórar Íslandsbanka megi ekki vera þingmenn. Það helst óbreytt að efni til. Og jafnskjótt og þetta verður að lögum, þá geri jeg ráð fyrir, að útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, sem sæti á nú hjer á þingi, segi tafarlaust af sjer þingmensku eða starfi sínu sem útibússtjóri.

Þá hefir hæstv. ráðh. komið fram með till. um að skapa varasjóð fyrir sparisjóðsdeild Landsbankans, en þetta er ekkert nýtt, þar sem hann ætlast til þess, að tekið verði til þessa 1400 þús. kr. frá seðlabankanum, en annarsstaðar í frv. er búið að ráðstafa þessu fje sem stofnfje handa seðlabankanum. Þykir mjer ótrúlegt, að stjórn bankans sætti sig við það, að tekið sje þannig fje frá seðlabankanum og látið falla til sparisjóðsdeildarinnar, sjerstaklega þegar þess er gætt, að sumir halda því fram, eins og sjest á grein eins hæstarjettarlögmanns um hag bankans í einu dagblaðinu hjer fyrir skömmu, að öll töp bankans sjeu ennþá ekki komin fram. Ef því tap verður á sparisjóðsdeildinni, þá hlýtur að verða að taka af stofnfje bankans til þess að bæta það upp. Það getur liðið langur tími þangað til sparisjóðsdeildin hefir grætt svo, að varasjóður verði 3–4 miljónir króna, en það er sá varasjóður, sem hæstum er gert ráð fyrir. En hvernig fer í framtíðinni, ef varasjóðurinn nær þessu hámarki? Þá fellur niður ábyrgð seðlabankans á sjóðnum. En seinna getur sparisjóðurinn tapað svo miklu, að nemi varasjóðnum og innskotsfje seðlabankans, og þá er enginn varasjóður, engin trygging og engin ábyrgð til þess að grípa til. Er þetta nægilegt til þess að sýna, að hæstv. ráðh. hefir ekki athugað þennan möguleika vel áður en hann kom fram með till. sína.

Það hafa nú komið fram svo mikil vansmíði á þessu frv., að jeg sje ekki annað en að hv. meiri hl. nefndarinnar verði að taka sjer frest til þess að ráða ráðum sínum um það, hvað gera skal. En vilji hæstv. stjórn þvinga málið fram með þessum vansmíðum nú á þessu þingi, þá verður hún vitanlega að bera ábyrgð á því.