27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg þarf eiginlega engu að svara hv. 5. landsk. (JBald) út af ummælum hans um brtt. mína við 42. gr. Það er auðvitað rjett hjá honum, að þetta er einungis orðabreyting, en breytir engu að efni. Hitt er náttúrlega jafnrangt, að greinin sje brot á stjórnarskránni, og þessi litla orðabreyting gerir það enn skýrara, að svo er ekki. — Hv. þm. kvartaði undan því, að allar brtt. hv. minni hl. hafi verið drepnar við 2. umr. Þetta er ekki allskostar rjett. A. m. k. var samþykt ein brtt. frá hv. þm. sjálfum, sakir þess að hún var sæmilega skynsamleg. Honum hefði því verið alveg óhætt að bera fram við þessa umr. fleiri brtt. til bóta. Þær hefðu áreiðanlega verið metnar eftir sínum eigin verðleikum, en ekki eftir verðleikum hv. þm. — í því, sem þessi hv. þm. sagði um viðskifti Íslandsbanka og Landsbankans, lá nokkur misskilningur. Hann talaði um, að samkv. frv. ætti Landsbankinn að kaupa víxla af Íslandsbanka og á þann hátt veita Íslandsbanka lán. Það má vera, að á yfirborðinu líti þetta svona út. En í raun og veru eru þetta alls ekki viðskifti við Íslandsbanka nema að forminu til. Hann er einungis síðasti ábekingur á víxlunum áður en Landsbankinn kaupir þá. Lánveiting Landsbankans gengur til samþykkjanda víxilsins, en alls ekki til Íslandsbanka. Þetta veit jeg, að hv. 5. landsk. skilur mætavel, þegar hann hugsar út í það. — Engin hætta er á því, sem hv. þm. virtist óttast, að ekki verði hægt að fá þær upplýsingar um hag Íslandsbanka, sem þörf kynni að verða á. Til þess að hrekja þetta, nægir að benda á, að forsrh. er altaf jafnframt formaður bankaráðs Íslandsbanka, og getur hann látið framkvæma hverja þá skoðun á bankanum, sem hann álítur nauðsynlega. — Þá mintist sami hv. þm. á brtt. mína við 56. gr., um ábyrgð seðladeildar bankans fyrir sparisjóðsdeild hans. Honum þótti það missmíði á till., að ábyrgðin á að falla burtu, þegar varasjóður sparisjóðsdeildar hefir náð 10% af innstæðufjenu. En þetta er ekkert missmíði. Ákvæðið er sett í kafla með bráðabirgðaákvæðum, og er ekki ætlast til, að af því leiði ævarandi ábyrgð. Það á aðeins að vera til að styðja sparisjóðsdeildina meðan hún er að komast á laggirnar. Hitt, að hafa ábyrgðina ævarandi, gæti jeg ekki fallist á. Það mundi gera illmögulega eða ómögulega þá greiningu bankans í tvær sjálfstæðar stofnanir, sem jeg legg mjög mikla áherslu á, að verði hið endanlega fyrirkomulag. Því að sú er jeg viss um, að verður framtíðarúrlausn þessa máls, enda þótt mjer hafi ekki þótt tiltækilegt að fylgja tillögum hv. 1. þm. G.-K. um að koma því skipulagi nú þegar í framkvæmd. — Svo að jeg hverfi aftur að því, sem um var að ræða, þá álít jeg ekki heldur ástæðu til þess, að löggjafinn fari fyrirfram að gera ráð fyrir því, hvernig fara eigi að, ef sparisjóðsdeildin tapar einhverntíma í framtíðinni öllum sínum varasjóði. Það er alveg hárrjett hjá hv. 5. landsk., að langt verður þangað til sparisjóðurinn hefir safnað þeim 10% varasjóði, sem gert er ráð fyrir í frv. En jeg held, að rjett verði að láta það löggjafarvald, er þá verður á Íslandi, ráða fram úr vandkvæðum þeirra tíma. Það verður, að minni hyggju, ekki til neinna bóta, þótt núverandi löggjafarvald fari að gera ráðstafanir gegn því, sem aðeins er hugsanlegt, að komi fyrir eftir einn eða tvo mannsaldra. Brtt. mín sviftir engum grundvelli undan sparisjóðsdeild bankans. Fremur mætti segja, að frv. í heild sinni gerði það, því að það sviftir sparisjóðinn nokkrum hluta þeirrar ábyrgðar, sem hann nú hefir. Hitt er einnig ofmælt, að með brtt. sje verið að taka stofnfjeð frá seðladeildinni. Hún á að eiga þetta fje eftir sem áður, þótt þessi kvöð hvíli á því þar til varasjóður sparisjóðsdeildar hefir náð vissri upphæð.