27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Ræða hv. 1. landsk. var ekki annað en endurtekning frá 2. umr., svo jeg þarf fáu einu að svara. Brtt. við 1. gr. er ekki til komin vegna blaðagreina, heldur vegna álits Ólafs prófessors Lárussonar, sem prentað er aftan við nál. annars minni hl.

En að því leyti, sem hv. 1. landsk. er sáróánægður yfir því, að lagaheimild á að þurfa eftirleiðis samkvæmt minni brtt. til þess að ríkið taki á sig ábyrgð fyrir Landsbankann, þá get jeg vísað honum á að leita sjer huggunar í því að lesa þingræður, er hann hefir sjálfur haldið á þessu þingi, er lögin um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann voru á ferðinni. Hann hjelt því jafnfast fram þá, að sjerstaka lagaheimild þyrfti til þess að ríkið taki á sig slíka ábyrgð eins og hann heldur því fast fram nú, að ríkið sje í ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum bankans án þess það sje sjerstaklega lögákveðið, og því þurfi enga slíka heimild. Og jeg ímynda mjer, að hv. þm. sje geðfeldara að lesa sjer til í sínum eigin ræðum það, sem þarf til þess að upplýsa og hrekja þessa skoðun, heldur en að jeg fari að lesa það yfir honum í minni ræðu.

Það, sem jeg nú hefi sagt, snertir aðeins hina lagalegu hlið ábyrgðar ríkissjóðs fyrir skuldbindingum bankans. Um hina siðferðilegu hlið ætla jeg ekki að fara frekari orðum en jeg gerði við 2. umr.

Það er hugarburður einn hjá hv. þm., að í þessu ákvæði, sem sett er inn í 1. gr. frv., birtist kali til Landsbankans. Það er og hæpið, að háttv. þm. geti, án þess að vega að sjálfum sjer, haldið því fram, að þessi till., þótt hún komi frá okkur andstæðingum hans, sje af slíkum rótum runnin, þar sem hann hefir sjálfur haldið fram sömu skoðun á þessu þingi, án þess honum væri brugðið um, að skoðun hans væri sprottin af kala til Landsbankans.

Þá skal jeg aðeins geta þess út af því, sem hv. þm. sagði um þingsetu bankastjóra, að jeg hefi áður í umræðunum gert grein fyrir ástæðum mínum til þess að leggja til, að sama ákvæðið skuli ganga jafnt yfir stjórnskipaða bankastjóra Íslandsbanka eins og bankastjóra Landsbankans. Það er hvorki af kala til bankans nje löngun til að hindra andstæðinga mína frá þingsetu. Jeg álít það beinlínis nauðsynlegt vegna hagsmuna Íslandsbanka sjálfs.

Svo skal jeg að síðustu út af brtt. á þskj. 441 segja það, að mjer þykir leitt, úr því að hún hefir verið lagfærð frá því við 2. umr., að hv. þm. og flm. (JJ) skyldi ekki bera sig saman við einhverja aðra, t. d. mig, svo að till. yrði orðuð svo, að hægt væri að setja hana inn í frv. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert við það að athuga, að heldur sje ýtt undir, að sparisjóðsdeildin láti kaup á jarðræktarbrjefum sitja fyrir öðrum brjefum, eftir því sem fært þykir. En að öðru leyti á það ákvæði frekar heima í reglugerð heldur en lögum, af því að erfitt er, eins og líka sjest á till., að orða það svo, að altaf geti átt við. Það getur staðið svo á, að skyldan einskær verði ræktunarsjóðnum til ógagns. Jeg ætla ekki að fara út í það nje skýra með hugsanlegum tilfellum, en aðeins minna á, að sú tilhögun, sem brtt. fer fram á, gerir það að verkum, að sterk stofnun, sem sje Landsbankinn, kemst í þá aðstöðu gagnvart ræktunarsjóðnum, að hún hefir hag af því, að gengi jarðræktarbrjefanna sje sett niður. Þótt mjer detti ekki í hug, að Landsbankastjórnin mundi nota sjer þessa aðstöðu, álít jeg samt óviðfeldið og óhentugt að skapa þannig hagsmunaandstöðu milli tveggja svo nýtra og mikilsverðra stofnana sem ræktunarsjóður og Landsbankinn, eða sparisjóðsdeild hans, eru. Það er ekki hægt að ákveða þetta í lögum svo vel fari, nema svigrúm gefist til þess að taka fult tillit til ástandsins á hverjum tíma. Jeg tel rjett að binda skyldu sparisjóðsdeildarinnar um kaup á jarðræktarbrjefum við það, að stjórn ræktunarsjóðs óski eftir, að bankinn kaupi svo og svo mikið. Mjer þykir leiðinlegt að verða áð banda hendinni móti till., sem óefað er hugsuð ræktunarsjóðnum til eflingar. En jeg sje mjer ekki fært að greiða atkvæði með þessari till., því að hún er svo einskorðuð, að ræktunarsjóðnum getur orðið til ógagns, þótt til hins gagnstæða sje ætlast.