27.04.1927
Efri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

20. mál, Landsbanki Íslands

Ingvar Pálmason:

Jeg vildi gera lítilsháttar fyrirspurn til háttv. meiri hl. nefndarinnar, sem jeg óska að fá svarað. Það er viðvíkjandi því, hvernig skilja beri 2. málsgr. 42. gr. frv., sem hljóðar svo: „Eigi mega bankastjórar nje starfsmenn vera skuldskeyttir bankanum, nema veðdeild, hvorki skuldunautar nje ábyrgðarmenn annara“. Jeg óska að fá því svarað, hvort þetta ákvæði gildir líka um bankaráðið. Mjer skilst ekki síður áríðandi, að það gildi líka um bankaráðið, en jeg efast um, að hægt sje að fá þann skilning út úr greininni eins og hún er. Ef það verður úrskurðað, að ákvæðið gildi ekki um bankaráðið, óska jeg eftir að fá að koma að skriflegri brtt. við þessa málsgr. 42. gr.