02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þetta frv. var í þingbyrjun lagt fyrir hv. Ed., og var því þá áð efni mjög lítið breytt frá samnefndu frv., sem þessi hv. deild samþykti í fyrra. Jeg geri því ráð fyrir, að aðaltilhögun þeirra mála, sem frv. fjallar um, sje öllum hv. þdm. kunnug. Í meðferð málsins í háttv. Ed. hafa orðið á frv. nokkrar breytingar, en þó engar, sem raska þeim höfuðgrundvelli frv., að Landsbankanum sje fengin seðlaútgáfan og honum jafnframt skift í tvær deildir, sparisjóðsdeild og seðlabanka. Jeg mun ekki lýsa hverri einstakri breytingu, er hv. Ed. gerði á frv., en aðeins geta tveggja þeirra veigamestu. Önnur er sú, að 15 manna nefnd, er Alþingi átti að kjósa og hafa skyldi yfirstjórn bankans með höndum, er alveg feld niður. Mjer mun óhætt að segja, að ástæða hv. Ed. til þess hefir fyrst og fremst verið sú, að ekki fjölmennara en okkar Alþingi er, hefir deildinni fundist, að það gæti sjálft kosið bankaráð, og að öðrum störfum Landsbankanefndarinnar mætti koma fyrir á fullnægjandi hátt. Hitt atriðið er um starfsemi bankaráðsins. Í hv. Ed. hefir orðið sú aðalbreyting á starfstilhögun bankaráðsins, að þar sem í stjfrv. var gert ráð fyrir, að formaður ætti daglega fund með framkvæmdarstjórn bankans, þá er komið í staðinn, að formaður og tveir aðrir bankaráðsmenn komi daglega í bankann til eftirlits. Til þess er ætlast, að þeir hafi sjerstakt herbergi í bankanum og geti þar farið í gegnum bækur undanfarinna daga og annað, er þeim þykir ástæða til. — Jeg get ekki annað en fallist á, að þetta sje eins góð tilhögun, að ætla bankaráðinu eftirlitsstörfin, enda þótt jeg játi, að það geti verið álitamál. Þetta eru höfuðbreytingar þær, er frv. hefir orðið fyrir; hitt eru smáatriði, og af því að málið var svo ítarlega rætt hjer í fyrra, fjölyrði jeg ekki um það, en legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til hv. fjhn.