23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, hvenær þessi lög eigi að öðlast gildi. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) heldur fast við sína brtt. og hv. 2. þm. Eyf. (BSt). En jeg vil beina eindreginni ósk til háttv. deildar, að hún breyti ekki því ákvæði, sem stendur í frumvarpinu. Það er sökum þess, að jeg get búist við, að það valdi einhverri óánægju annarsstaðar, sem við megum ekki við. Það er ómögulegt fyrir hv. 4. þm. Reykv. (HjV) eða nokkurn annan að halda því fram, að það hafi stórmikla þýðingu fyrir þetta mál, hvort lögin öðlast gildi 2 mánuðum fyr eða síðar. Þau eru vissulega fyrir framtíðina, en ekki eingöngu fyrir þetta næsta sumar.