02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

20. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Mjer þykir rjett að minna nú á eitt atriði, sem raunar mætti eins koma til umræðu í sambandi við síðasta mál á dagskrá, stjórnarskrárbreytinguna. — Það kom fram í meiri hl. milliþinganefndarinnar um bankamál í fyrra, að aðalhættan af því, að ríkið ræki bankastarfsemi, lægi í því, að ríkisvaldið kæmi til með að hafa of mikil tök á bankanum og gæti misnotað þau, ef illa færi. Dálítið er reynt að koma í veg fyrir þetta, með því að taka upp í frumvarpið ákvæði um takmörk fyrir því, hve mikið og til hve langs tíma bankinn megi lána ríkissjóði. En það er þó hætta, sem oft hefir komið fram erlendis, einkum þó í einvaldsstjórnarlöndum, að ríkisvaldið misnotaði bankana í sína eigin þágu. Víða hafa menn ekki sjeð önnur ráð til tryggingar gegn þessu en að skjóta inn millilið milli bankanna og valdhafanna, hafa fengið hluthöfum þá til eignar að meira eða minna leyti. — Í Danmörku var það t. d. svo, að enginn treysti ríkisbankanum, meðan það var álit manna, að stjórnin hefði full tök á að fá fje að láni úr bankanum. — Það er vitanlegt, að fyrir þessa hættu verður ekki girt nema að litlu leyti með ákvæðum í sjálfum Landsbankalögunum. Þeim væri hægt að ryðja úr vegi á einu þingi. Því lagði meiri hl. nefndarinnar til, að ákvæði um þetta væru tekin upp í stjórnarskrána, næst þegar henni væri breytt hvort sem er. Þetta kom ekki neitt til, þegar málið var til meðferðar í fyrra, vegna þess að þá var engin breyting á stjórnarskránni á döfinni; jeg held engum hafi dottið í hug að gera stjórnarskrárbreytingu einungis fyrir þetta atriði. Enda farast líka meiri hl. milliþinganefndarinnar þannig orð — að mig minnir —, að þeir leggja til, að þessi ákvæði verði tekin upp í stjórnarskrána, þegar breyting verður gerð á annað borð. Jeg hafði því hugsað mjer í samræmi við þetta nál., sem jeg hefi undirskrifað, að bera fram brtt. við stjórnarskrárfrumvarpið um þetta atriði.

Mjer þótti aðeins rjett að minnast á þetta, því að þó að það verði að ræðast í sambandi við hitt málið, þá er það viðkomandi þessu máli. Því minnist jeg á þetta við 1. umr., að hitt málið er á förum úr deildinni; er að vísu óheppilegt, að þetta mál sje ekki lengra komið, áður en stjórnarskrármálinu er fullkomlega til lykta ráðið.