02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

20. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg verð að játa, að mjer kom það nokkuð á óvart, að þetta mál skyldi koma svo fljótt fyrir. Jeg hafði tekið það skakt eftir, að jeg taldi stjórnarskrármálið eiga að koma fyrir á undan; auk þess hafa verið tekin af dagskrá mál, sem voru á undan þessu, og hefir það flýtt fyrir.

Jeg hafði hugsað mjer að koma að nokkrum athugasemdum í sambandi við þetta mál, en af þeim ástæðum, er jeg hefi nefnt, er jeg ekki búinn að undirbúa mig til þess eins og jeg hefði óskað. En jeg get ekki látið 1. umr. líða svo hjá að koma ekki að nokkrum aths. Að vísu var þetta mál til rækilegrar íhugunar í fyrra hjer í hv. deild; en það ber nú að öðruvísi en þá að ýmsu leyti.

Það, sem jeg vil vekja athygli á, er atriði, sem fyrir tilverknað hæstv. forsrh. hefir komið fram í hv. Ed. Hæstv. ráðh. hefir gert grein fyrir því, að málið hafi tekið nokkrum breytingum í hv. Ed. og talið þær aðallega skipulagsatriði. Jeg verð að vera hæstv. forsrh. mjög ósammála um þetta. Jeg álít, að með hliðsjón af þeim ískyggilegu tímum, sem nú eru, þá hafi af hálfu hæstv. ráðh. komið fram í hv. Ed. hlutir mjög alvarlegs eðlis. Önnur till., sem samþykt var við 1. gr., og hin, sem kom frá meiri hl. fjhn. og hann veitti stuðning sinn, — þetta eru atriði, sem að mínu áliti eru miklu stærri og merkilegri heldur en þau formsatriði, sem hæstv. ráðh. var að gera grein fyrir, að breyst hefðu í hv. Ed. 1 1. gr. frv. stendur nú, að Landsbankinn sje eign ríkisins, en samt samþ. hv. Ed. brtt. hæstv. forsrh. um að lýsa því yfir síðar í greininni, að ríkið ætli sjer ekki að bera ábyrgð á þessari stofnun. Og þó á ríkið að skipa menn í stjórn bankans.

Það er nú kannske af því, að jeg fylgi þeirri stefnu, sem samvinnufjelögin byggjast á, þar sem það er grundvöllurinn undir fjelagslegri starfsemi, að menn bera fullkomna ábyrgð á sínum skuldbindingum — í mótsetningu við hlutafjelögin — að jeg get ekki látið þessu atriði ómótmælt, að ríkið reki stofnun, bjóði mönnum að koma með sparifje sitt, setji lög um stofnunina, skipi menn til að veita henni forstöðu, og svo eigi ríkið að afneita allri ábyrgð á sinni eigin stofnun. Þetta kann að vera í samræmi við lífsskoðun þeirra manna, sem álíta ekkert að athuga við það að stofna hlutafjelög, er taki stórkostleg lán, en hluthafar beri enga ábyrgð á tapi, ef illa gengur, en hirði aðeins gróðann, ef vel gengur. En út frá sjónarmiði hinna, sem álíta, að ef menn taki gróðann, eigi þeir líka að bera ábyrgð á tapi, að svo miklu leyti sem geta þeirra fellur til, — út frá því sjónarmiði verð jeg eindregið að mótmæla þessu, að ríkið reki slíka stofnun, sem það vill ekki bera ábyrgð á.

Nú hefir því miður farið svo í okkar landi, að hallast hefir hagur okkar ákaflega mikið, bæði einstaklinga og stofnana. Það er vitanlega sumpart af óviðráðanlegum hlutum, svo sem breytingum á verðlagi í umheiminum; en það er ekki árferði að kenna, því að það var framúrskarandi gott. Þessi mikli afturkippur í okkar fjármálalífi er að langmestu leyti að kenna þeirri misvitru fjármálastjórn, er við höfum átt við að búa undanfarin ár, sem hefir leitt yfir okkur þá ógæfu á mjög stuttum tíma, að peningagildið hefir raskast svo, að stórtöp hafa yfirleitt orðið á öllum atvinnurekstri í landinu. Fjármálaástandið og horfurnar eru svo alvarlegar, að flestum hrýs hugur við. Og þar sem tímarnir eru nú svo alvarlegir, þá held jeg því fram, að það verði að leggja á það sjerstaka áherslu gagnvart aðalpeningastofnun landsins, að að henni sje búið vel í alla staði og ekkert sje gert til þess að hnekkja áliti þeirrar stofnunar, — ekkert gert til þess að skapa óró kringum hana. Þó að við eigum allir, sem sitjum á Alþingi, að gegna þessari skyldu í ríkum mæli, þá verður þó skyldan fyrst og fremst að hvíla á fjármálaráðherra.

Jeg vil benda á, að auk þess, sem jeg álít þetta atriði, sem hæstv. fjrh. kom með inn í bankafrv., ósiðferðilegt, þá er það líka hlutur, sem er til þess fallinn að veikja traust manna á banka landsins, að hæstv. fjrh. skuli nú, þegar málið er búið að vera lengi í meðferð — meðal annars í milliþinganefnd — grípa tækifærið til þess að bera fram slíka till., að ríkissjóður ætli ekki að bera ábyrgð á banka landsins. Slíkum firnum verð jeg að mótmæla.

Þá vil jeg benda á annað atriði í meðferð fjhn. Ed. og hæstv. fjrh. á frv. í Ed., sem jeg verð mjög að áfella. Fjhn. lagði það til og hæstv. fjrh. studdi þá tillögu, að skipuð væri rannsóknarnefnd á Landsbankann. Frsm. till. er sá maður, sem vitað er um, að hann er hinn tortryggasti gagnvart bankanum, og til skýringar þessari rannsókn vitnaði hann í hina alræmdu ofsóknarrannsókn á hendur Landsbankanum 1909. — Þetta verður ekki síður til þess að sýna, að fjármálaráðherra landsins vill gera ráðstafanir til þess að gera þjóðbankann tortryggilegan. Jeg vil taka þetta tækifæri til þess að benda á þetta atriði og mótmæla því. Vegna minnar sjerstöku aðstöðu til þess að vera kunnugur þessari stofnun, þar sem jeg er yfirskoðunarmaður bankans, þá vil jeg lýsa því yfir út frá mínum kunnugleika, að jeg tel algerlega ástæðulaust að láta slíkt koma fram gagnvart bankanum. Jeg vil gera ráð fyrir, að það mundi vera torvelt að fá menn, sem væru betur færir að standa fyrir bankanum — að öllu samantöldu — heldur en þá, sem nú stýra honum, og því sje það ómaklegt að láta slíkt koma fram gagnvart Landsbankanum.

Þótt jeg sje reiðubúinn — eins og á síðasta þingi — til þess að fylgja málinu í því stóra atriði að gera bankann að seðlabanka, þá verð jeg að nota fyrsta tækifærið til að mótmæla, að annað eins og áðurnefnt ákvæði í 1. gr. sje látið standa í bankalögunum, frá hvaða sjónarmiði, sem á það er litið. Og jeg vil gjarnan segja það strax, að þótt jeg sje sammála þessum lögum að öðru leyti, þá mundi jeg aldrei geta fallist á að samþ. frv. með þessu atriði. Jeg vil eindregið beina því til þeirrar nefndar, sem fær málið til athugunar hjer, að hún afgreiði það á þeim grundvelli, að taka úr því þetta atriði. Jeg segi það enn sem sá maður, sem vel þekkir til þessa banka, að það er alveg ástæðulaust að stofna til slíkrar rannsóknar á bankann, samhliða þessu ákvæði, sem hæstv. fjrh. hefir komið með inn í 1. gr. Jeg álít alveg óforsvaranlegt, einkanlega eins og fjármálaástandið er hjer á landi, að fjármálaráðherra hafi slíka aðstöðu.

Ef jeg hefði búist við, að þetta mál hefði komið svo fljótt, þá hefði jeg undirbúið mig frekar að gera grein fyrir því, að hve miklu leyti jeg álít það mjög illa farið, að þetta er komið fram, einkanlega á slíkum alvarlegum tímum, þar sem jeg vildi láta koma fram þá áskorun til fjvn. deildarinnar, að hún tæki mjög greinilega afstöðu móti þeim atriðum, sem fram komu frá hæstv. fjrh. (JÞ) gagnvart Landsbankanum við afgreiðslu málsins í hv. Ed.