02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

20. mál, Landsbanki Íslands

Klemens Jónsson:

Mjer heyrðist á hv. 1. þm. Reykv., að hann vildi vjefengja það, að frv. þetta væri löglega fram borið og að málið kæmi í bág við 30. gr. stjórnarskrárinnar, og ætti því að vísa því frá samkv. 27. gr. þingskapanna. Og hann skaut því til forseta að gefa úrskurð um þetta við 2. umr.

Jeg tel víst, að fjhn. fái mál þetta til athugunar, en hún á nú mörg mál óafgreidd, því að hún hefir ekki getað haldið nema einn fund nú í hálfan mánuð. En ef svo skyldi fara, að forseti úrskurðaði við 2. umr., að málið væri ólöglega upp borið, þá er óforsvaranlegt að láta fjhn. leggja mikla vinnu í málið áður, þar sem hún hefir nóg önnur verkefni. Jeg vil því fara þess á leit við hæstv. forseta, fyrir hönd nefndarinnar, að hann kveði nú þegar upp úrskurð um það, hvort málið er löglega fram borið eða ekki.