02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

20. mál, Landsbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vænti eins og fleiri hv. þm., sem talað hafa, að hæstv. forseti taki til athugunar ákvæðið um þingsetu bankastjóranna.

Það er alveg greinilegt, að þó að þetta ákvæði hafi nú verið orðað um, þá gildir það sama sem fyr.

Það er líka enginn efi á því, að ákvæði stjórnarskrárinnar hjer að lútandi er gert í þeim tilgangi, að ekki sje hægt að setja embættismönnum stólinn fyrir dyrnar í þessu efni. Þeim er heimilað að sitja á þingi, ef þeir setja annan mann til að gegna stöðu sinni á meðan. En hjer er mönnum hótað með atvinnumissi, ef þeir verða alþingismenn, bæði bankastjórum og bankaráðsmönnum.

Það hefir líka yfirleitt þótt brenna við hjá íhaldsmönnum, að þeir hafa viljað beita pólitískri andstöðu svo, að menn hafa ýmist átt á hættu að missa eða ekki getað fengið stöður, ef þeir voru á öndverðum meiði og stóðu framarlega í stjórnmálum.

Brjef Ólafs prófessors Lárussonar segir það alment viðurkenda rjettarreglu, að hver einstaklingur beri með öllum eignum sínum ábyrgð á þeim skuldbindingum, sem hann bakar sjer. Þetta gildir auðvitað jafnt um einstaklinga og ríki.

Nú virðist það svo, sem það sje skoðun hæstv. forsrh., að þegar búið sje að búa um Landsbankann með frv. þessu, þá sje hann ekki lengur ríkisstofnun; ríkið eigi þá ekki lengur bankann nje eignaaukningu hans.

En mjer er spurn, — ef ríkið á ekki Landsbankann, hver á hann þá?

Hæstv. ráðh. vildi líta svo á, að ef Landsbankinn fengi 5 milj. kr. stofnfje, þá væri ekki ástæða til að óttast um gjaldþol hans, hvorki fyrir innlendum eða erlendum skuldheimtumönnum eða innstæðueigendum. En nú er það vitanlegt, að Íslandsbanki hefir haft 41/4 milj. kr. hlutafje, meðan peningarnir voru meira virði en þeir eru nú, — og hvernig hefir farið með traust manna á honum? Íslandsbanki hefir stórtapað, og síðastliðið ár mun hafa verið tekið úr honum um 6 milj. kr. af innstæðufje. Það sýnir best traust manna á bankanum, að innstæðueigendur hafa farið þaðan með sparifje sitt.

En úr því að svona fór með Íslandsbanka, væri þá ekki ástæða til, að eins gæti farið með Landsbankann, ef ríkissjóðsábyrgðin, sem allur almenningur ber traust til, hyrfi? Það er því miður ekki víst, að Landsbankanum verði altaf svo vel stjórnað, að ekki geti óhöpp komið fyrir.

Það er alls ekki sambærilegt, hvað erlendir seðlabankar eru miklu sterkari og sjálfstæðari stofnanir en Landsbankinn, og það er óhugsandi, að þetta yrði ekki til þess að rýra stórum traust manna á gjaldþoli bankans.

Það kom mjög greinilega fram í ræðu hæstv. forsrh., til hvers refirnir eru skornir. Hann sagði beinlínis, að ef ríkissjóðsábyrgð stæði á bak við bankann, þá mundi sparifje landsmanna sogast þangað og hann yrði aðalpeningastofnunin í landinu. Menn skyldu nú halda, að þegar verið er að ganga frá aðalbanka landsins, þá sje reynt að styrkja hann sem mest, en ekki hitt, að veikja aðstöðu hans með því að búa svo um, að aðrir bankar geti náð af honum miklu af því innstæðufje, sem hann hefir nú. En einmitt þetta er tilgangurinn hjá hæstv. ráðh. Það er ekki hægt að segja, að slík ráðstöfun sje til að styrkja Landsbankann.

Annað atriði vildi hæstv. ráðh. ekki tala um, og það er vöxtun opinbers fjár. Ef það er lagt á vöxtu í Landsbankanum, þá getur það munað bankann miklu, því að hjer er um mikið fjármagn að ræða, sem verður veltufje bankans. Það er því mikils um vert fyrir Landsbankann, að fastákveðið sje, að opinbert fje skuli ávaxtast í honum. Innstæðufje hins opinbera gæti horfið úr Landsbankanum, ef aðrir bankar gætu kept við hann með hærri vöxtum, og hann yrði þá að ná því fje aftur með því að hækka sína innlánsvexti.