02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jakob Möller:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla að segja.

Hæstv. forsrh. (JÞ) heldur því fram enn sem fyr, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans.

Um þetta vísaði hann til lögfræðinga jafnfærra þeim prófessor, sem látið hefir uppi álit sitt um þetta efni. Ennfremur vísaði hann til laganna frá 1885, og hafði það eftir lögfræðingi, að þau lög yrðu að skoðast tæmandi um þetta efni. Það út af fyrir sig er auðvitað ekki annað en staðhæfing, sem ekkert gildi hefir.

Ef hæstv. ráðh. vill athuga þessi lög, þá vil jeg benda honum á 32. gr. Hún er á þessa leið:

„Ef svo skyldi fara, að bankinn yrði lagður niður, eða framkvæmdir bankans hætti að fullu, skal fyrst greiða öllum lánsölum bankans allar skuldakröfur þeirra, að undanskildum landssjóði sem lánssala að seðlaupphæð þeirri, er hann hefir lánað bankanum. Þær eignir, sem þá eru eftir, renna í landssjóð og leysir hann síðan til sín hina útgefnu seðla með fullu ákvæðisverði“.

Jeg sje ekki annað en að þessi grein geti talist tæmandi í hina áttina, um ábyrgð ríkissjóðs á bankanum; segir greinin ákveðið, að ef bankinn legst niður, þá skuli greiða allar skuldakröfur án tillits til þess, hvort eignirnar hrökkva fyrir þeim, og virðist það tæmandi í þá átt, að ríkið beri fulla ábyrgð á bankanum.

Út af hinu atriðinu, sem jeg talaði um, ákvæðum 42. gr., sem svifta bankastjórana rjetti til þess að vera alþingismenn, eða alþingismenn rjetti til þess að vera bankastjórar, þá skildist mjer hæstv. forsrh. (JÞ) gera mikið úr því, að deilan um þetta væri ekki sprottin vegna þess að Landsbankastjórunum væri bönnuð þingseta, heldur vegna hins, að bankastjórar Íslandsbanka væru teknir með. Það er nú eðlilegt, að það vekti athygli, er þeir voru teknir með, af því að sá eini bankastjóri, sem setið hefir á þingi, einmitt er bankastjóri Íslandsbanka og er ákveðinn andstæðingur hæstv. stjórnar. Hinsvegar munu margir hafa litið svo á, sem bankastjórar Landsbankans hirði ekki um að eiga sæti á þingi og þetta ákvæði sje beinlínis komið inn í frv. eftir ósk þeirra. En þetta breytir engu um skoðun manna á því, hvort heimilt sje að hafa ákvæði um þetta í einföldum lögum. Það má færa rök bæði með því og móti, hvort heppilegt sje, að bankastjórar vasist í stjórnmálum. En ef það er álitið rjett að banna þeim þingsetu, þá er önnur leið heppilegri en sú, sem hjer er farin, sem sje að setja ákvæði um þetta inn í stjórnarskrárfrv., sem hjer er borið fram af hæstv. stjórn. Þá tel jeg málið vera formlega fram borið. Jeg ætla mjer ekki að koma fram með brtt. við stjórnarskrána þessa efnis, jeg tel það ekki mitt hlutverk, en það er ómögulegt annað en viðurkenna það, að betur færi á því að hafa ákvæði um þetta í sjálfri stjórnarskránni. Mjer finst, að hæstv. forsrh. (JÞ) gæti vel komið fram með slíka brtt.