13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu hennar á málinu, og sjerstaklega fyrir það, að mjer virðist, að nefndin í brtt. sínum hafi lagt stund á það að reyna að koma til móts við hv. Ed. um þær breytingar, sem þar voru gerðar á frv., og hefir hv. nefnd þannig getað fallist á tvær veigamestu breytingarnar, sem gerðar voru í hv. Ed., sem sje það, að kippa landsbankanefndinni úr frv. og breytinguna á tilhögun um starfsemi bankaráðsins.

Þá skal jeg minnast á nokkrar af brtt. hv. nefndar, á þskj. 561, og byrja þá á fyrstu brtt., sem jeg hefi einna mest við að athuga, og þá í sambandi við þær aðrar tvær brtt., sem beinlínis fylgja henni. Þessi brtt. við 7. gr. fer fram á það, að niður falli síðasti málsliður þar, svo hljóðandi: „Útibúum bankans er eigi skylt að leysa inn seðla eða kaupa gull nema bankaráðið mæli svo fyrir“.

Í staðinn fyrir þetta vill svo háttv. nefnd setja: „Bankaráðið getur falið útibúum sparisjóðsdeildar að innleysa seðla og kaupa gull“.

Ástæðan fyrir þessari brtt. háttv. nefndar mun fyrst og fremst vera sú, að við skiftin á milli seðlabankans og sparisjóðsdeildarinnar eigi öll núverandi útibú Landsbankans að falla til sparisjóðsdeildarinnar. Jeg hefi borið mig saman um þetta við núverandi stjórn Landsbankans, og það er líka hennar álit, að þannig muni þessi skifti eiga að verða. En þar með er í sjálfu sjer ekki neitt sagt um það, hvort seðlabankinn fái útibú, en í kaflanum um seðlabankann er beinlínis sagt, að honum sje heimilt að setja upp útibú eða hafa í framtíðinni.

Þetta frv. er þannig gert, að í framtíðinni má skilja sparisjóðsdeidina alveg frá seðlabankanum og setja hana undir aðra stjórn, og það gæti þá að minsta kosti hugsast, að menn vildu, að seðlabankinn sjálfur hefði einhversstaðar útibú. Jeg teldi þó ekki í rauninni nauðsynlegt að gera ráð fyrir slíku útibúi í frv. nú þegar, því að náttúrlega má á eðlilegan hátt bæta því við seðlabankalöggjöfina, hvenær sem þurfa þykir, að seðlabankinn megi setja upp útibú. Jeg gæti þess vegna fallist á það til samkomulags, að niðurlagsorð 7. gr. falli niður, en vil þá leiða athyglina að því, að þá þyrfti ýmislegt fleira að falla burt, sem hv. nefnd hefir ekki stungið upp á, því að í ýmsum ákvæðum frv. er gert ráð fyrir útibúum frá seðlabankanum, þótt sparisjóðsdeildin sje frá honum skilin. Það er sem sje í 2. gr. frv., síðar í 38. gr. og máske á fleiri stöðum, sem gert er ráð fyrir þessum útibúum, án þess þó að neinstaðar sje það orðað þannig, að skylt sje, að seðlabankinn hafi útibú. En hv. nefnd hefir orðað sína brtt. við 7. gr. á þá leið, að bankaráðið geti falið útibúum sparisjóðsdeildar að innleysa seðla og kaupa gull. Þetta hygg jeg, að ekki geti staðist, af þeirri ástæðu, að nefndin leggur til, að 9. gr. frv. verði þannig orðuð, að gullforði bankans samkvæmt a- og b-lið skuli ávalt vera til staðar í bankanum. Eftir þessu verður það ekki heimilt að hafa gullforða í útibúum sparisjóðsdeildar, enda hygg jeg enga þörf á því. Það mundi yfir höfuð ekki verða vegna gullinnlausnarskyldu þörf á neinni útibúastarfsemi fyrir seðlabankann. Það er raunar ein hlið á hans starfsemi, sem sjerstaklega getur gert það æskilegt, að til sjeu útibú, og það er það, að seðlar sjeu fyrirliggjandi annarsstaðar en í Reykjavík, þannig að aðrar peningastofnanir geti fengið seðla án þess að þurfa að sækja þá til Reykjavíkur. Þetta, að hafa seðlana fyrirliggjandi, er náttúrlega hægt að gera án þess að til komi útibú frá seðlabankanum, en mjer finst, eins og þetta ber að hjá nefndinni, að rjettara væri að fella 1. brtt. hv. nefndar, nema hún vilji fallast á að taka hana aftur; en jeg fyrir mitt leyti skyldi ekki setja mig á móti því, að numin væru úr seðlabankakaflanum öll ákvæði, sem gera ráð fyrir því, að seðlabankinn hafi útibú, án þess þá að neitt sje sett þar í staðinn.

Það er líka af annari ástæðu, sem ekki fer vel á því að samþykkja þessa brtt., að kaflaskiftin í þessu frv. eru að minni hyggju svo hrein, að í 2. kafla er ekkert ákvæði um sparisjóðsdeildina, en brtt. fer fram á, að þar sje sett inn ákvæði um hana, sem getur staðist á meðan deildirnar eru saman, en sem fer illa í seðlabankalögunum eftir að aðgreining er komin á.

Í samræmi við það, ef 1. brtt. hv. nefndar fellur, þá á brtt. við 9. gr. að fylgja þar með, þó að hún geti staðist, ef þá verður feld niður síðasta málsgrein í 7. gr. Aftur er það svo um 5. brtt. b., við 13. gr., um það, að síðasta málsgrein þeirrar greinar falli niður, að hún getur staðist út af fyrir sig, þótt hún snerti þetta málefni. Þessi grein kveður svo á, að útibú seðlabankans skuli og taka við innlánsfje með sparisjóðskjörum, ef svo verður ákveðið í reglugerðum þeirra. Þetta má náttúrlega fella burtu, og með því er þá slegið föstu, að öll þau útibú, sem Landsbankinn hefir nú, verði að teljast til sparisjóðsdeildar, og jeg hygg, að með þeirri breytingu einni myndi hv. nefnd komast að því, sem hún óskar eftir, án þess að komast í ósamræmi í ákvæðum frv.

Svo ætla jeg að hlaupa yfir allar þær brtt. hv. nefndar, sem jeg hefi ekkert annað að segja um en að jeg fyrir mitt leyti get fallist á þær, og kem jeg þá næst að 9. brtt., við 34. gr., sem er um kosningu í bankaráðið. Þar er ekkert verulegt, sem jeg hefi að athuga; sjerstaklega get jeg verið samþykkur c-liðnum, um það að færa laun bankaráðsmanna í það horf, sem var í stjfrv., 4000 og 2000 krónur. Mjer finst það nægilegt, en það er náttúrlega álitamál, hvort rjettara er. Eins er það með uppástungu háttv. nefndar um, að sameinað Alþingi kjósi 4 bankaráðsmenn, eða að þingdeildirnar kjósi sína tvo hvor, en það er náttúrlega eðlilegt, að sú deildin, sem fámennari er, kjósi heldur að vera út af fyrir sig, því að í sameinuðu þingi gætir hennar atkvæðamagns minna. En jeg er ekki að gera þetta að neinu deilumáli.

Í 36. gr. vill hv. nefnd fella niður ákvæðið um dýrtíðaruppbót til bankastjóranna og setja þar bráðabirgðaákvæði inn í frv., og jeg tel það til bóta, því að þau eiga betur heima í bráðabirgðaákvæðum; en þá furðar mig á, að hún hefir ekki gert sömu uppástungu um dýrtíðaruppbót bankaráðsmanna, í 34. gr., því að það virðist, sem það ætti þá líka betur heima í bráðabirgðaákvæðum.

Þá ætla jeg næst að minnast ofurlítið á.13. brtt., við 39. gr., þar sem nefndin stingur upp á öðru orðalagi í ákvæðunum um starfsemi framkvæmdarstjóranna. Það er ekki mikil efnisbreyting í þessu frá frv. eins og það er nú, og jeg fyrir mitt leyti skal sjerstaklega taka það fram, að jeg get fallist á það, sem hv. nefnd stingur upp á viðvíkjandi afstöðu bankastjóranna hvers til annars og til þeirra ákvarðana, sem teknar eru að jafnaði, að það sje ekki gert neitt verulegt, ef einn bankastjórinn er því mótfallinn, og alls ekkert, ef aðalbankastjórinn er því mótfallinn. En það hefir fallið burt við þessa nýju orðun ákvæðisins málsgr., sem stendur í 39. gr., um það, ef ágreiningur verður á milli bankastjóranna, þá skuli ágreiningsatriðið lagt fyrir bankaráðið. Það getur vel verið, að þetta sje fullfast ákveðið í frvgr., en af því að ekkert tilsvarandi ákvæði stendur í till. hv. nefndar, vil jeg taka það fram, að það leiðir af stöðu bankaráðsins, að sá framkvæmdarstjóri, sem krefst þess, að eitthvað sje lagt fyrir bankaráðið, hann getur líka borið það þar upp, þó að ekki standi neitt um það í þessari grein. En það er náttúrlega í sjálfu sjer æskilegast, að sem sjaldnast þurfi að koma til þess, að ágreiningur milli bankastjórnarinnar um hennar framkvæmdarstjórnaratriði þurfi að koma til bankaráðsins, því að það fer náttúrlega best á því, að framkvæmdarstjórn og það eftirlit, sem bankaráð á að hafa, sje nokkuð mikið aðgreint; en rjettinn til að koma með mál til bankaráðsins, það hygg jeg að hver bankastjóri hafi.

Þá kem jeg að 14. brtt. hv. nefndar, við 42. gr., að burt falli orðin: „Alþingismenn mega ekki vera bankastjórar“. Þetta er ákvæði, sem talað hefir verið ákaflega mikið um utanþings, og þar á meðal í blöðunum, en raunar verið mjög lítið minst á við umr. í þinginu, enda er það í fyrsta skifti, sem liggur fyrir till. um að nema þetta ákvæði burt, eða till., sem sjerstaklega snertir efni þessa ákvæðis. Jeg vil nú minna á, að þetta ákvæði er óbreytt að efni til eins og það var upphaflega sett í frv. milliþinganefndar í bankamálum, sem tveir hv. þm. þessarar deildar, hv. frsm. nefndarinnar (MJ) og hv. þm. N.-Þ. (BSv), áttu sæti í, og formaður þessarar nefndar var enginn ómerkari maður en sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, Sveinn Björnsson, og vera hans í nefndinni sýndist vera sæmileg trygging fyrir því, að frá nefndinni kæmu ekki uppástungur, sem færu í bág við stjórnarskrána. Þess vegna tók stjórnin þetta ákvæði upp í sitt frv., sem hún lagði fyrir þingið 1926, og hún tók það ennfremur upp vegna þess, að hún var sammála því, sem frsm. þá sagði fyrir munn hv. meiri hl. nefndarinnar, að þetta ákvæði væri hentugt að efni til og að það væri æskilegt, að alþingismenn væru ekki bankastjórar. Og með þessu ákvæði gekk frv. svo gegnum þrjár umr. í þessari hv. deild á síðasta þingi og var samþykt við allar umr., án þess að nokkur maður orðaði það, að þetta ákvæði kynni að fara í bág við stjórnarskrána. En svo þegar stjórnin lagði þetta frv. fyrir þingið í vetur, þá hafði því verið bætt inn í eina frvgr., að þetta ákvæði skyldi líka taka til hinna stjórnskipuðu bankastjóra Íslandsbanka, en þegar búið er að setja það samræmi inn í frv., að láta það taka til þeirra sem hinna, þá breyttist skyndilega veður í lofti. Háværar raddir, bæði utanþings og innan, heyrðust um það, að þetta ákvæði stríddi á móti stjórnarskránni; en jeg geri nú, satt að segja, heldur lítið úr þeim lögskýringum, sem koma upp úr kafinu, þegar einhverjum þykir sjálfs sín vegna eða sinna sjerstöku vina þægilegt að grípa til þeirra, en enginn kom auga á þær, þegar málið ekki snerti hann eða hans vini sjerstaklega. Jeg ætla hinsvegar ekki að fara út í neinar deilur út af þessu, því að jeg get sagt það, að þótt jeg sje sammála hv. meiri hl. nefndarinnar um, að ákvæðið sje heppilegt að efni til, þá ætla jeg mjer ekki að leggja svo mikla áherslu á það að fá þetta ákvæði inn í frv., að jeg að svo stöddu vilji gera það að deiluatriði við hv. nefnd, sem þó hefir stungið upp á því að nema ákvæðið burtu. Jeg get sem sje vel litið svo á, sem það væri eiginlega nægileg leiðbeining fyrir bankaráðið, sem á að ráða eða skipa bankastjórana, þegar það kemur hjer fram í umr., að menn fella ákvæðið burt eingöngu vegna þess, að tvímæli hefir komist á um það, hvort það gangi of nærri stjórnarskránni, en nefndin hinsvegar lýst yfir því, að hún álítur, að ákvæðið að efninu til sje heppilegt. Í þessu finst mjer vera nægilegt aðhald fyrir bankaráðið til þess undir öllum venjulegum kringumstæðum að reyna að afstýra því, að saman fari þingmenska og bankastjórn, því að mjer hefir skilist það, að þótt einstakir menn telji það stjórnarskrárbrot, að löggjöfin nái yfir þetta, þá telji enginn það stjórnarskrárbrot, þótt vinnuveitendur í landinu geri þessa ákvörðun gildandi gagnvart þeim mönnum, sem þeir ráða til starfa fyrir sig. En jeg vil þó gjarnan bæta því við, að ef ákvæðið, þegar það er sett í lög, þykir stríða á móti stjórnarskránni, þá leiðir væntanlega þar af, að ekki má setja það í lög um nokkra aðra menn en hæstarjettardómara, sem stjórnarskráin tiltekur, að skuli vera utanþingsmenn, eða að það skuli vera skilyrði fyrir neinu verki, sem löggjöfin talar um, að sá, sem vinnur það, skuli vera utanþingsmaður. Jeg skal jafnframt benda á það, að hjá öðrum þjóðum, sem hafa svipuð ákvæði um kosningarrjett og kjörgengi og annað þessu líkt, eru menn ekki svo viðkvæmir fyrir slíku. Jeg sje það t. d. í dönskum lögum, að menn eru ekkert að hlífast við því að setja ákvæði um, að það skuli vera utanþingsmenn, sem skipaðir eru til ýmsra starfa, t. d. nefndarstarfa, svo að jeg verð að álíta, þegar því er haldið fram hjer, að þetta ákvæði stríði á móti stjórnarskránni, þá sje sú skýring svo tæp, að aðrar þjóðir treysta sjer ekki til þess að taka hana upp, — en jeg ætla sem sagt ekki að gera þetta ákvæði að neinu ágreiningsatriði.

Þá er loks síðasta, 16. brtt. háttv. nefndar, um dýrtíðaruppbót á laun bankastjóranna. — Af því að jeg hefi heyrt, að það hafi einnig verið talin tvímæli á því, hvernig bæri að skilja tilsvarandi ákvæði í núgildandi löggjöf okkar, þá vil jeg gjarnan segja, hvernig skilning jeg legg í þetta ákvæði um dýrtíðaruppbót eins og það nú er orðað í brtt. hv. nefndar; þar stendur: „Bankastjórar, aðrir en aðalbankastjóri, fá dýrtíðaruppbót af allri launaupphæðinni; dýrtíðaruppbótin reiknast með sömu vísitölu og dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins“.

Það er kannske ekki alveg ljóst, hvað þetta þýðir, en jeg tel, að það þýði það, að á yfirstandandi ári ættu bankastjórarnir að hafa í dýrtíðaruppbót 44% af allri launaupphæðinni, og jeg geri ráð fyrir, að nefndin skilji það þannig. (MJ: Já, jeg gleymdi aðeins að geta um það áðan). Það hefir grilt í þann skilning, að eftir orðalagi þessarar gr. í launalögunum, sem fjallar um dýrtíðaruppbótina, þá mætti líta svo á, að vísitala þessa árs sje ekki 44, heldur 66, þannig að ákvæðið þýddi það, að launauppbótin ætti að vera 66%. Þannig skil jeg það ekki, og óska að fá það staðfest af nefndinni, að sama gildi um ákvæðið í núgildandi lögum, sem sje að með vísitölunni sje átt við þá vísitölu, er ákveður dýrtíðaruppbót fyrir alt að 4500 kr. launum, eða 2% af þeirri vísitölu, er hagstofan reiknar út til ákvörðunar á viðauka þeim, er kemur á 2/3 launanna, alt upp að 3000 kr.

Þá er hjer brtt. frá háttv. 2. þm. Reykv. (MJ), á þskj. 562, og er um það, að við 56. gr. skuli bæta ákvæði um það, að bankaráðið ákveði, að fengnum tillögum framkvæmdarstjórnar, hver af útibúum Landsbankans skuli fylgja seðlabankanum og hver sparisjóðsdeildinni. — Jeg lít svo á, að brtt. þessi sje meinlaus, en alveg óþörf, því að í 56. gr. felst ákvæði um skiftingu milli sparisjóðsdeildar og seðlabankans, og þá um leið, að útibúunum skuli skift á milli þeirra og ákveðið, hvorri deildinni hvert útibúið fyrir sig tilfalli. En mjer kom ekki til hugar, fyr en jeg heyrði þennan skilning nefndarinnar, að það gæti komið til mála, að einhverju útibúinu yrði kannske skift, þannig að í því þyrfti að vera bókhald fyrir 2 deildir. Það var heldur ekki meiningin. En jeg hefi ekkert á móti því, að þessu sje slegið föstu með þessari brtt., þó að ekki hafi verið ætlast til, að útibúunum verði skift, heldur að hvert heilt útibú gangi til annararhvorrar deildarinnar, eftir því sem bankaráðið og framkvæmdarstjórnin koma sjer saman um og að fengnu samþykki ráðherra.

Um aðrar brtt., sem fram eru komnar, ætla jeg ekki að segja neitt að sinni, meðan ekki hefir verið gerð grein fyrir þeim.