13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

20. mál, Landsbanki Íslands

Björn Líndal:

Þó að jeg hafi átt sæti í þeirri nefnd, sem þetta mál hefir haft til meðferðar bæði í fyrra og eins nú, þá er það í fyrsta sinn, að jeg kveð mjer hljóðs um það. Ástæðan til þess, að jeg hefi ekkert látið til mín heyra, er sú, að jeg hefi ekki talið mig vera neinn sjerfræðing í bankamálum, en vitað hinsvegar, að nefndin hafði færari mönnum á að skipa en mjer til þess að halda uppi vörnum fyrir sig. Það er heldur engan veginn svo, að jeg ætli að fara að halda langa ræðu um þetta mál í heild sinni, heldur er það hitt, að jeg vildi ekki láta frv. fara svo framhjá mjer, að jeg mintist ekki lítilsháttar á eitt atriði þess, og það atriði, sem valdið hefir allmiklum deilum og er þannig vaxið, að jeg verð að líta svo á, að jeg geti nokkurnveginn eins vel um það dæmt og allur þorri hv. deildarmanna. Og þetta atriði er ákvæðið í 42. gr. frv. um það, að alþingismenn megi ekki vera bankastjórar, en það tel jeg í raun og veru það sama og að svifta bankastjórana kjörgengi.

Því hefir verið haldið fram, að þetta væri brot á stjórnarskránni. Um það skal jeg ekkert segja að svo stöddu. En á það vildi jeg benda, að ef þetta verður samþ., þá hefir Alþingi þar með slegið föstu, að með einföldum lögum megi útiloka menn frá þingsetu, og er ekki ósennilegt, að fleiri stjettir komi á eftir, sem verði að beygja sig undir þetta ok. Ef þetta verður gert nú, finst mjer komið inn á þá braut, að Alþingi geti hvenær sem er svift menn kjörgengi, og þegar svo er komið, verður ómögulegt að segja, hvað langt það getur gengið.

Í fyrra bar einn af hv. þm. Ed., sem sjálfur telur sig aðalforingj á næststærsta flokksins í þinginu, fram till. um það að svifta sýslumenn og bæjarfógeta kjörgengi, og allir vissu, að ástæðan til þess var sú, að flm. var persónulega í nöp við einn af bæjarfógetunum, sem átti og á sæti á þinginu. Að vísu var till. þessi steindrepin, sem sjálfsagt var líka, en komist nú þessi flokkur í meiri hluta, er ekkert sennilegra en að þessi till. eða önnur samskonar stingi aftur upp höfðinu og verði samþ. í lagaformi. Jeg get líka bent á, að þessi sami flokksforingi, sem flutti till. í fyrra, hefir þrásinnis bæði í ræðu og riti hamrað á því, að íslenskir kaupmenn væru slíkir skaðræðisgripir þjóðfjelagsins, að þeir ættu að hverfa úr sögunni sem allra fyrst. Um þessa hættulegu menn hafa staðið langar árásargreinar í blöðum flokksins og tímariti, sem hann gefur út. Nú er vitanlegt, að innan kaupmannastjettarinnar eru sumir nýtustu og bestu synir þjóðarinnar og að slíkar árásir, sem bornar hafa verið á þá, eru með öllu ómaklegar. En fari nú svo, að þessi flokkur, sem hefir það á stefnuskrá sinni að ganga milli bols og höfuðs á kaupmannastjettinni, komist í meiri hluta á Alþingi, má búast við, að það verði eitt af fyrstu frægðarstrikum hans að svifta alla kaupmenn kjörgengi.

Hver takmörk verði fyrir þessu, er ómögulegt að segja, ef gengið verður inn á þá braut að banna með einföldum lögum ákveðnum mönnum þingsetu. Þess vegna mun jeg greiða atkv. þeirri till. nefndarinnar að nema þetta ákvæði úr frv., því að jeg tel stórhættulegt til frambúðar að skapa það fordæmi, að svifta megi menn slíkum rjettindum með einföldum lögum.