13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3241 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

20. mál, Landsbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Örfá orð vildi jeg segja út af brtt. mínum. A-liður 1. brtt. hefir áður komið fram í Ed. sem brtt. við 14. gr., að seðlabankinn veiti lán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga, og virðist hann mjög sjálfsagður, þar sem bankanum er heimilt að kaupa og selja skuldabrjef slíkra bæjar- og sveitarfjelaga.

Þá er b-liður till., að bankinn geti annast öll nauðsynleg bankastörf eins og upprunalega var í frv. Jeg álít rjettara að hafa verksvið bankans rýmra.

2. brtt. er um það, að endurskoðendur bankans verði kosnir af þinginu, eða þeirri deild, sem fjárveitingavaldið hefir, sem er Nd., þótt nú á síðari tímum virðist svo, sem hin deildin ætli að taka sjer það vald. Tel jeg miklu heppilegra, að þingið ráði vali mannanna en að stjórnin skipi þá. Það má ef til vill segja, að ef Alþingi færi að kjósa endurskoðendur, þá sje hættara við, að pólitík komist inn í málið. En eins og jeg benti á áðan með háttv. 2. þm. Reykv., þá getur pólitík jafnt komið til greina, þótt stjórnin skipi þá, og er jafnvel engu líkara en þeir sjeu skipaðir mjög einhliða úr flokki stjórnarinnar. Ef Nd. kysi endurskoðendurna, yrði án efa hvor af sínu sauðahúsi, og gætu leyst störf sín jafnvel af hendi og þótt þeir væru skipaðir af stjórninni einni úr flokki hennar.

Brtt. við 34. gr. er þess efnis, að í stað þess, að bankaráðsmenn hafa verið kosnir 2 úr Ed., 2 úr Nd. og formaður skipaður af stjórninni, þá verði þeir allir kosnir með hlutfallskosningu af Nd. Alþingis. Sama gildir um varamenn. Þá hefi jeg ætlast til með brtt., að kosningin gilti til þriggja ára, í stað 4–5 ára. Álít jeg það heppilegra, og þyrftu ekki að verða mikil mannaskifti af þeim sökum, ef mennirnir stæðu vel í stöðu sinni, en mikill kostur að geta skift um á skemmri tíma, ef þess gerðist þörf.

Þá sje jeg ekki ástæðu til þess, að stjórnin skipi formann bankaráðsins, og eru fyrir þeirri skoðun minni sömu ástæður og fyrir kosningu endurskoðenda.

Þá eru eftir 2 brtt.; hin fyrri, að kosning í bankaráð fari fram í fyrsta skifti á Alþingi 1928, og hin síðari, að lög þessi öðlist gildi 1. mars 1928, en ekki þegar í stað.

Jeg álít, að þegar ráðist er í slík stórmál eins og að gera nýja löggjöf um Landsbankann, eða í raun og veru að stofna nýjan banka, þá megi ekki ráða því til lykta fyr en eftir að kosningar til Alþingis hafa farið fram.

Þá má stjórnin heldur ekki hafa rjett til þess að skipa bankaráðsmenn til 5 ára.

Mjer finst of langt gengið, ef þetta verður samþykt, að tefla svo á tæpasta vaðið síðustu dagana hjer á Alþingi, að gera svo alvarlegar ráðstafanir sem þær, hverjir fara með yfirstjórn peningavaldsins í landinu. Jeg get skilið, að stjórninni sje það kappsmál að geta skipað bankaráðsformann, en það verður að taka meira tillit til þess, að nýjar kosningar eru fyrir dyrum, og önnur stjórn mun að líkindum setjast í valdasessinn innan skamms.