13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3244 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. (Magnús Jónsson):

Brtt. þær, sem nú hefir verið útbýtt á þskj. 591, frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), hafa ekki verið bornar undir fjhn., og er það óheppilegt, að þeim skuli vera útbýtt svo seint, og get jeg því engu skilað frá nefndinni um þær. En mjer líst svo á, að jeg muni greiða atkv. á móti þeim. Mjer sýnast þær allar svo vaxnar. Annars hefir mjer ekki gefist neitt tilefni til að svara. Jeg gæti, ef jeg vildi, út af orðum háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) reynt að bera í bætifláka fyrir milliþinganefndina. Það stendur mjer nærri. Jeg verð aðeins að segja það, að frv. milliþinganefndarinnar liggur til grundvallar fyrir þessu frv., sem hæstv. stjórn hefir lagt fyrir þetta þing. Háttv. þm. (JAJ) taldi sjerstaklega tvo kosti, sem þetta frv. hefði fram yfir hitt. Kosturinn sá, að skilja deildir bankans sundur, er þó frá milliþinganefndinni. Hún stakk fyrst upp á að halda deildum bankans aðskildum, þótt hún vildi ekki ganga svo langt að aðskilja þær algerlega, heldur aðeins bókfærsluna, í þeim tilgangi, að hægt væri að kljúfa bankann, ef rjettara þætti að láta seðlabankann starfa óháðan.

Jeg skal ekki um það segja, hvort það væri til bóta að kljúfa bankann alveg, en að milliþinganefndin gekk ekki lengra, var af því, að hún var ekki viss um, að hægt væri að skilja á milli þannig, að það ekki hreint „tekniskt“ rækist á.

Hinn kosturinn var sá, að dómi hv. þm. N.-Ísf., að lögð hefir verið niður Landsbankanefndin og sett bankaráð í staðinn. Hefði það fyrirkomulag, sem nefndin stakk upp á, staðið óbreytt, er jeg þess fullviss, að það hefði reynst betur; en hitt er satt, að nefndin leggur ekki svo mikið upp úr þessari Landsbankanefnd, að hún setji tilvist hennar á oddinn sem deiluatriði. En nú er það komið á daginn, er skifta á niður á aðra aðilja störfum hennar, þá er fult af deilum um það, hver eigi að taka að sjer þessi störf. T. d. er nú sundurþykkja um skipun endurskoðenda, hvort rjettara sje að leggja það starf á herðar Alþingi eða ráðherra.

Annars ætla jeg ekki að deila um þessi atriði. Einn lítur svo á, að þau sjeu til bóta, en annar ekki, eins og gengur. Jeg vildi aðeins minnast á, að þetta um skifting bankans er upphaflega frá milliþinganefndinni. En jeg vil ekki gefa ástæðu til að tefja umr., og læt því máli mínu lokið.