13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

20. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf að segja örfá orð út af. því, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði síðast. En áður en jeg geri það, ætla jeg að gera grein fyrir atkvæði mínu um sjerstakt atriði í frv.

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að jeg legði ríka áherslu á, að breytt yrði einu atriði í 1. gr. frv., þar sem tekið er fram, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans, nema sjerstaklega sje ákveðið með lögum. Jeg tel ófært og óforsvaranlegt, að landið reki stofnun og taki ekki afleiðingunum, sem þeim rekstri fylgja, og þar sem ríkissjóður hlýtur hagnaðinn, ef einhver er, verður hann líka að bera áhættuna. Út frá þeim forsendum mun jeg fylgja eindregið brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef), á þskj. 568, og jeg verð að telja þetta slíkt aðalatriði, að verði þessi brtt. ekki samþ., treysti jeg mjer ekki til að greiða atkv. með 1. gr., en það táknar ekki, að jeg hafi ákveðið að greiða atkv. á móti frv. í heild sinni. Gefst tækifæri til að athuga það við 3. umr., því að þangað til er opin leið að breyta þessu. Um fleiri einstök atriði ætla jeg ekki að tala, fyr en þá við 3. umr.

Eins og í fyrra sakna jeg eins þýðingarmikils ákvæðis, en það er um það, hvernig fje bankans skuli skiftast milli atvinnuveganna. Jeg er ekki ánægður með afgreiðslu þessa máls, nema svo sje kveðið á, að fengin sje trygging fyrir því, að hið sama eigi sjer ekki stað áfram sem hingað til, að nálega alt veltufje bankans beinist til atvinnurekstrar í kaupstöðum. Jeg legg áherslu á, að ákveðinn hluti af veltufje bankans gangi til landbúnaðarins, og mun koma með brtt. um það við 3. umr.

En annað var það, sem olli því, að jeg stóð upp, sem sje síðustu orð hæstv. forsrh., er hann var að tala um afgreiðslu þessa máls. Var sú meining orða hans, að þingmenn, allir þeir, er hjer eiga sæti, mættu blygðast sín, ef þetta frv. væri ekki afgreitt nú á þessu þingi. Er það mjög óvarlega mælt. Jeg vil benda hæstv. forsrh. á það, að þetta mál er nú mjög komið í eindaga og það er algerlega á ábyrgð hæstv. landsstjórnar, að þetta alvarlega og þýðingarmikla mál ber svo að. Það er svo sorglegt, hversu komið er, að jeg get ekki annað en haft samvisku af því að þurfa að leggja hendur á afgreiðslu þessa máls undir slíkum kringumstæðum.

Málið er ekki afgreitt frá Ed. fyr en 84 dögum eftir að Alþingi kemur saman. Því er haldið svona óhæfilega lengi í Ed., og þó hefir hæstv. landsstjórn fullkominn meiri hluta bæði í deildinni og nefnd þeirri, er um það fjallaði. 1. umr. í Nd. stendur ekki yfir nema einn dag og málinu vísað til 2. umr. strax í Nd. Afleiðingin er sú, að þótt höfð verði hröð afgreiðsla á þessu máli, þá er fyrirsjáanlegt, að halda verður þinginu nokkrum dögum lengur þess vegna. Og það er á ábyrgð hæstv. landsstjórnar og meiri hluta hennar í hv. Ed. Tvö atriði í meðferð málsins vil jeg sjerstaklega benda á.

Frv. kemur til Nd. ákaflega breytt og nefndin, sem fær það til afgreiðslu, getur ekki haft það til athugunar nema í 6–7 daga, og þegar svo er liðið á þingið, eru allir hlaðnir störfum og þreyttir eftir margra vikna þingsetu og geta því ekki lagt þá alúð við málið sem skyldi. Og svo þegar málið er loks afgreitt frá nefndinni, eftir þennan stutta tíma, eina 6 daga, eru bornar fram við það hvorki fleiri nje færri en 42 brtt.; frá hv. meiri hl. fjhn. og öðrum nefndarmönnum 35 brtt. og frá öðrum þm. 7 brtt. Á öllum þessum brtt. á maður að átta sig nú í lok þingsins, er órói og umrót er komið á hugi manna. Jeg álít það næstum frágangssök að þurfa að gera það.

Þar við bætist, að brtt., sem samþ. var í háttv. Ed., en orðuð af hæstv. forsrh., er talin fela í sjer brot á stjórnarskrá landsins. Að minsta kosti er svo talið af sumum. Og jafnvel af eindregnum fylgismanni hæstv. stjórnar, sem er lögfræðingur, hefir því verið lýst yfir, að þar væri fullkomlega um stjórnarskrárbrot að ræða. Og sama var að skilja á hæstv. forseta (BSv), er hann var beðinn úrskurðar um, hvort málinu skyldi ekki vikið frá fyrir þær sakir. Ofan á alt þetta á að ráða fram úr þessu nú á þessum flaustursfundi, þar sem kastað er fram 7 brtt. skriflegum og vjelrituðum og afbrigði veitt á síðustu stundu, tveim dögum eftir að fjárlög eru afgreidd og allir eru að búast til brottfarar. Þar sem þetta verður að teljast hið alvarlegasta mál fyrir þjóðina, sem þinginu er því skylt að ganga frá með gætni, er slík meðferð og afgreiðsla með öllu óforsvaranleg.

Og jeg lýsi því hjer með á hendur hæstv. landsstjórn, að hún ber alla ábyrgð á, hversu óverjandi þessi afgreiðsla er á slíku stórmáli.