13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3255 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

20. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi getið þess áður, að það er ekki fyrst og fremst af því, að ríkið ætti að fá ágóðann af rekstri bankans, að jeg áliti, að það eigi að bera ábyrgð á skuldbindingum hans. Jeg gat þess þegar við 1. umr. þessa máls, að eins og jeg áliti það siðferðilega óverjandi, að einstaklingar bæru ekki, eftir getu, ábyrgð á sínum skuldbindingum, eins áliti jeg það óforsvaranlegt, að ríkið beri ekki ábyrgð á Landsbankanum. Landsbankinn býður mönnum að taka við fje af þeim til geymslu, og ríkinu, sem er eigandi hans, er skylt eða á að vera skylt að bæta þeim tjónið, ef fjeð tapast.

Jeg vil ekki karpa við hæstv. forsrh. um skiftingu veltufjárins milli atvinnuveganna í landinu. Það atriði liggur ekki fyrir hjer nú. En það mun liggja fyrir við 3. umr. brtt. um þetta. En í ljósi þeirrar reynslu, sem fengin er, þori jeg ekki að treysta neinu bankaráði eða neinni bankastjórn til að skifta þar rjett af sjálfsdáðum, því að það er kunnugt, að landbúnaðurinn hefir hingað til verið mjög svo afskiftur.

Hæstv. forsrh. talaði um pólitískar bollaleggingar hjá mjer. Jeg vil heldur kalla það játningar. Það er alvara, sem kemur upp hjá mjer yfir því hroðvirknislega flaustri, sem haft er á afgreiðslu þessa máls.

Málið kemur fyrst hingað til 2. umr. 2 dögum eftir að fjárlög hafa verið afgr. og þegar að því er komið, að þm. fari að pakka niður í poka sína og halda heimleiðis. Þá fyrst kemur málið fyrir til 2. umr. með 42 brtt. og þá á. að knýja það áfram með afbrigðum.

Hæstv. forsrh. hjelt því fram, að breytingar þær, sem nú hafa orðið á frv., sjeu ekki stórvægilegar. Um það ætla jeg ekki að deila, en jeg ætla að láta hans eigin flokksmenn vitna á móti honum.

Þar til vil jeg nefna þá hv. þm. N.- Ísf. (JAJ), hv. þm. Ak. (BL) og hv. þm. Barð. (HK). Þessir hv. þm. voru allir mjög eindregið á móti frv. í fyrra, en telja sig nú geta fylgt því, vegna hinna miklu breytinga, sem orðið hafi á því til bóta. Þessir menn vitna þannig allir á móti hæstv. ráðh. í þessu efni.