16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3261 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

20. mál, Landsbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi ásamt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) borið fram brtt. á þskj. 606. Fyrsti, annar og fjórði liður brtt. lúta að því, að nafni bankans verði breytt, hann verði látinn heita Þjóðbanki Íslands, í stað þess nafns, sem hann nú hefir. Þegar Landsbankinn var stofnaður árið 1885, stóð öðruvísi á en nú. Þá var landið talið óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sjerstökum landsrjettindum. Jeg býst við, að nafn bankans hafi verið valið með tilliti til þessa, enda ber það nokkurn blæ af ósjálfstæði landsins, eins og það var þá. Nú er þetta breytt, við erum frjáls og sjálfstæð þjóð, og er því ekki nema eðlilegt, að breytt sje um nafn á aðalbanka landsins. Það stendur nú svo einkennilega á, að þessir tveir bankar, sem við höfum, heita sama nafni, Landsbanki Íslands og Íslandsbanki — bæði nöfnin þýða eitt og hið sama. Það er eins og seinni bankinn hafi lagt undir sig nafn hins fyrri, enda mun sú hafa verið meiningin upphaflega, að Íslandsbanki legði Landsbankann undir sig. Það kemur og berlega fram í 1. gr. þessa frv., að bankanum er ekki valið rjett nafn. Þegar heiti hans er þýtt á erlendar tungur, þá er það rangþýtt og lagt út eins og bankinn hjeti Þjóðbanki Íslands. Því væri rjettast að kalla hann Þjóðbanka, og væri þá óþörf þessi þýðing í 1. gr.

Önnur ástæða til nafnbreytingar er sú, að nú eru tímamót í sögu bankans. Nú er hann grundvallaður líkt og þjóðbankar annara landa. Jeg get ekki sjeð ástæðu til þess að hafa á móti þessu nýja nafni, þótt gömlu og þektu nafni sje slept, þegar það nafn er þeim annmörkum bundið, að þegar þarf að þýða það á erlendar tungur, þá þarf að rangþýða það.

Þá er þriðji liður brtt. við 47. gr. frv. Hann er dálítið skyldur brtt., sem borin var hjer fram við 2. umr. og þá feld. En sú till. var víðtækari en þessi; hún fór fram á, að opinberir sjóðir og fje, sem opinberir starfsmenn hafa undir höndum, og handbært fje ríkissjóðs skyldi ávaxtað í Landsbankanum. Ástæðurnar, sem voru færðar fram gegn þessari till. þá, voru einkum þær, að með þessu væri um of skertur hlutur annara banka með sparifjárgeymslu. Í þessari till. okkar höfum við aðeins tekið hina opinberu sjóði, en ekki tekið hin ákvæðin með. Það má játa það, að það geti verið óhentugt í sumum tilfellum að skylda alla starfsmenn, sem opinbert fje hafa undir höndum, til þess að ávaxta það í Þjóðbankanum, en það getur aldrei valdið neinum óþægindum að hafa fje opinberra sjóða ávaxtað þar. Það eru og þau minstu einkarjettindi, sem hægt er að veita Þjóðbankanum fram yfir einkabanka. Fje þetta er lagt á vöxtu í ákveðnum tilgangi og eftir fyrirfram ákveðnum föstum reglum, og því eitt hið stöðugasta starfsfje, sem einn banki getur haft, og þarf ekki að óttast, að það verði þá og þegar hrifsað út fyrirvaralaust. Ef ákveðið er í stofnskrá slíkra sjóða, að fjeð skuli ávaxtað annarsstaðar, þá verður það auðvitað gert, en ef slík ákvæði eru ekki til staðar, þá er Þjóðbankanum áskilinn rjettur til þessa fjár. Jeg hefi ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Það hefir verið rætt alment áður hjer. En jeg verð fyrir mitt leyti að telja það hatramlegt, ef menn vilja ekki áskilja Þjóðbankanum þau litlu forrjettindi fram yfir aðra banka, að ávaxta fje opinberra sjóða.