16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3267 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

20. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer þótti ekki þörf að mæla með till. við þessa umr. Hún er svo lík till., sem áður hefir verið borin fram, nema hvað feld hafa verið úr henni nokkur atriði. Jeg vona því, að hæstv. forseti sjái sjer fært að taka till. til greina. Mjer þykir það undarlegt, ef till. er hættuleg fyrir framgang frv. í hv. Ed., þó hún yrði samþykt. Till. fer fram á það að leysa aðra bankaráðsmenn en formann frá daglegu eftirliti í bankanum. Og þó að till. verði ekki samþykt, þá mun það þó í framkvæmdinni verða svo, að þeir koma ekki daglega í bankann. Áherslan í fyrri till. er lögð á, að daglegt eftirlit er falið formanni, en samt sem áður eru hinir bankaráðsmennirnir ekki leystir frá skyldu sinni um það að fylgjast vel með öllum rekstri bankans. Ef till. verður samþ. og það yrði til þess, að málið kæmi aftur til þessarar hv. deildar, þá vil jeg heldur einum þingfundi fleiri heldur en að bankaráðið alt yrði 270 daga á ári í bankanum til engra þarfa. Hin brtt. er um það, að gerðabók bankaráðsins skuli ekki lögð fyrir fjhn. Alþingis. Þær geta vitanlega heimtað það, ef þær vilja. Till. þessar eru frábrugðnar þeim till., sem áður hafa komið fram.

Vitanlega má samþykkja aðra till., þó hin verði feld.