16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

20. mál, Landsbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg tel óþarft að segja mikið út af ummælum hæstv. forsrh. (JÞ) um till. okkar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). En jeg vildi aðeins benda á það, að ummæli hans snertu lítið kjarna málsins. Viðvíkjandi nafnbreytingunni gat hæstv. ráðh. þess, að bankastjórnin væri henni andvíg, en af hvaða ástæðum, sagði hann ekki. Það liggja ekki í augum uppi ástæðurnar fyrir því að mega ekki nefna bankann rjettu nafni. Enda þótt bankastjórnin hafi ekki getað fallist á nafnbreytinguna 1925, þá hafa ástæður breyst síðan að því leyti, að nú er búið að ráðstafa endanlega seðlaútgáfunni, svo að nú er meiri ástæða til þess en áður að breyta nafni bankans eins og farið er fram á í till. okkar.

Viðvíkjandi 3. brtt. skal jeg taka það fram, að mótmæli hæstv. ráðh. snerta ekki till. Hann vildi mótmæla framkomu hennar á þeim grundvelli, að samskonar till. hefði verið feld hjer í hv. deild við 2. umr. þessa máls. En þetta er ekki rjett hjá hæstv. ráðh., því hjer er ekki um samskonar till. að ræða. Till. sú, sem nú liggur fyrir, fer fram á það, að aðeins opinberir sjóðir, sem standa eiga á vöxtum samkvæmt skipulagsskrá, skuli standa á vöxtum í Landsbankanum. Þetta fje er fast og örugt starfsfje og því rjett og sjálfsagt, að það sje látið vera á vöxtum í Landsbankanum. Það, sem felt var úr till. eins og hún var við 2. umr., var fje annara opinberra stofnana, ríkisfje og fje það, er opinberir starfsmenn hafa undir höndum. En þar sem hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur, þá sje jeg ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.