14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3281 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Það er rjett, sem segir í aths. við þetta frv., að öðruhverju hafa verið að koma fram till. til breytinga á stjórnarskránni. En flestir munu líta svo á, að þeim brtt. hafi verið þannig varið, að aldrei hafi verið ætlast til, að þær væru samþyktar.

Stóru flokkarnir hafa verið að „filma“ fyrir kjósendur í þessu máli. „Framsókn“ og „íhald“ hafa hvort í kapp við annað borið fram tillögur til þess að geta sagt við kjósendur: Við viljum spara meira en hinir. — Jeg hefi nú aldrei haft mikla trú á þessum vilja þeirra, enda hefir það altaf komið í ljós, að á síðustu stundu hefir verið skotið inn fleygum til að drepa alt saman. Og jeg hugsa, að það fari svo enn. Það hefir t. d. verið talað hátt um það að hafa þing aðeins annaðhvert ár, en stjórnin er ekki svo einlæg, að hún beri það eitt fram.

Ekki er því að leyna, að jeg álít breytingarnar, sem hjer er farið fram á, flestar til hins verra. Það á að ganga í kjósendur að hafa þing aðeins annaðhvert ár. En hver var reynslan meðan þetta var í stjórnarskránni? Voru ekki altaf aukaþing? 1912–1920 fjell ekki niður þinghald nema e. t. v. eitt einasta ár. Ætli það færi ekki eins enn? Gætu ekki komið fyrir svo vandasöm mál milli þinga, að stjórninni væri hvorki trúandi til nje hún þyrði sjálf að skera úr þeim eða framkvæma nokkuð upp á eigin spýtur.

Enda þótt þinghald annaðhvert ár hafi verið nægilegt fyrir tugum ára, meðan atvinnulífið var fábreyttara, er nú öðru máli að gegna. Síðan hafa atvinnuvegir manna og lifnaðarhættir breytst svo, að ómögulegt er að komast hjá þingi á hverju ári. Jeg býst því við, að þessi sparnaðarfluga sje ekki annað en munnfleipur eitt. Því að árlega eru vandamál, sem heimta þinghald, svo að kostnaðurinn yrði nokkurnveginn sá sami. Jeg hygg, að fyrir hvert þing síðan 1920 hafi komið eitthvert það vandamál, sem hefði gert það nauðsynlegt að kalla saman aukaþing, ef ekki hefði verið árlegt þing á þessum tíma. Hvað segja menn t. d. um bankamálin. Mundi þingið hafa trúað hverri óvalinni stjórn til að ráða fram úr þeim?

Þingi annaðhvert ár fylgir rjettindaskerðing fyrir almenning. En það þykir ekki vænlegt að ganga framan að kjósendum og segja: Nú á að minka kosningarrjett ykkar. En það er þetta, sem farið er fram á. Þeir, sem hafa fengið að kjósa þingmenn fjórðahvert ár, eiga nú ekki að fá að kjósa nema sjöttahvert ár.

Jeg held, að stefnan eigi ekki að vera sú, að ganga lengra í íhaldsáttina. En það er skiljanlegt, að stjórnin vilji lofa þinginu að fara heim, og hafa svo frið, — ekki til að vinna, heldur til að geta aukið sín flokksvöld í landinu.

Í þessu frv. er e. t. v. eitt ákvæði, sem mætti kallast gott, þetta um varamennina. En nú vill svo til, að það er með öllu óþarft. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar er ekkert ákvæði, sem bannar, að varamenn sjeu svo margir sem verkast vill. Hitt er og vitanlegt, að sá, sem samdi kosningalögin, ætlaðist til, að varamenn mættu koma meðan þeir entust, þótt honum hafi ekki tekist höndulegar að orða þetta. Þess vegna þarf enga stjórnarskrárbreytingu til að koma þessu fram.

Svo eru sjerstöku ákvæðin um stundarsakir í þessu frv., sem mótast af flokkshagsmunum Íhaldsmanna. En það verður að teljast hæpið að fara fram á stjórnarskrárbreytingu til þess að lengja kjörtímabil nokkurra íhaldsmanna en stytta kjörtímabil andstæðinganna. Það er svo sem auðvitað, að íhaldið vill hlynna að sjer, en þetta verður þó að teljast óviðeigandi langt gengið.

Ef breytingar á að gera á stjórnarskránni, þá verður að taka til greina þær kröfur, er almenningur gerir til slíkra breytinga. Almenningur vill, að feld sjeu burtu þau ákvæði, að menn sjeu sviftir kosningarrjetti, ef þeir hafa neyðst til þess að þiggja sveitarstyrk. Einnig krefst almenningsálitið þess, að aldurstakmark fyrir kosningarrjetti sje fært niður, og hefði stjórnin átt að koma með frv. þar að lútandi. En þetta frv., eins og það er út búið, er að færa ákvæði laganna í svartasta íhald, og vona jeg, að flokkarnir í þinginu komi sjer saman um að fleyga frv. og drepa það síðan, eins og gert hefir verið á undanförnum þingum.

Jeg held, að margir líti svo á, að stjórnarskrána beri að skilja svo, að ráðherrar eigi að vera fleiri en tveir. Hæstv. forsrh. hefir nú vísað til venjunnar og haldið því fram, að ráðherrar þurfi ekki að vera nema tveir, en orðalag stjórnarskrárinnar bendir til annars. Því er haldið fram, að sparnaður sje að þessu, að hafa ráðherra aðeins tvo, en jeg sje ekki, að svo sje, ef þessir tveir ráðherrar skifta á milli sín launum hins þriðja. En þetta hefir verið gert, og fjárlagafrv. hæstv. stjórnar gerir nú ráð fyrir þrennum ráðherralaunum. (Forsrh. JÞ: Ráðherrarnir hafa aldrei skift á milli sín launum hins þriðja). Jú; kannske ekki öllum laununum, en þó nokkru af þeim.

Breytingartillögurnar í frv. þessu eru ekki þess eðlis, að þær eigi að ná fram að ganga. Væru þær einhliða túlkaðar í eyru kjósenda, má vera, að þeir haldi, að með brtt. sje stefnt í sparnaðarátt, sjerstaklega með því að hafa ekki þing nema annaðhvert ár, en sje kjósendum bent á reynsluna, að atvikin heimta það, að þing sje haldið á hverju ári, þá verður lítið eftir af sparnaðarástæðunni.

Jeg býst ekki við því að komast í þá nefnd, er skipuð verður í þetta mál. Hinir flokkarnir munu skifta nefndarmannasætunum í milli sín. Má og vera, að nú verði meira samkomulag á milli þeirra um stjórnarskrárbreytingar en áður hefir verið, en ólíklegt finst mjer það, og reynslan bendir til hins gagnstæða. Jeg skil varla, að það sje samkomulag um það atriðið, að stytta kjörtímabil andstæðinga hæstv. stjórnar, en lengja kjörtímabil íhaldsmanna.